Færsluflokkur: Bloggar
3.3.2007 | 19:27
Grenaa og gamla konan
Dagurinn fór í það að skoða bæinn Grenaa, 50 km héðan frá Egå. Fórum fyrst í Kattegatcentret, stað sem óhætt er að mæla með ef menn eru á ferð um Jótland. Þetta er stórt sædýrasafn og er sérstaklega gaman að ganga um "neðansjávar" með stóra hákarla syndandi í kringum mann.
Gengum svo eftir ströndinni um stund, en héldum svo í miðbæinn. Þar er stór og falleg kirkja sem við skoðuðum. Kirkjuvörðurinn var þessi eldri kona og þegar við höfðum sýnt kirkjunni og gripunum áhuga um stund komst hún virkilega á flug og sýndi okkur og sagði frá ýmsu sem þarna er innanstokks. Rökræddum við altaristöflur og prédikunarstóla, kirkjubruna, skakkar flísar á gólfi og þar fram eftir nótunum. Þegar við reyndum að kveðja fyrsta sinni, dró hún okkur enn og aftur inn í hliðarherbergi og ganga kirkjunnar. Þetta var hin besta skemmtun, en við fengum á tilfinninguna að ekki hefði verið sérlega gestkvæmt upp á síðkastið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2007 | 21:48
Vorið er komið og...
Vorið kom í dag. Sólin skein, snjórinn bráðnaði, við fórum í langa gönguferð í blíðunni og lögreglan barðist við lýðinn í Köben.
Vorið breytir ýmsu. Maður verður léttari í lund og frárri á fæti - og svo breyttist framsetning veðurfréttanna í sjónvarpinu í áttina að sumri!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.2.2007 | 21:39
Takk fyrir veturinn!
Í dag var síðasti vetrardagur samkvæmt dönsku tímatali. Á morgun byrjar vorið. Það kemur sem sagt ekki sumardagurinn fyrsti á eftir síðasta vetradegi. Fjölmiðlar gerðu upp veturinn í dag og kom engum á óvart að hann reyndist hinn hlýjast og blautasti síðan mælingar hófust fyrir hálfri annarri öld. Raunar held ég að vorið hafi byrjað í dag, a.m.k. hlýnaði verulega og snjórinn lætur hratt á sjá.
Óvenju rólegir daga hjá okkur, engin ferðalög, bara skólar og heimanám hjá okkur öllum. En þessi rólegheit munu ekki standa lengi, við erum á fullu að skipuleggja næstu ferðalög. Meira um það síðar.
Svo gerðist það í dag að ruslakarlarnir birtust í götunni. Var liðinn nákvæmlega mánuður síðan það gerðist síðast. Raunar ótrúlegt hvað maður var orðinn laginn við að gera lítið úr ruslinu og sagt er að þetta verkfall hafi kennt Dönum meira í flokkun sorps en allur áróður yfirvalda síðustu áratugi.
Svo viljum við bara þakka fyrir veturinn og segjum "Gleðilegt vor".
PS. þetta blogg er svolítið þvingað, ég hafði svo sem ekkert að segja. Ég vil bara ekki láta Stefán Þór halda að mér hafi sárnað fyrri athugasemd hans við síðustu skrifum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.2.2007 | 15:40
Flagð undir fögru skinni
Samgöngur í Danmörku eru heldur teknar að færast til betri vegar. Þó eru vegir enn víða lokaðir og skafrenningur til vandræða. Til að bæta svo gráu ofan á svart er nú tekið að rigna þó hitamælar sýni um einnar gráðu frost. Nú hleðst ísing á alla skapaða hluti, vegir sem búið var að skafa eru flughálir, raflínur slitna og þar fram eftir götunum.
Við hjónin fórum samt út að fá okkur ferskt loft eftir hádegið, heimsóttum m.a. borgarbókasafnið og dáðumst að því hvernig flökunarvél úr frystihúsi hefur verið breytt í bókamóttöku- og flokkunarvél. Verst er að ferlíkið er svo gríðarstórt að það tekur góðan hluta af húsnæði safnsins.
Gengum svo upp Vesturgötu að Sprogskólanum hennar Gunnu. Beint á móti skólanum er kráin með þessu fallega nafni. Gallinn er bara sá að þetta er mest skítabúlla sem við höfum fundið í borginni. Ég slysaðist einu sinni þarna inn á meðan ég beið eftir að Gunna kæmi úr skólanum og fékk mér kaffibolla innan um skítuga hunda og fyllibyttur. Á ekki eftir að leggja leið mína þangað aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2007 | 07:59
Ekki batnar ástandið
Ástandið hér í Danmörku er lítið betra þennan morguninn en það var í gær. Það má þó komast um innanbæjar í Árósum og stærri bæjum. Ekki grunaði mig að ég ætti eftir að hafa not fyrir fjórhjóladrifið hér í landi, en mikið ósköp er notalegt að vita af því þessa dagana. Hraðbrautir er opnar að nafninu til, en útkeyrslur af þeim víða ófærar. Sveitavegir eru víðast ófærir enda hvasst og skafrenningur. Svo er þetta alveg öfugt við það sem við þekkjum heima á Íslandi, hér eru það fyrst og fremst vanbúnir vörubílar sem loka vegunum fyrir betur búnum smábílum.
Nánast allir skólar eru lokaðir í dag. Tilkynningin á myndinni vakti gleði á heimilinu i morgun (hvað er annars langt síðan MA var lokað i tvo daga vegna veðurs?). Ég keyrði Gunnu niður í bæ í Sprogskólann, þar var kennarinn kominn og einn nemandi. Þegar Gunna mætti var því talið messufært og verður þeim kennt eitthvað fram eftir morgni.
Ég braust svo krókaleiðir framhjá föstum vörubílum upp í Háskóla og sit nú og bíð spenntur eftir því hvort kennarar og nemendur mæti á í tíma á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2007 | 15:40
Fullkomlega smekklaus þjófur
Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég fékk orðsendingu frá ræðismanni Íslands í Árósum í morgun. Hann bað mig að hafa samband við sig sem gerði auðvitað strax. Erindið vað þá að segja mér að honum hefði borist seðlaveski með mínum persónuskilríkjum. Þarna var komið veskið sem stolið var úr bílnum mínum um daginn.
Þegar götur bæjarins voru orðnar færar eftir hádegið fór ég og sótti veskið - og viti menn í því var allt sem þar átti að vera. Sérstaklega þótti mér vænt um að fá aftur ökuskírteinið mitt og þurfa ekki lengur að stóla á bráðabirgðapappíra frá Klöru og kó.
En okkur hjónum sárnaði þó verulega þegar við sáum að þjófsskepnan hafði ekki einu sinni tekið gömlu myndina af Gunnu sem ég hef gengið með í veskinu í um 30 ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2007 | 08:52
Það munaði þá ekki um það...
Danir hafa verið hálfmiður sín í vetur vegna þess að það hefur varla fallið snjókorn. Það litla sem hefur komið hefur horfið aftur með það sama.
En í morgun var komið annað hljóð í strokkinn, hér hefur verið stórhrið síðan í gær, vegir víða um land gjörsamlega lokaðir, víðast vegna þess að illa búnir vörubílar sitja fastir og ruðningstæki komast hvergi. Núna voru að berast þær fréttir að hjálparsveitir séu að flytja fólk sem setið hefur í bílunum síðan í gærkvöldi á hraðbrautum á Jótlandi inn í nærliggjandi íþróttahús og félagsheimili.
Við vissum svo sem ekki hvað gera skyldi í fyrst í morgun, vorum ekki með stillt á rétta útvarpsstöð og fannst ekki svo slæmt að horfa út. Bjarni fagnaði þó fljótlega - rauður borði á vefsíðu skólans, skólanum aflýst í dag (og átti að byrja á tvöföldum stærðfræðitíma!). Við fórum út, mokuðum frá bílnum og ókum af stað. Þá runnu á okkur tvær grímur, snjórinn ótrúlega þungur og rétt að fjórhjóladrifið okkar dygði út götuna. Bílar fastir á götunum og svo framvegis. Svo fóru að berast tilkynningar um útvarpið að menn ættu að halda sig heima. Við snérum því bara heim í stofu og látum fara vel um okkur heima við um sinn.
Danir reyna þó að sjá skoplegu hliðarnar, enda hafa engir mannskaðar orðið. Það stóð þó tæpt þegar skólabíl valt í gærkvöldi rétt hjá Randers. Það skoplegasta í morgun er það "skraldemændene" aflýstu verkfallinu í gærkvöldi og mættu til vinnu í morgun. Þeir voru þá snarlega sendir heim aftur vegna veðurs! En snjórinn hylur sorphaugana í miðbænum og allt lítur fallega út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2007 | 10:49
Að hugsa sér til óbóta
Það verður bara að segjast eins og er, allar mínar áætlanir um að taka námið "hæfilega alvarlega" og vera ekki að streða við að skila verkefnum og taka próf, fuku út í veður og vind við óvænta velgengni mína á margmiðlunarprófinu í janúar. Nú er maður virkilega kominn i keppnisgírinn og skal nú sýna Dönum í tvo heimana.
Ég er með öðrum orðum í litlum áfanga um hönnun margmiðlunarefnis. Þar á að hanna og skila litlu verkefni sem síðan verður stækkað og skilað sem lokaverkefni í vor. Ég hef nú hellt mér út í þetta af fullum krafti, og eftir að kennarinn fékk mig ofan af því að brenna kirkjur og drepa mann og annan í miðbænum er ég nú kominn niður á jörðina og tekinn til við að hanna verkefni sem:
- Á að byggjast á landafræði og jarðfræði
- Vera fræðandi og skemmtilegt
- Byggi á HTML, XML, PHP, ASP, SQL, CSS, EXE, DHTML, MSN og fleiri skammstöfunum sem þykja fínar
- Gagnast mér og MA þar til ég fer á eftirlaun (lesist: "spara mér vinnu")
Mig skortir ekki hugmyndir, en það vita þeir sem reynt hafa, að við vinnu að hönnun og forritun sveiflast maður stöðugt milli upplifunar og örvæntingar, milli teóríu og praxis, milli virkni og algjörs heiladoða. Þeir sem þekkja mig vita líka að ég tek þessar sveiflur af mikilli fullkomnunaráráttu og smámunasemi.
Í gærkvöldi var svo komið að ég var fullkomlega bugaður af of hugarflugi og raunar með strengi í höfðinu í dag. Þar sem ég lá bjargarlaus í sófanum sá Gunna sér færi á að launa mér lambið gráa, henni finnst ég nefnilega óþarflega duglegur að grípa myndavélina þegar henni verður eitthvað á!
En mér líður þó mun betur í dag eins og ég vona að þetta blogg beri með sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2007 | 20:58
Nú er það svart...
Ég hef áður nefnt að ég hef ekki fundið íþróttafélag sem jafnast á við FIMMA og hef því orðið að sjá sjálfur um mína líkamsrækt. Framan af hausti viðraði vel til útiveru og ég var þá duglegur að hjóla og ganga um fjöll og dali Danaveldis.
Ég hef einnig nefnt að undanfarið hefur ekki viðrað til útivistar. Það virðist þó vera að rætast úr því og nú líða dagarnir hver af öðrum án stórrigninga og sólin er farin að glenna sig öðru hverju, komin hátt á loft. Hitastigið er þó alla daga rétt yfir frostmarkinu og fjandans næðingur með köflum.
Upp úr áramótum var okkur hjónum ljóst að eitthvað yrði að gera ef við við ættum að halda heilsunni fram á vorið. Því var enn haldið á vit "Gul og Gratis" á vefnum (sem Bjarni kallar raunar "nískuvef föður okkar" þegar hann talar við bræður sína) og viti menn - fann ég ekki þetta fína þrekhjól. Á hjólinu góða sitjum við hjónin nú (næstum) daglega og horfum á kaloríurnar hverfa eins og dögg fyrir sólu - a.m.k á mælitækjum hjólsins.
Og ég vil engar athugasemdir um klæðnað minn á hjólinu, nóg að Gunna skammaði mig fyrir að vera í flauelsbuxum á þessu ferðalagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2007 | 12:43
Sorphirða og einkarekstur
Þá erum við komin heim í grámann í Danmörku. Ótrúlega kalt þegar hitinn hangir rétt yfir frostmarki og napur vindur næðir um göturnar - heitir raunar "frisk vind" i veðurfréttunum.
Svo er hér í mið- og norðurhluta borgarinnar allt að fara á kaf í sorp. Búið að einkavæða sorphirðingu eins og margt annað. Eitt þriggja fyrirtækja á nú í stríði við starfsmenn sína út af sjálfsögðum réttindum þeirra og þeir hafa nú verið í verkfalli á aðra viku. Allar tunnur eru að fyllast og víða farið að flæða út úr þeim. Borgaryfirvöld segjast ekkert geta gert, það sé mál fyrirtækjanna (afskaplega kunnuglegur tónn!). Við erum nokkuð vel sett, en víða í götunni er ástandið orðið eins og á myndinni. Svo er að verða ansi sóðalegt í sjálfum miðbænum.
Og svo til Stefáns Þórs að lokum - af því honum finnst ég blogga mikið um reykingar Dana. Eftir að hafa verið á Spáni í nokkra daga án þess að vera plagaður af reykingum annarra var eins og að ganga inn í reykhús að koma inn í flugstöðina í Árósum.
En nú hafa verið sett lög um mjög víðtækt bann við reykingum í Danmörku. Taka þau gildi 1. apríl og er ekki ofsögum sagt að þjóðin sé á nálum yfir því hvað þá muni gerast. Er ekki síst titringur yfir konungsfjölskyldunni sem samkvæmt laganna hljóðan má frá og með 1. apríl nánast hvergi reykja vegna þess að þau eru alltaf með launamenn (þjónustufólk) í kringum sig!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar