Færsluflokkur: Bloggar
1.4.2007 | 17:58
Gestir fara og aðrir koma í staðinn
Fylgdum Gerði og Gylfa áleiðis heim í dag. Fyrst var stoppað smástund á stórri fornsölu, svona fyrri siða sakir, en síðan ókum við í glampandi sólskini upp á hæsta tind Danmerkur, Ejer Baunehøj. Stoppuðum svo lengi í Vejle, gengum þar um götur og torg og skoðuðum m.a. höggmyndir eftir Sigurjón Ólafsson fyrir framan ráðhúsið.
Enduðum svo í Óðinsvéum og skoðum m.a. nokkrar af styttum sem gerðar hafa verið við verk H.C. Andersens. Kvöddum svo þau heiðurshjón á brautarstöðinni þar sem þau stigu um borð í lestina til Kastrup.
Þegar við komum heim voru komnir næstu gestir, Óskar og Stebbi vinir Bjarna. Verða þeir hér í nokkra daga og ætla m.a. að æfa sig í að kaupa bjór með löglegum hætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2007 | 17:57
Rauðvínslegin...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2007 | 17:10
Fallegur dagur - fleiri krúsir!
Rólegur dagur í gær, sýndum gestunum borgina og allra næsta nágrenni. Aðeins litið í búðir, einkum barnabarnafatabúðir og inn á mikilvægustu krárnar.
Í dag var haldið í mikla skoðunarferð. Byrjuðum á búðinni "Stof og stil" þar sem þær konur skoðuðu vefnaðarvöru og fleira í þeim dúr. Búðin er svo tilllitssöm að bjóða upp á karlahorn með dagblöðum og kaffi þannig að það má alveg lifa svona heimsóknir af. Næst var stoppað á risastóra ruslamarkaðnum í Låsby, og nú voru þær konur svo heppnar að finna mikið úrval krúsa og bauka og enn heppnari hvað afgreiðslumanninn varðar. Hann var greinilega allnokkuð hífaður og tók því ekkert eftir því að þær færðu fram og til baka lokin á krúsunum og völdu að lokum það sem best var útlítandi. En ég skil samt ekki enn þörfina fyrir allar þessar krúsir, flestar vörur nú til dags koma í vel brúklegum umbúðum.
Dvöldum svo um stund í Silkeborg, alltaf jafnfallegt að koma þar. Áfram var svo haldið og barist upp brekkurnar að toppi Himmelbjergets. Þar sátum við svo um stund í veðurblíðunni og nutum útsýnisins yfir vötnin.
Stoppuðum svo um stund í bæjunum Ry og Skanderborg. Allt saman bæir sem eiga það sameiginlegt með Silkeborg að liggja að vötnum sem gefur þeim skemmtilegt yfirbragð. Ókum loks í gegnum Odder, en þar á ég enn eftir að finna eitthvað fallegt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2007 | 07:09
Sinnepskaup á Sjálandi
Sóttum góða gesti til Kaupmannahafnar í gær. Gerður og Gylfi, vinir okkar úr Hveragerði, sem sagt mætt á svæðið og ætlum við helst að sýna þeim gjörvalla Danmörku á þremur dögum. Byrjuðum vel í gær, ókum beint til Hróarskeldu og eyddum þar löngum tíma í að skoða dómkirkjuna og víkingaskipasafnið. Þaðan héldum við norður á Sjællandsodde til að taka ferju til Jótlands. Komum undir kvöld til Ebeltoft og héldum beint á veitingastað sem er í eldgömlu húsi í miðbænum. Húsið er allt skakkt og sigið, engir veggir eða horn eins og maður á að venjast, og meira að segja gamla dótið á veggjunum hallar undir flatt. Okkur fannst eðlilegt að kaupa okkur danskan hversdagsmat við þessar aðstæður, hakkabuff með kartöflum og brúnni sósu. Rabarbarsultu fengum við ekki.
Það er ekki hægt að segja að þær konur séu kaupóðar, en ég myndi segja að þær væru "kaupskrítnar". Í smábænum Vig á Sjálandi ráku þær okkur karlana inn á næstu krá en fóru sjálfar til slátrarans - og keyptu stórar pakkningar af sinnepi! Ekki það að það vanti sinnep á heimilin, en það var bara í svo fallegum krukkum! Ég lýsi hér með eftir skilningi á svona hegðun kvenna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2007 | 10:59
Fríblaðaflóðið
Íslendingar eru almennt vel þokkaðir hér í Danmörku. Þó spyrja margir hvaðan okkur komi peningar til kaupa á ýmsum fyrirtækjum og verslunum sem mörgum hér finnst sárt að hverfi úr eigu heimamanna. Verður mér þá fátt um svör.
Fyrir eitt er Íslendingum þó bölvað í sand og ösku, það er fyrir að hafa komið af stað "fríblaðavitleysunni". Daglega koma út 5 eða 6 blöð sem reynt er að koma á saklausa vegfarendur hvar sem er og hvenær sem er. Öll tapa blöðin gríðarlega á rekstrinum að því sagt er, en allir ætla að þrauka þar til Nyhedsavisen gefst upp, þá ætla allir að hætta með það sama.
Töluvert af blöðunum er borið í hús í stærstu bæjunum, en það hefur þó dregið úr því síðustu vikurnar. Blöðin liggja hins vegar í stórum haugum um allan bæ, á strætóstoppum, við verslanir og skóla. Þegar líður á daginn eru oftast enn stórir haugar, enda útgáfan langt umfram það sem markaðurinn getur tekið við.
Það þarf mikinn mannskap í að bera út blöð og sjá um blaðahaugana í bænum. Íbúðin á miðhæðinni í húsinu "okkar" hefur síðan fyrir áramót verið leigð undir pólska blaðbera. Er ekkert yfir því að klaga, en við höfum ekki getað talað neitt við þá vegna takmarkaðrar kunnáttu okkar í pólsku. Þeir bera út Jyllandsposten á nóttunni og eiga svo að koma fríblöðum út á daginn. Það gengur þó ekki betur en svo að kjallarinn í húsinu er að fyllast af "afgangs" blöðum, og nú er farið að flæða út eins og sést á myndinni. Því betur er okkar inngangur hinum megin í húsið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2007 | 14:53
Skattur, sláttur og skemmtiferð
Sérkennileg verkefnin í dag. Fram að hádegi glímdum við dönsk skattayfirvöld, sem telja okkur fullskattskyld í landinu og verðum því að telja fram. Ekkert mál, skiluðum bara skýrslunni auðri og tómri, enda tekju- og eignalaus í Danmörku. En úr því við erum fullgildir skattþegnar töldum við við ættum þá þau réttindi sem því fylgja og fórum fram á barnabætur með "barninu" sem er að éta okkur út á gaddinn hér á heimilinu. Nú tóku málin að vandast, við ættum kannski "meira" heima á Íslandi, því þar ættum við hús, og svo værum við ekki hér í heilt ár. Eftir heilmiklar útskýringar á nú samt að skoða málið. Það skemmtilegasta við þetta er að allir sem við tölum við taka okkur svo vel og vilja allt fyrir okkur gera.
Eftir þessa törn fórum við í bíltúr út á Mols, þar er alltaf hægt að finna nýja staði að skoða og nýjar krár að heimsækja. Enduðum í Ebeltoft sem oftar, skoðuðum þar glerlistasafnið og fundum loks veitingahús sem við eigum örugglega eftir að heimsækja með einhverjum þeirra gesta sem hingað eru væntanlegir.
Við heimkomuna úr bíltúrnum var svo ekki lengur komist hjá því að hefja sumarstörfin í garðinum. Það verð ég að segja um grasið mitt heima á Íslandi að það er þó ekki að ergja mig með því að byrja að vaxa í mars!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2007 | 19:31
Út að ganga í góða veðrinu
Það er lengi hægt að skoða sig um í Árósum og næsta nágrenni. Í vorbíðunni í dag fórum við í bíltúr og litum fyrst á markaðinn í Brabrant hverfinu, en þar ráða Tyrkir og aðrir innflytjendur ríkjum.
Ókum svo niður að vötnum tveimur sem Árósaáin (sbr Bægisáráin og Miðhálsstaðahálsinn - Gunnar Frímannsson!) rennur um. Ákváðum í sameiningu að fara í gönguför upp með efra vatninu. Þegar við vorum komin alllangt fannst okkur (sérstaklega þó Gunnu) tilvalið að ganga bara í kringum vatnið og til baka eftir hinum bakkanum. Þetta gekk svo sem allt vel, en reyndist lengra en við höfðum reiknað með. Ég var svo heldur illa skóaður, hafði ekki reiknað með svona langri gönguför. Svo reyndust danskir skógastígar víða enn vera í vetrarbúningi eins og sést á myndinni. En nú var of seint að snúa við og eftir töluvert á annan tug kílómetra náðum við aftur í bílinn. Gunna blés ekki úr nös (a.m.k. ekki að mér sjáandi), en ég dróst sárfættur inn á bílastæðið þar sem hún gaf mér síðasta vatnssopann úr flösku sem hún hafði verið svo forsjál að taka með sér. Mikið var svo gott að eiga bjór í ísskápnum þegar heim kom. Stefnum á fleiri gönguferðir á næstunni, en ætlum að skipuleggja þær betur og taka bjórinn með í bakpokann!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.3.2007 | 20:08
Ég og Zwartsenegger
Sitjum tvö heima gömlu hjónin og horfum á sjónvarpið. Bjarni farinn á árshátíð skólans, jakkafataball, rauður dregill langt út á bílastæði, matarveisla og væntanlega stærri bjórdælur en á "venjulegum" skólaböllum.
Það er svo sem allt í lagi með sjónvarpið, Peter Smeichel sem orðin er ein helsta sjónvarpsstjarna Dana stjórnar vinsælum spurningaþætti þar sem einn þátttakandi reynir að slá út hundrað manna "panel". Þetta byrjar eins og í fleiri þáttum á léttum spurningum, eins og "hve margir eru Rip, Rap og Rup", en svo þyngjast spurningarnar og miklir peningar í boði.
Ég er nokkuð góður með mig og klikka varla á spurningu. En núna áðan varð ég þó að játa mig sigraðan - ásamt menntamálaráðherra dana. Við tveir vorum með fyrstu spurningu vitlausa, hinir 99 voru hana rétta. Ég er vildi bara að Elli væri hérna, ég er viss um að henn hefði fyllt flokkinn með okkur.
Og hver var spurningin? Sýndar voru þrjár misvitlausar setningar og spurt hver þeirra væri ekki höfð eftir Arnold Zwartsenegger! Hvernig má það vera að vera að menn geti í hundraðatali svarað svona vitleysu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2007 | 13:05
Námslok
Gunna kvaddi málaskólann í dag, hafði aldrei hugsað sér að vera þar nema fram að páskum. Næsta vika í skólanum fer að hluta í að kynna nemendum möguleika á framhaldsnámi við ýmsar skólastofnanir í borginni, þannig að kennslu fyrir páska var raunar lokið í dag. Skólann kvaddi hún með því að fá mig til að halda fyrirlestur og myndasýningu um Ísland og var gerður að því góður rómur.
Raunar kvaddi hún með miklum söknuði, er búin á þessum 10 vikum að kynnast mörgu góðu fólki hvaðanæva úr heiminum, raunar frá flestum byggðum heimsálfum. Á vonandi eftir að halda sambandi við einhverja þeirra.
Á myndinni er skólasystir hennar frá Íran að kveðja hana með hnetum og öðru góðgæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 15:39
Eitt sinn kennari...
Datt aðeins í kennslugírinn í gær og dag. Þannig var að áður en ég flutti út sótti ég um styrk til Nordplus til að gerast sendikennari í Danmörku í eina viku. Það var samþykkt og fékk ég svolítinn styrk út á það að lofa að kenna mitt fag í nokkra daga í menntaskólum í Danmörku. Strax í nóvember stóð ég við hluta af samningnum og var í þrjá daga við landafræðistörf með menntaskólanum í Randers. Fólst starfið raunar í því að fara með þeim til Berlínar í námsferð, en það er sama hvaðan gott kemur.
Þessa dagana er ég hins vegar við landafræðikennslu í skólanum í Egå. Það reyndist ótrúlegt átak að koma sér af stað, ég var hreinlega stressaður fyrir gærdaginn. En þetta gekk svo eins og í sögu og þegar leið á daginn í dag var ég kominn á flug og hefði viljað hafa meiri tíma með nemendum. Þegar ég kvaddi heyrðist mér bæði nemendur og kennarar vera farnir að skipuleggja heimsókn til Íslands. Stundum skil ég ekki hvers vegna ég er ekki í einhversstaðar í sölumannsbransanum.
Á föstudaginn hef ég svo lofað að halda fyrirlestur um Íslands í bekknum hennar Gunnu í Málaskólanum. Þar hefur henni tekist að vekja svo mikla athygli á landinu að hún var beðin að koma með manninn sínn í tíma - svona "show and tell"...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar