Færsluflokkur: Bloggar
17.3.2007 | 17:09
Áfram FCK
Brugðum okkur bæjarleið í dag og, ókum til Skjern og horfðum á Arnór og félaga vinna stórsigur á liði Arons Kristjánssonar. Arnór stóð sig vel að vanda, ótrúlega góður drengurinn. Eftir að hann hafði skorað eða átt þátt í fyrstu fimm mörkunum var svo hart tekið á honum í vörninni að búningurinn rifnaði og þurfti hann að skipta. Þegar liðið var komið með 11 marka forystu í seinni hálfleik voru hann og fleiri lykilmenn teknir útaf og fengu að hvíla sig.
Að leik loknum gaf hann okkur rifna búninginn til að senda til Helga, en það er þó ekki víst að Bjarni láti hann af hendi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2007 | 19:13
Það er leikur að læra
Eins og margoft hefur komið fram var það aldrei ætlun okkar hjóna að taka námið mjög alvarlega. En svo kemur upp í þetta margfræga keppnisskap - eða þrjóska - og við gleymum öllum fögrum áformum. Þegar við komum heim í gær beið Gunnu bréf frá Sprogskólanum um að hún hefði náð prófinu um daginn með sóma og flyttist því með bekknum sínum upp á næsta stig í náminu. Vel af sér vikið sé til þess litið að hún hafði ekki tekið próf í marga áratugi. Hún er hins vegar ákveðin í að standa við upphaflegar áætlanir um að vera bara í skólanum fram að páskum, og njóta svo vorsins og taka á móti gestum eftir það.
Ég var sjálfur orðinn verulega efins um að ég hefði skilið kennarann minn rétt (ég á það enn til að skilja ekki allt sem sagt er á þessu undarlega tungumáli sem hér er muldrað). Gæti það verið að ég ætti að mæta með plakat í skólann? En úr því að ég var nú búinn að aka 1.000 km til þess að geta mætt í tímann varð ekki aftur snúið. Þegar ég mætti voru nemendur að tínast inn, hver með sitt plakat og létti mér mjög að sjá það. Það kom svo í ljós að mitt plakat var með þeim flottustu og með ræðunni sem ég flutti með sýningunni tryggði ég mér bestu umsögn og mikla hvatningu til að halda áfram á hönnunarbrautinni. Þar væri ég greinilega á réttri hillu!
Ég mun aldrei viðurkenna að ég hafi farið rangt með neitt, en ég lagaði ræðu mína nokkuð að lesefni sem kennarinn hafði sjálfur skrifað og lét sem flest á plakatinu falla að hans kenningum um gott hönnunarferli. Svo tókst mér að kenna stórhríðinni um daginn um það sem ekki passaði fullkomlega.
Bjarni var að koma úr stífri námsferð til Brussel þar sem hann fór m.a. í höfuðstöðvar NATO og ESB. Einnig könnuðu nemendur lítillega gæði belgíska bjórsins...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2007 | 22:29
Langur dagur að kvöldi kominn
Það var eins og okkur grunaði, það reyndist fullt dagsverk að aka þessa bæjarleið, milli Brugge og Árósa. Að ráðum heimamanna vorum við ekkert að flýta okkur af stað, heldur biðum af okkur mestu morguntraffíkina í Belgíu. Lentum þó í nokkrum töfum hjá Antwerpen, en slíkt er víst fremur regla en undantekning. Í Hollandi töfðumst við svo enn frekar þegar bílstjórinn hlustaði ekki á kortalesarann - og missti af einni útkeyrslu af hraðbrautinni. Raunar erum við sammála um að Hollendingar mættu fara yfir til nágranna sinna í Þýskalandi og læra að merkja vegina. Þeir sæju þá kannski að það er allt í lagi að merkja aðra staði en þá sem eru handan við næsta húshorn! Það væri þá hægt að keyra um án þess að vera með sífellt að leita að einhverjum smáþorpum á kortinu til að vita hvort maður er á réttri leið - og ég tek ekki við neinum athugasemdum um landafræðikunnáttu eða GPS tæki.
Enn töfðumst við svo á landamærum Hollands og Þýskalands, en þar hafði af einhverjum ástæðum verið tekin upp landamæravarsla og við krafin um vegabréf og fleiri pappíra, auk þess sem skoðað var í farangurinn okkar. Mér varð auðvitað á að gera það sem ég banna öðrum, fór að gantast aðeins við tollvörðinn. Hann spurði hvort við værum með eiturlyf eða vopn og ég svaraði því til að ég væri ekki alveg viss, við værum með töluvert af belgísku súkkulaði. Því betur var hann í sólskinsskapi í veðurblíðunni og svaraði að sennilega mætti setja það í báða flokkana, en hann skyldi þó sleppa okkur að þessu sinni.
Ókum norður Þýskaland í vorblíðu og ótrúlega megnri skítafýlu, enda virtist sem annar hver bóndi notaði daginn til að ausa for á akrana. Fylltumst nú bjartsýni á að við næðum heim á skikkanlegum tíma, en þá þurfti endilega að verða slys á hraðbrautinni milli Bremen og Hamborgar og hún lokaðist í um klukkustund. Þegar hún loksins opnaðist gekk umferðin skrikkjótt og vorum við óratíma að komast til Hamborgar. Var það í raun ekki fyrr en norðan við Kiel sem hægt var að halda jöfnum hraða.
Þetta hafðist þó allt og heim komum við eftir 13 tíma ferðalag og nákvæmlega 1000 km akstur - ótrúlega hress og kát eftir mjög eftirminnilegt ferðalag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2007 | 18:35
Hvað er svo glatt...
Enn eru góðir dagar að baki, gærdagurinn byrjaði með léttu rölti um kunnuglegar slóðir í Brugge. Rakst þó í fyrsta sinn þennan frábæra vínsala, sem tappaði á flöskur eftir óskum neytenda. Þarna kom m.a. gömul kona með rauðvínsflöskuna sína og fékk hana fyllta. Ég fór í viskítunnurnar! Í hádeginu borðuðum við með vinum okkur úr menntaskólanum - Luc og Giselu, Hilde, Dirk og Greet - og báðu auðvitað allir að heilsa ykkur heima. Meira röltu um bæinn og svo frábær kvöldverður með Noel, Marinu, Paul og Mínu. Verst hvað þeir karlarnir eru báðir lélegir til heilsunnar.
Í dag fórum við svo með lestinni til Brussel og eyddum deginum þar. Afskaplega vanmetin borg borg með ímynd skriffinnsku Evrópusambandsins og NATO, en gamli bærinn er mjög fallegur og margt að sjá.
Á morgun ætlum við að leggja í hann um klukkan 9:00 og aka alla leið heim til Árósa með stuttum stoppum á leiðinni. Verður það örugglega fullt dagsverk að komast heim, milli 900 og 1000 km leið!
Enn og aftur, héðan biðja allir að heilsa öllum og stefna að frekari samskiptum við Íslendinga!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2007 | 15:10
Gærdagurinn - þriggja landa dagur
Vorum fulllengi að að koma okkur af stað frá hótelinu í Varel. Koma þar til margt til, veðurblíða, en ekki síður að hótelstúlkan tók tífalda upphæð af kortinu mínu fyrir mistök sem tók langan tíma að leiðrétta. En af stað komumst við og ókum fyrst um blómlegar sveitir Fríslands - eru ekki allir staðir fallegir í vorblíðunni? Yfir til Hollands og nú voru hraðbrautirnar teknar í sátt aftur. Langt stopp á stíflunni miklu sem lokar Suðursjó frá Norðursjó og rifjuðum þar upp þegar við komum þar fyrir um 20 árum þegar við við vorum í heimsókn hjá Ólöfu og Ágeiri í Amsterdam. Stíflan er eitthvert magnaðasta mannvirki sem við höfum skoðað og má sjá hæðarmuninn á vatninu innan og utan stíflunnar á myndinni. Sólin skein og hitinn kominn yfir 15°og því erfitt að drífa sig áfram.
Þetta slór framan af degi gerði að verkum að nú varð að gefa allt í botn, því í Brugge beið okkar heimboð klukkan 18:00 hjá "Stubbunum". Hálftími fór í að villast hjá Amsterdam, en sem betur fer voru hvergi tafir á hraðbrautunum, ekki einu sinni hjá Antwerpen (en slíkt telst til tíðinda í Belgíu). Við nálguðumst þó Brugge um klukkan 17:00 og allt virtist í fína lagi, en þá lentum við löngum töfum við að komast inn í borgina, einkum vegna skipaumferðar á skurðunum og brúalyftinga henni tengdri. Svo þegar við komum inn í borgina reyndist gatan sem ég ætlaði að keyra inn í miðbæinn lokuð og ég fann ekki aðra leið. Þeir sem þekkja miðbæinn í Brugge vita hversu auðvelt er að rata þar um á bíl! Ég greip þá til bragðs sem hefur komið sér vel áður - fékk leigubíl til að aka á undan mér.
Eftir töluvert stress komum við heim til Önnu og Björns Stubbe um klukkan 18:30. Þar voru Paul og Mína komin og var okkur tekið sem þjóðhöfðingum, ekki síst af þeim Inne og Hannesi sem eru að verða hinir mestu Íslandsáhugamenn sem ég þekki. Sátum hjá þeim um stund en fórum svo á lítið veitingahús í smábæ rétt utan við Brugge. Þar mættu Luc de Clene og frú og áttum við afskaplega notalega kvöldstund saman. Mikið rætt um ferðir og ferðalög!
Stoppuðum svo smástund heima hjá "Stubbunum" á leiðinni heim á hótelið. Frábær dagur að baki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2007 | 21:44
Stefnan tekin á Niðurlönd
Bjarni fór eldsnemma í morgun í námsferð til Brussel. Þar verður hann með bekknum sínum í viku og verða heimsóttar allar helstu alþjóðastofnanir sem þar eru til húsa. Við gripum tækifærið og settum helstu nauðsynjar í bílinn og ókum sem leið lá suður eftir Jótlandi. Stoppuðum ekki fyrr en í Ribe, bæ sem kemur verulega á óvart, og er hreinlega einn fallegasti bær í Danmörku. Skoðuðum m.a. dómkirkjuna sem afskaplega sérkennileg og eins og menn hafi aldrei ákveðið hvernig hún ætti að líta út. Ég tók auðvitað töluvert af myndum, en ákvað að lokum að setja meðfylgjandi mynd á blogg dagsins.
Höfðum okkur af stað frá Ribe upp úr hádegi og ókum greiðlega suður fyrir landamæri og tókum ekki næstu pásu fyrr en í þýska bænum Husum. Það er bær sem einnig kom á óvart, sólin skein og veitingahúsin á hafnarbakkanum við gömlu skipasmíðastöðina full af fólki sem greinilega var að njóta fyrsta sólskinsdags vorsins.
Við þræddum svo sveitavegi suður ströndina og tókum loks ferjuna yfir Saxelfi (er það ekki annars íslenska heitið á Elbe?) til Glückstadt frekar en nota hraðbrautina um Hamborg. Þegar þarna var komið var tekið að kvölda og sólin að setjast. Við ákváðum að aka svo sem klukkutíma inn í kvöldið, en svo fór eins og ævinlega að eftir að hafa ekið fram hjá hverjum gististaðnum af öðrum þann klukkutímann, var eins jörðin hefði gleypt öll hótel þegar við ákváðum að fara að leita að gistingu.
Klukkan var því orðin 20:00 þegar við komum inn í smábæinn Varel skammt frá Wilhemshaven. Þar fundum við frábært hótel fyrir lítinn pening. Gestgjafinn tók okkur afskaplega vel enda greinilega ekki mikið að gera þessa dagana. Hann hafði útbúið og auglýst mikið kvöldverðarhlaðborð, en engir gestir komið. Frekar en það yrði allt ónýtt bauð hann okkur að borða af því fyrir pening sem ekki fengist pylsa fyrir á ferðalagi um Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.3.2007 | 12:56
Þessir "hönnuðir"!
Ég sé alltaf betur og betur hve sú stétt manna sem setja má undir hattinn "hönnuðir" er skrítin og skemmtileg. Hér innan fjöldskyldunnar hef ég oft á orði að þeir séu margir ansi "Tinnulegir" (Tinna - þetta er jákvætt hugtak!). Með öðrum orðum, hugmyndaflugið og aðferðir við að útfæra hugmyndirnar virðast engin takmörk eiga sér.
Ég er sem sagt búinn að sitja áfanga í hönnun síðan um áramót. Nú er honum að ljúka og eigum við að skila frumgerð af verkefnum eftir viku. Ég er með mjög fínt verkefni í höndunum, kannski þó nokkuð jarðbundið eins og við er að búast af gömlum manni.
Ég stóð í þeirri meiningu að við ættum bara að sýna frumgerðina á næsta föstudag. Hún er tilbúin, enda ætlum við hjónin að leggja land undir fót og eyða allri næstu viku í Þýskalandi og Belgíu. En þá kemur allt í einu upp á yfirborðið í gær að við eigum líka að kynna vinnuferilinn og aðferðirnar sem höfum beitt - með því að búa til plakat! Það á allt að vera svo "sýnilegt og áþreifanlegt"!
Ég held raunar í dag að ég hljóti að hafa misskilið eitthvað, en úr því við erum að fara úr bænum og komum ekki heim fyrr en rétt áður en ég á að skila verkefninu stend ég, háskólaneminn, nú hér á laugardagsmorgni og klippi og lími myndir og textabrot á plakat - undir háðsglósum hinna á heimilinu. En það skemmtilega við þetta er að þetta sýnir manni ótrúlega vel hvað maður hefur verið að gera á önninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.3.2007 | 12:32
Gunna og grjónagrauturinn
Gunna er í stífu námi í dönsku eins og fyrr hefur komið fram. Situr í málaskólanum frá klukkan 8:00 -11:30 virka daga og má svo hafa sig alla við í heimanáminu til að klára það nógu snemma til að geta eldað handa mér almennilegan kvöldmat. Skóli þessi er raunar miklu meira en bara hefðbundinn málaskóli, hann er rekinn af ríkinu og bænum fyrir innflytjendur og allt gert til þess að reyna að koma þeim í gegnum dönskunám og út á vinnumarkaðinn. Mikið er einnig lagt upp úr að kenna um landafræði Danmerkur og danska menningu. Er þetta allt svo gaman að Gunna ljómar eins smástelpa þegar hún kemur heim og tekur strætó möglunarlaust dag eftir dag.
Þessi vika hefur þó verið töluvert erfiðari en aðrar. Fyrst voru nemendur látnir velja sér þekktan, danskan einstakling og segja frá honum. Þar sem Ólafur Elíasson, einn af mörgum íslenskum "Dönum" var rétt búinn að vinna mikla samkeppni um listaverk á þak listasafnsins hér í Árósum valdi hún hann sem viðfangsefni og gerði nokkuð úr því að hann væri raunar Íslendingur sem Danir eignuðu sér. Var hún töluvert stressuð daginn fyrir þennan fyrirlestur, en náði þó að elda þokkalegan kvöldmat.
Í dag var hún svo í prófi sem sker úr um stöðu hennar í skólanum. Hún ætlaði raunar að hafa það eins og ég, að taka námið ekki of alvarlega, en fylltist svo ofurkappi að ná nú þessu prófi. Er skemmst af því að segja að hún var frekar óróleg í nótt og tuðaði milli svefns og vöku "når og da, morgen, morgens" og svo framvegis.
Nú var hún að koma heim og sagði allt hafa gengið vel, en það kæmi þó ekki endanlega í ljós fyrr en síðar.
En það var bara grjónagrautur í kvöldmat í gær...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2007 | 19:03
Samviskubit
Ég fæ ekki oft samviskubit - en það vottar fyrir því núna í kvöld. Kem að því síðar í pistlinum.
Ég er byrjaður að vinna stórt lokaverkefni við háskólann. Er byrjaður að hanna og forrita spurningaleik í landafræði sem á að verða bæði skemmtilegur og fræðandi. Þýðir ekkert að ráðast á garðinn... Í þeim tilgangi að prófa frumgerð leiksins og afla hugmynda og gagna fór ég í skólann í Randers í morgun og fékk þar lánaðan hóp nemenda til þess að hjálpa mér. Þetta gekk allt vel og lítur vel út.
Fyrst ég þurfti á annað borð til Randers ákvað Gunna að koma með og eftir starfið í skólanum héldum við lengra norður í land, allt til Álaborgar. Stoppuðum þar í nokkra klukkutíma og gengum um götur bæjarins. Veðrið var þó til leiðinda, svolítil rigning, "frisk vind" og hiti rétt yfir frostmarki þannig að minna varð úr skoðunarferðinni en við ætluðum. Þó var aðeins litið á fornsölur og skóbúðir. Sýnir myndin dæmigerðan skófatnað Dana yfir veturinn, forljótt en afar praktiskt.
Þá er það samviskubitið. Eftir vinnulotuna með nemendunum í Randers vorum við Gunna boðuð á fund með þeim kennurum sem eru að fara til Íslands síðar í mánuðinum að heimsækja kollega sína í MA. Eftir nokkra umræðu um Ísland og útbúnað til fararinnar hófst umræðan um hvernig best væri að taka á móti þeim Unnari, Bjarna, Möggu og Stefáni þegar þau kæmu að endurgjalda heimsóknina.
Ég veit ekki hvort þið vitið hvernig ég verð þegar ég dett í einhverskonar "sölumannsgír" og verð svo trúverðugur að það er sama hvað ég segi, það er öllu trúað og allt tekið alvarlega. En það kom sem sagt upp sú hugmynd að fara með nefnda kennara í hjólatúr. Fann ég að það var verið að fiska eftir því hvort þau kynnu yfirhöfuð að hjóla. Það var þá sem ég hrökk í gírinn og lýsti kollegum mínum þannig að þau væru ýmist "mjög virk" eða "ofvirk" og þætti lítið mál að hjóla milli bæja, um íslensk fjöll á móti veðri og vindum. Danska flatneskjan yrði þeim lítið mál. Runnu nú tvær grímur á Danina (sem ekki höfðu hitt mig áður), en niðurstaðan varð að láta Íslendingana hjóla umhverfis Randersfjörðinn, en þau myndu aka trússbíl í humátt á eftir og kannski skiptast á að hjóla með!
Og nú er ég með smásamviskubit...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.3.2007 | 11:00
Guðsótti og góðir siðir
Þótt Egå sé löngu vaxið saman við Árósa heldur þó gamla þorpið sínum einkennum og sjarma - og þar er falleg gömul sveitakirkja. Dæmigerð dönsk kirkja, hvít með stórum turni með "tökkuðum" útlínum (fyrir tölvumenn er þetta eins og digital ljósmynd í snarvitlausri upplausn.)
Við höfum lengi verið með það á dagskrá að fara í sunnudagsmessu í kirkjuna okkar. Létum verða af því í dag, klæddum okkur upp og - hjóluðum til kirkju (verður varla danskara)! Messur byrja yfirleitt klukkan 11:00, en þegar við komum að kirkjunni var messu lokið, hafði byrjað klukkan 9:30. Var okkur tjá að sami prestur þjónaði tveimur kirkjum og messaði jafnan sama dag í báðum og því væri messa ýmist klukkan 9:30 eða 11:00. En okkur var vel tekið og boðið í messukaffið, sýnd kirkjan og boðin margfaldlega velkomin í söfnuðinn. Við munum örugglega gera aðra tilraun fyrr en síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar