Færsluflokkur: Bloggar
9.5.2007 | 12:15
Takk fyrir hjálpina!
Með þessari fallegu mynd frá Silkiborg má ég til með að þakka viðbrögðin við vandræðum mínum! Það er ekki amalegt að eiga vini þegar á reynir og ekki er nú verra að synirnir endurgjaldi áminningar síðustu áratuga!
Hér er annars allt með kyrrum kjörum, veðrið frekar leiðinlegt og ég sit þessa dagana ráðstefnu um tölvumál. Ég skil að vísu ekki enn nema að litlu leyti um hvað hún snýst, en vona að það skýrist innan skamms. Afskaplega skemmtilegur fyrirlestur í morgun um það tengja saman tölvur og mannslíkama til þess að skynja og bregðast við líkamlegu og andlegu ástandi mannsins. Eru menn jafnvel farnir að reyna að láta tölvurnar lesa hugsanir og bregðast við, t.d. í tölvuleikjum. Ég fór strax að velta fyrir mér notkunarmöguleikum í skólakerfinu! Þetta virkaði þó sem skemmtilegur brandari þar til það upplýstist að peningar til svona tilrauna fást helst frá ameríska hernum, þá fór smáhrollur um mig og fleiri.
Bjarni fer síðdegis í 4 daga samfélagsfræðivinnubúðir einhversstaðar sunnar á Jótlandi og við ætlum að nota tækifærið og skoða okkur svolítið um. Svo erum við að vinna að dagskrá fyrir næstu gestakomu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.5.2007 | 11:51
Um erfiða innri baráttu
Ég á í erfiðri baráttu við sjálfan mig þessa stundina. Ég hef unnið hörðum höndum að stóru lokaverkefni við háskólann síðustu vikurnar og hef nú í raun lagt á það lokahönd. Ég hafði ekki hugsað mér að leggja það fram til einkunnar og endanlegs mats kennara í skólanum. Verkefnið er allt á íslensku og bíður tilbúið til notkunar í MA í haust.
En - nú langar mig helst til að snara því á dönsku til að geta gert almennilegt "brugertest" á því í menntaskólanum hjá Bjarna. Eins og sjá má á myndinni er erfitt að vera einn og leika ýmist nemanda eða kennara og spila samtímis á fleiri en eina tölvu. Ef ég tek þetta skref er orðið ansi stutt í að ég skrifi lokaskýrslu um verkefnið upp á svona 20 - 30 síður og skili því inn í háskólann til umsagnar.
Nú stendur stríðið innra með mér, á ég að láta skynsemina ráða og láta staðar numið. Ég hef nóg af öðrum verkefnum fram á sumarið. Eða á ég að láta kappsemina ráða, og sýna þessum kennurum hér í háskólanum hvað ég get og hvað hægt er að gera í tölvunum. Því þótt ég segi sjálfur frá er ég með mjög flott verkefni í höndum og á nokkrum sviðum stend ég þeim töluvert framar hvað varðar þekkingu á möguleikum margmiðlunar!
Til þess að reyna að gera upp hug minn ætlum við að skreppa til Horsens og skoða þar sundlauga- og leikjasvæði, svona til þess að gera klárt fyrir næstu gesti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.5.2007 | 18:20
Villur vegar
Fórum mikla skoðunarferð í dag. Byrjuðum á að fara til Ry og ókum svo meðfram vötnunum norðanverðum til Silkiborgar. Ótrúlega falleg leið og veðrið frábært. Mikil helgislepja yfir Dönum á þessum "Stóra bænadegi", allt meira og minna lokað og fermingarveislur í hverju einasta samkomuhúsi. Við lentum inn í a.m.k. þrjár veislur við það eitt að reyna að verða okkur úti um kaffibolla.
Frá Silkiborg heldum við í átttina að Himmelbjerget og var ætlunin að ganga síðustu kílómetrana meðfram vatninu. Ég taldi lítið mál að finna stíginn, en eftir að hafa ekið fram og aftur um dimma skógarstíga án þess að vera viss um hvar við værum (og ekki orð um kortalestur og GPS!) gáfumst við upp og keyrðum eftir þjóðveginum upp á "bjargið" og keyptum okkur ís og bjór í einni fermingarveislunni.
Ókum loks í kvöldblíðunni upp á tvo hæstu tinda Danmerkur og um Skanderborg heim til Árósa. Þar ætlaði ég að panta borð á veitingastað við höfnina okkar, en lenti þá í enn einni fermingarveislunni. Við sitjum nú heima og ráðum ráðum okkar, förum sennilega niður í bæ að finna eitthvert snarl og kveðja gestina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 20:24
Hestamenn
Ívar og Marta eru sem sagt í heimsókn. Við sóttum þau til Köben í fyrradag og eyddum hluta dagsins í að skoða Hróarskeldu. Dómkirkjan var að vísu lokuð, hugsanlega finnst kirkjuyfirvöldum heimsóknir okkar að verða grunsamlega tíðar. Við notuðum því tímann til þess að skoða víkingasafnið því betur. Ókum svo í bíðunni upp Sjálandsoddann og tókum ferjuna til Ebeltoft. Þar borðuðum við kvöldmat á veitingahúsi sem við höfum orðið dálæti á, ekki fyrir að maturinn sé sérlega góður, heldur er húsið engu líkt. Menn verða bara að koma og sjá hvað ég meina.
Gærdeginum eyddu konur svo í búðum eins og fram hefur komið, en í dag höfum við verið í skoðunarferðum um Árósa. Auk miðbæjarins sýndum við þeim hjónum Bazar Vest, mikinn markað sem nánast eingöngu er rekinn af innflytjendum. Merkingar á verslunum og veitingastöðum jöfnum höndum á dönsku og tyrknesku.
Við reynum að sjálfsögðu að gera öllum gestum nokkuð til hæfis, fórum með kennarana í skóla og með þessa miklu hestamenn fórum við því á skeiðvöll borgarinnar, miðstöð hestamennsku á Jótlandi. Hvað næstu gestum verður sýnt verður bara að koma í ljós...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2007 | 20:50
Nýju fötin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.4.2007 | 20:52
Menningarferð til Kaupmannahafnar
Gunna er í mjög virkum lesklúbb Akureyrskra kvenna. Í ótal ár hafa þær komið saman einu sinni í mánuði yfir veturinn og rætt um bækur og bókmenntir. Á vorin hafa þær haldið lokahóf eins og vera ber. Nú í vetur hafa hins vegar tvær úr klúbbnum verið búsettar erlendis, í Danmörku og Svíþjóð. Það þótti því einboðið að halda vorfagnaðinn í Kaupmannahöfn og til þess að gera nú enn meira úr þessu var okkur körlunum boðið með.
Það væri alltof langt mál að telja upp allt sem hópurinn gerði um helgina, skoðunarferðir gangandi, akandi og siglandi. Til þess að gefa þessu nú bókmenntalegt yfirbragð var m.a. farið í skoðunarferð um "Svarta demantinn", bókasafnið í borginni.
Það var svo tvímælalaust hápunktur ferðarinnar að fara í heimsókn til Böðvars Guðmundssonar og Evu konu hans norður til Nivå. Þar var okkur tekið með kostum og kynjum, etið hangikjöt og harðfiskur, grillað og drukkið. Undir borðum lásu þeir Böðvar og Erlingur úr verkum sínum við góðar undirtektir hópsins.
Það er varla að maður geti beðið útkomu næstu bókar Böðvars, smásagnasafni sem hann las eftirminnilega úr undir hlátrasköllum áheyrenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2007 | 17:22
Herdís í heimsókn
Herdís er búin að vera hér í Árósum alla vikuna á námskeiði fyrir námsráðgjafa. Að hennar sögn snýst námskeiðið að töluverðum hluta um innflytjendur og vandamál sem tengjast þeim. Það var því alveg rökrétt að hún heimsækti íslenska innflytjendur í Egå og rannsakaði aðstæður þeirra eina kvöldstund.
Ekki var annað að sjá en henni litist allvel á, og sýndi jafnvel húsbóndanum þá kurteisi að skoða hjá honum lokaverkefnið sem minnst hefur verið á fyrr á blogginu. Á myndinni er hann að lýsa fjálglega kostum forritsins sem hann er með í smíðum og þeim möguleikum sem það gefur í skólastarfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2007 | 10:14
Þetta er hreinlega dapurlegt...
Það hefur verið mikil lífsreynsla fyrir gamlan kennara að gerast nemandi og upplifa misgóða kennara. Ég hef verið misheppinn hvað það varðar, í tölvudeildinni voru frábærir kennarar í sumum fögum, en svo voru þar líka verstu teóríuhundar sem ég hef á ævinni kynnst.
Í jarðfræðinni er þetta svipað. Var með ágætismenn í áföngum um grunnvatn og fleira. En núna sit ég áfanga um almenna jarðfræði Danmerkur. Og það er hreinlega dapurlegt að upplifa hvernig hægt er að fara með fagið. Kennslustofan er eins minjasafn um löngu liðna tíma, stórir og glæsilegir kortaskápar sem hafa greinilega áður hýst mikið kortasafn. Þar er nú aðeins að finna örfá kort frá því um 1970. Sama er að segja um steinasafn sem er í nokkrum upplituðum trékössum með gulnuðum merkimiðum. Engan merkimiða hef ég séð með dagsetningu nær í tíma en 1980, flest frá því um seinna stríð. Á borði rykfalla tvær gríðarlegar Rollei sýningar"kanónur" fyrir 60x60 mm slidesmyndir. Á eldgömlum myndvörpum hanga stóru rúlluglærurnar sem ég veit ekki til að nokkur maður hafi getað notað (raunar gengu sögur um S. Bjarklind hefði sett mótordrif á svona tæki). Svona mætti áfram telja.
Það sem er svo enn verra, kennarinn fellur fullkomlega inn í þetta umhverfi. Eina kennslutækið sem hann notar er gamall myndvarpi og þar bregður hann upp glærum sem allar eru gamlar, gráhvítar og illa ljósritaðar upp úr bókum. Enn hefur ekki brugðið fyrir lit eða litmynd, sama um hversu áhugaverð og myndræn fyrirbæri verið er að fjalla. Flestar glærurnar eru með örsmáu letri og hefur hann engan sans fyrir því að færa þá myndvarpann aðeins fjær tjaldinu svo möguleiki gæti verið að lesa á glæruna.
Ég stalst með myndvélina í tíma í dag...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2007 | 09:16
Sunnudagsbíltúr með MA(-tar) kennurum
Okkur var boðið í bíltúr í gær, kennaranir í Randers fóru með okkur um út með Randersfirðinum, yfir að Mariagerfirði og loks Jótlandsheiðar til baka til Randers. Á heiðunum horfðum við m.a. yfir svæðið sem Íslendingum var ætlað að flytja til í kjölfar móðuharðindanna.
Það væri allt of langt mál að lýsa öllu sem fyrir augu bar, en enn og aftur sannaðist hve ómetanlegt það er að hafa heimamenn með í för þegar landið er skoðað. Að sjálfsögðu stoppa þeir á stöðum sem maður annars hefði ekið framhjá án þess að taka eftir. "Frumskógur", ferjuhöfn, klaustur verksmiðjur, veitingahús, sjoppur og söfn.
Raunar sýnist mér þessi samskipti að töluverðum hluta snúast um að gefa Íslendingunum að borða. Ógleymanleg verður biðin eftir eggjakökum og öli á litlu veitngahúsi með örþjónustu við Randersfjörðinn. Ísbúðin í Mariager er sögð sú besta í landinu og koma menn víða að til þes eins að kaupa sér þar ís. Við dvöldumst þar að sjálfsögðu um stund eins og myndin sýnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2007 | 08:58
Langþráðir gestir
Við erum búin að bíða um stund og hlakka til að fá hóp kennara úr MA í heimsókn. Svo birtust þau í gær, Magga, Stefán, Unnar og Bjarni. Búin að slá í gegn í skólanum í Randers þar sem þau eru í opinberri heimsókn og nú var komið að Árósum. Þau skoðuðu ferðamannastaði fyrri partinn, en komu svo út í Egå síðdegis. Við byrjuðum á að sýna þeim menntaskólann hans Bjarna og hann lýsti fyrir þeim hvernig væri að vera nemandi í dönskum skóla. Dró hvergi af sér við að lýsa íþróttakennslunni og sagðist hlakka mikið til að koma heim til Unnars í tíma í Fjósinu okkar.
Ég skrapp svo aðeins niður í bæ með gestina á meðan húsmóðirin eldaði dýrindiskjúklingarétt. Eftir matinn sátum við svo lengi og fengum m.a. fullt af fréttum úr MA. Gott að heyra að engar stórbyltingar hafa verið gerða þar að mér fjarverandi!
Ég notaði svo að sjálfsögðu tækifærið til að sýna frumgerðina af lokaverkefninu mínu við háskólann, fékk loksins áhorfendur sem sýndu því tilhlýðilegan áhuga, vonandi ekki bara sakir kurteisi eftir kvöldmatinn hjá Gunnu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar