Færsluflokkur: Bloggar

Holl og góð útivera

ÚtivistarkortÞað mega Danir eiga að þeir skipuleggja og merkja vel gönguleiðir um fjöll og fyrnindi. Hægt er að fá sérkort fyrir þá sem hafa áhuga á fuglaskoðun, þá sem vilja fylgjast með bændum við við vinnu, þá sem vilja hafa hunda sína með í för, og þannig mætti lengi telja.

Nú er boðuð í fjölmiðlum útgáfa á enn einu kortinu og sagt að markaðurinn sé mikill og margir bíði spenntir. Frumútgáfa fylgdi Ekstrablaðinu í dag og fylgir hún hér með. Það gleður okkur sérstaklega að margar fallegar leiðir í nágrenni Árósa munu verða á kortinu, til dæmis á Himmelbjerget og úti á Mols.

Eins og fram hefur komið erum við þegar búin að fara á Himmelbjerget akandi og gangandi...

Frekari upplýsingar er að finna í blaði dagsins http://ekstrabladet.dk/sex_og_samliv/article290810.ece


Molbúar og menning

Á MolsDrógum þá frændur frá tölvunum í gær og reyndum að sýna þeim landið. Byrjuðum úti í Grenaa í Kattegatsafninu og skoðuðum þar hákarla og aðrar sjávarlífverur. Þeir keyptu meira að segja ferð með gerviköfunarkúlu í undirdjúpin en fannst ekki mikið til koma. Reyndum einnig að troða upp á þá menningu og Molbúasögum, og fórum um höfuðstað Molbúanna, Ebeltoft.

Þeir tóku ferðinni bara vel og höfðu bara nokkuð gaman af. Mest skemmtu þeir sér þó yfir bæjanöfnum á Mols - ekki spyrja mig hvers vegna það var alveg bráðnauðsynlegt að stoppa hjá þessu skilti!

Bjarni var svo í skólanum í dag og fórum við Danni þangað í heimsókn. Ég hélt fyrirlestur í bekknum hans Bjarna um Ísland og Íslendinga og notaði Danna sem sýnishorn af dæmigerðum Íslendingi - svona "Show and tell".


Er ekkert að gerast hjá okkur?

Á leið á HimmelbjergetJú - jú það er nóg að gerast í góða veðrinu. Hitinn nær nú 20 stigum á daginn, en nú eru að koma kuldaskil að norðan og spáð að hitinn lækki um 10 gráður næstu daga. Grunar mig að félagar okkar í Randers hafi pantað þetta veður til þess að hefna sín á kennurum MA sem hingað eru væntanlegir í vikunni.

Á laugardaginn fórum við í mikla gönguferð, að þessu sinni vel búin og nestuð að dönskum sið. Gengum alla leið frá bænum Ry, upp með vötnunum gegnum mikið skóglendi og alla leið upp á Himmelbjerget. Gott var að hvíla sig þar með ískaldan bjór í annarri hendi og ís í hinni áður en við gengum sömu leið til baka. Allt í allt eitthvað dálítið á annan tug km.

Í dag kom svo Danni í heimsókn og verður í afslöppun í nokkra daga, þvær þvott (þvottavélar á Garði bilaðar) og nýtur þess að setjast að matarborði sem aðrir hafa útbúið. Nú eru þeir frændur farnir á tónleika niður í bæ.

Svo fékk ég póst um það í dag að ég hefði náð einum áfanga í viðbót í háskólanum....


Afturhvarf til fortíðar

Grillað í góða veðrinuSumarið er komið ef marka má daginn í dag - hitinn fór upp undir 20 stig síðdegis í logni og bíðu. Datt þá ekki tveimur í fjölskyldunni í hug að nú væri kjörið að grilla úti að íslenskum sið. Ég reyndi að streitast á móti, lofaði öllu fögru þegar liði á júlímánuð, en allt kom fyrir ekki. Ég var klárlega í minnihluta, það skyldi grillað. Ekki vantar að nóg er af ódýru og góðu kjöti í búðunum, en hins vegar eigum við ekkert grill. Það varð úr að við keyptum kjöt og grillkol, og ég laumaðist svo yfir til nágrannanna (sem eru fjarverandi) og hnuplaði litlu kolagrilli. Á því grilluðum við svo dýrindis svínakjöt, raunar er ég einnig grillaður upp undir olnboga því auðvitað gleymdum við að kaupa (eða hnupla) viðeigandi verkfærum með grillinu. Auðvitað kviknaði svo í öllu eins og vera ber á góðu grilli. Til að bæta gráu ofan á svart laumaðist Gunna til að taka af mér "loftmynd" á meðan ég glímdi við grillið. Þótt skallinn og eyrum séu fulláberandi á myndinni finnst henni rétt að ég setji hana á bloggið, í ljósi þess sem ég hef stundum sagt skrifað um hana!

Ég verð raunar að að viðurkenna að þetta afturhvarf til fortíðar var bara nokkuð skemmtilegt, var alveg búinn að gleyma hvað bjórinn er góður meðan maður bíður þolinmóður eftir að grillið hitni og svo var maturinn hreint alveg ótrúlega góður eftir alla fyrirhöfnina. Nú er bara að bíða eftir að grillið kólni svo ég geti laumast með það til baka. En ég sakna svolítið gasgrillsins míns heima á Akureyri...


Okkur er verulega létt

Fjöruferð á SkagenVið höfum ekki verið alveg róleg síðustu daga - óvissa með hnéð á Bjarna og einnig var sumarvinnan hans í svolítilli óvissu. Vandamálið var raunar að velja og hafna vinnutilboðum sem er alveg ný reynsla fyrir okkur.

Í morgun hefur svo allt smollið saman. Gengum frá því að hann yrði í vinnu á Hótel Eddu og fer því sennilega heim í fyrstu vikunni í júní. Þá verður kennslu lokið hér í Egå og hann reiknar ekki með að fara í prófin, heldur halda bara áfram þar sem frá var horfið í MA. Dvölin í Danmörku verður bara stór bónus og lífsreynsla. Verst að þetta þýðir að hann mun útskrifast úr MA vorið 2010 (samstúdentr mínir frá 1975 geta reiknað út hvað er slæmt við það).

Við vorum svo að koma frá lækni sem skoðaði hnéð vel og vandlega og kvað upp þann úrskurð að öll liðbönd og krossbönd virtust vera heil. Allt benti til þess að liðþófi hefði skemmst, og af öllum hnémeiðslum væri það kannski það skásta viðureignar. Bjarni fer í framhaldinu í hnéspeglun á næstunni og ætti að ná sér að fullu fyrir sumarið.

Af því ég held að mynd af hné sé ekkert sérstaklega flott á bloggi sem þessu læt ég fljóta með mynd úr ferðinni til Skagen - mikið rosalega fannst mér gaman að aka hratt um fjöruna og spæna upp sandinn. Gunna var ekki alveg sama sinnis...


Hækjur og handbolti

Bjarni á hækjumÞað hefur áður komið fram að lífið í vetur hefur að nokkru snúist um handbolta. Þar hafa hutirnir gengið upp og ofan, liðinu oftast gengið illa, flokkurinn hans Bjarna lagður niður á miðjum vetri og strákarnir fluttir upp í meistaraflokk. Þar lentu þeir hjá þjálfara sem þér eru ekki sáttir við, hafa sumir fengið lítið að spila þrátt fyrir loforð um annað. En þetta er allt saman gríðarleg reynsla fyrir Bjarna, líf handboltamanns er ekki endilega dans á rósum þótt hann standi sig vel og leggi sig allan fram.

Við höfðum það á orði fyrir nokkru að þetta ætlaði að sleppa nokkuð vel, tímabilið að klárast og heimsóknir á slysó langt undir ársmeðaltali. Einn heilahristingur telst ekki mikið á heilum vetri á þessum bæ.

En tímabilinu lauk með alþjóðlegu móti í Kolding um páskana eins og Bjarni lýsir á sínu bloggi:

Svo eftir það kom helgin sem ég var búinn að bíða eftir í langan,langan tíma. Alþjóðlegt handboltamót í Kolding. Fá að keppa á móti hinum og þessum, misgóðum svosem. Við lentum í riðli með Kolding 2, einu hollensku liði, og 2 þýskum liðum. Ég spilaði fyrsta leikinn á móti Kolding, sem endaði jafntefli og tókst að vera markahæstur og allur pakkinn. 2 tímum seinna spiluðum við við hollenskt lið. Eftir fimm mín af leiknum fékk ég stimplun niður í hornið, hoppaði inn og lenti frekar asnalega. Allur skrokkurinn á mér gekk til vinstri en hnéð á mér til hægri. Það var mesti sársauki sem ég hef nokkurn tímann fundið, það var verra en um árið þegar ég öskraði dramatískt á Árna á Húsavík í denn. En það sem semsagt kom úr þessu var það að hnéð á mér var of bólgið til að sjá nokkuð á myndum, fólk heldur sem þekkir til að þetta séu helvítis krossbandaslit, en ég vona svosem ekki. Það að þetta sé bólgið vona ég að sé merki um að þetta sé eitthvað annað,en það að mér hafi verið illt undir hnénu er slæmt mál.

En við eru samt miklu bjartsýnni í dag og vonum að þetta sé bara slæm tognun en ekki slit. Kemur í ljós á næstu dögum.


Skagen

Uppi á Råbjerg mileKannski fær einhver það á tilfinninguna við að lesa þetta fréttablogg mitt að við hjónin séum með einhverja ferðabakteríu - þá það. Við lögðum enn land undir fót í dag og héldum alla leið norður á Skagen. Þar tóku Leif og Bente okkur opnum örmum og fóru með okkur í langa skoðunarferð um svæðið. Um gamla bæinn, niður að strönd, upp á foksandölduna Råbjerg mile, niður að höfn, um miðbæinn, út að vitanum og þannig mætti áfram telja. Gerðu einnig vel við okkur í mat og drykk og gerðu daginn ógleymanlegan. Hvasst var og fremur kalt, en sólin skein fram eftir degi. Þegar skoðunarferðinni var að ljúka fór að rigna og og flúðum við þá heim til þeirra hjóna í kaffi og kökur áður en við héldum af stað heim. Þegar við vorum rétt komin af stað stytti upp aftur með sólskini og við lögðum því lykkju á leið okkar og ókum um Hirtshals og Hjørring á heimleiðinni. Bæir sem eru alveg þess virði að aka í gegnum, en óþarfi að stoppa lengi.

Bjarni er þessa dagana á alþjóðlegu handboltamóti í Kolding. Þar er hann nú kominn á hækjur - en það er nú allt annað mál...


Gestir hjá Bjarna

Bjarni, Stebbi og ÓskarVið höldum áfram að kanna landið. Drifum drengina þrjá frá tölvuskjánum og skutluðum þeim í Randers regnskov. Á meðan þeir spjölluðu þar við slöngur og aðrar skepnur ókum við út í sveit. Enn og aftur rákumst við á hreint ótrúlega fallega gamla krá, að þessu sinni sveitakrána í Hvidsten, rétt norðan við Randers. Hittum þar hjón sem sögðu okkur undan og ofan af því hvernig kráin var miðstöð andspyrnuhreyfingarinnar á svæðinu í seinna stríðinu, og hvernig Þjóðverjar fóru með íbúana þegar upp komst. Einn af þessum litlu stöðum sem gaman er að heimsækja.

Skoðuðum svo bæinn Mariager - lítill og fallegur bær sem alltaf er nefndur í veðurfregnunum. Ég hélt lengi að bærinn héti "María" því auðvitað bera Danir ekki fram nema helminginn af nafninu. Að lokum litum við á bæinn Hadsund sem að okkar mati fer í flokk með bænum Odder hvað varðar áhugaverða staði.

Drengirnir fóru svo í keilu eftir kvöldmatinn og eru rétt komnir heim. Halda svo heim á leið snemma í fyrramálið.


Fyrirlestratækni - smáhugleiðing af gefnum tilfellum

Henrik FriisMér er að mestu runnin reiðin frá í gær og aftur farinn að sjá skoplegu hliðarnar á tilverunni. Ég sat fyrirlestur í morgun sem er kveikjan að bloggi dagsins (páskafrí byrjar á morgun).

Snemma í haust sat ég marga fyrirlestra um afskaplega lítt áhugavert efni, forritun í JAVA. Þetta var í sal sem rúmaði mörg hundruð nemendur, með öflugu mynd- og hljóðkerfi. Síðustu mínútur fyrir upphaf fyrirlestur hljómaði tónlist af fullum krafti úr græjunum, ýmist Ramstein, Beethoven eða aðrir minni spámenn. Fyrirlesarinn gekk svo í salinn, sportlega klæddur, sléttrakaður og rakspíralyktin fyllti allan stóra salinn. Sjálfsöryggið var slíkt að heima á Íslandi þarf örugglega í Mývatnssveit til að finna samjöfnuð. Það dró rólega niður í græjunum og rétt þegar tónlistin fjaraði út byrjaði hann á léttum nótum og í nákvæmlega 45 mínútur beitti hann öllum afbrigðum sem MAC tölvur búa yfir til að miðla efninu um salinn.

Í morgun var svo fyrirlestur um álíka óspennandi efni - jarðfræði Danmerkur. Í hálfmyrkraðri skólastofu sátu 11 nemendur með glósubækur, ég tók ekki einu sinni upp fartölvuna mína. Ekki vottaði fyrir nútímanum í stofunni, en því meira var af gömlum kortaskápum, slidessýningavélum sem svo sannarlega ættu heima á tækniminjasöfnum og síðast en ekki síst, myndvörpum fyrir gömlu góður glærurnar. Svo kom kennarinn inn hægum skrefum, fullorðinn maður, grannur og lotinn í baki, gráhærður og fúlskeggjaður í hlýlegri peysu. Hvenær hann byrjaði fyrirlesturinn var ég aldrei alveg viss um, hann talaði lágt, ýmist við krítartöfluna, gólfið eða veggina. Svo dró hann hvern gamla myndvarpann af öðrum fram á gólf uns hann fann einn sem virkaði, ekki þó betur en svo að myndhausinn tolldi engan veginn uppi fyrr en helmingur glærunnar birtist á stofuloftinu. Það var svo sem í lagi, loftið er hvítt á litinn, maður þurfti bara aðeins að halla hausnum aftur. Glærurnar allar eldgamlar og snjáðar, svarthvítar, illa ljósritaðar upp úr bókum. Sumar með texta og töflum með letri sem var smærra en svo að nokkur gæti lesið.

En tíminn leið samt og ég veit ekki alveg hvor kennarinn er meira að mínu skapi...


Þetta er ekki einu sinni fyndið

Konan í ÓðinsvéumÉg er svo fúll að ég get vart skrifað. Annað sinn, sama bílastæði, á annan tug bíla og lögreglan segist ekkert geta gert. Að þessu sinni í glampandi sólskini um hábjartan daginn á meðan við Bjarni vorum að sýna Stebba og Óskari íþróttaaðstöðu Skovbakken. Aftur glata ég hallærislegu myndinni af Gunnu, guði sé lof að ég var þó búinn að skanna hana og á afrit af henni.

 Ég er svo fúll að ég birti ekki mynd af bílnum, heldur af einhverri ferlegustu konu sem ég hef rekist á hér í Danmörku.

 Það er þó bót í máli að ég veit nákæmlega hvar ég fæ rúðu í bílinn, að hún kostar engin ósköp og tekur stutta stund að fá henni skipt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Árósar

Tónlistarspilari

Bamses Venner - Klip i mit kørekort

Höfundur

Jónas Helgason
Jónas Helgason
Myndir og pistlar frá Árósum
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 098
  • 094
  • 090
  • 087
  • 086

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband