Færsluflokkur: Bloggar

Nafli alheimsins

FemernsundBjarni er allur að hressast og það styttist í að við getum aftur lagst í flakk og ferðalög. Þessa daga sem við höfum haldið okkur hér heima við höfum við aðeins verið að fara í huganum yfir það hvað við höfum lært af því að búa hér meðal Dana.

Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann er að Danir líta að sjálfsögðu á land sitt sem miðpunkt alheimsins. Slíkt á við um fleiri þjóðir, en heima á Íslandi eru þó "erlendar fréttir" í mörgum fjölmiðlum. Slíku er ekki til að dreifa hér. Svíþjóð varla nefnd á nafn, frétt frá Noregi hef ég ekki heyrt eða séð ennþá. Ísland kom einu sinni fyrir í fréttum, en það var þegar danskur maður fórst við björgunarstörf við Suðurland í haust. Raunar brá svo Björk einu sinni fyrir í dagblaði.

En svo dúkkar Þýskaland allt í einu upp í fjölmiðlum. Ekki það að eitthvað merkilegt hafi gerst þar, ónei. En Danir hafa mikinn hug á að byggja brú yfir Femernsund, frá Láglandi til Þýskalands. Ekkert óraunhæf hugmynd, svipað mannvirki og Stórabeltisbrúin. Þeir eiga nú í viðræðum við þýsk stjórnvöld og nú eru fjölmiðlar hér fullir hneikslunar á Þjóðverjum að vilja ekki borga meirihluta kostnaðar við brúna. Þeir vilja ekki einu sinni borga helminginn! Danir líta nefnilega svo á að brúin opni Þjóðverjum gríðarlega möguleika á ferðalögum upp til Danmerkur og skilja ekkert í fálæti Þjóðverjanna. Raunar hef ég hvergi séð Dani beita þeim rökum að Þjóðverjar gætu svo haldið áfram upp til Svíþjóðar eða jafnvel Noregs og Finnlands!

Ég held að það mætti bæta landafræðikennslu í skólum víðar en heima á Íslandi.


Rólegheit um hvítasunnu

Gunna og girðinginÞað er eins við var að búast, afskaplega lítið um að vera hér á bæ þessa dagana. Við sitjum mest heima við og sinnum Bjarna eftir því sem þarf. Hann á það svo sannarlega inni hjá okkur eftir að hafa verið með okkur hér í allan vetur eins og engill. Slíkt er alls ekki sjálfgefið með ungling á hans aldri. Hann tekur hröðum framförum og það styttist í að hann verði alveg sjálfbjarga og við getum tekið upp fyrri lifnaðarhætti með flakki og ferðalögum. Honum létti líka töluvert við að heyra í Gunnari Svanbergssyni, sjúkraþjálfara í gær, og af einhverjum ástæðu tekur hann meira mark áþví sem hann sagði en því sem við höfum verið að tuða!

Við höfum samt ekki haldið alveg kyrru fyrir, ókum í gær til bæjarins Hjortshoj og fórum í gönguferð um skóginn í útjaðri bæjarins. Byrjuðum á greinilegum stíg, en því lengra sem við gengum því ógreinilegri varð hann og randaflugurnar stærri og fleiri. Lentum að lokum inni í hestagirðingu þar sem voru hestar öllu stærri en gamli Gráni og Börkur. Þaðan sáum við loks til mannabyggða og brutumst þangað um myrkviði og yfir girðingar eins og sjá má á myndinni. Ætlum að halda okkur við merkta stíga í framtíðinni.


Kominn á ról (þó ekki klæddur og ...)

Kominn á rólHeldur rólegt í kotinu þessa dagana. Við förum ekki af bæ á fyrr en Bjarni verður orðinn sjálfbjarga, þannig að við sitjum mest hér inni við. Þótt hlýtt sé úti viðrar ekki einu sinni til sólbaða. En þetta tekur fljótt af, það eru ekki liðnir nema rúmir tveir sólarhringar og hann er farinn að bera sig aðeins um húsið. Verst er að það er brattur stigi niður á snyrtingu og enginn koppur til í húsinu. Það kemur sér óneitanlega vel að vera lipur mjög og í góðu formi og geta vegið sig á höndunum niður eftir handriðinu. Þessa eiginleika hefur hann þó erft frá föður sínum!

Við eigum það líka sameiginlegt að skilja engan veginn hvernig menn geta gefið sig í læknisstörf, að skera, stinga, saga og bora í skrokkinn á öðrum. Auðvitað erum við þessu fólki rosalega þakklátir en skiljum ekki hvers vegna það er meiri aðsókn í læknisfræði en landafræði háskólum!

Svo erum að undirbúa heimferð Bjarna. Hann þarf að komast sem fyrst undir hendur sjúkraþjálfara á Íslandi, en til þess þarf hann helst að eiga þar lögheimili. En hann er ekki orðinn 18 ára og því verðum við væntanlega að afsala okkur forræði yfir honum og finna einhvern góðan til að ættleiða hann við heimkomuna.


Allt stefnir til betri vegar

Bjarni kominn heim eftir aðgerðÞað hafa óneitanlega verið frekar erfiðir dagar undanfarið, allt síðan Bjarni fékk úrskurð um að eftir allt væri ljóst að hann þyrfti í aðgerð til að laga krossband í hnénu. Það er alltaf stressandi að bíða eftir aðgerð, þó þessar aðgerðir séu í raun lítið mál í dag. Spurning hve mikið væri slitið og bilað, hvert framhaldið yrði, sumarvinnan fyrir bí, a.m.k. fyrri hluta sumars. Þetta einhvern veginn dró úr manni kraft og við bara biðum eftir deginum í dag.

Hann fór svo í aðgerðina í dag og allt gekk eins og í sögu. Það var skipt um eitt krossband (ég held að það séu tvö í hvoru hné!). Engar aðrar skemmdir voru í hnénu þannig að þetta var eins gott og hugsast gat úr því sem komið var.

Raunar var það lán í óláni að við breytingar á skipan sveitarstjórnarmála í vetur var komið á nýrri skipan biðlista í aðgerðir sem þessar. Þessar reglur þekkti starfsfólkið á Ríkissjúkrahúsinu ekki, og þegar ljóst var að biðin gæti orðið mjög löng hjá þeim skutluðu þeir Bjarna yfir á einkasjúkrahús án þess að tala við nýuppsetta stofnun sem átti að stjórna í þessum málum. Hefði allt farið rétta boðleið hefði hann ekki komist svona fljótt í aðgerð.

Framundan er svo nokkurra daga hvíld og síðan endurhæfing og sjúkraþjálfun. Læknirinn sagði raunar að með íþróttastráka eins og Bjarna væri oftast aðalvandinn að halda aftur af þeim þegar þeir héldu sjálfir að allt væri komið í lag. Den tid, den sorg.


Gönguför og gamlir bílar

SAABÞá er hann aftur dottinn í veðurblíðuna - svona um leið og Guðjón og kó yfirgáfu svæðið. Við fórum í sunnudagsgöngu í dag, keyrðum fyrst til Ugelbölle Strand og skyldum bílinn þar eftir. Gengum síðan með ströndinni og um sumarhúsabyggðir miklar og fallegar austur með Kalövíkinni. Eftir nokkra kílómetra datt okkur í hug að finna stað þar sem hægt væri að kaupa ölglas og snarl, því við erum enn ekki orðin nægilega dönsk til að hafa rænu á að útbúa okkur með almennilegan "madpakke".

Við tókum því stefnu á bæinn Rönde, en gangan reyndist lengri en við hugðum. Ölið var hins vegar þess virði að leggja þetta á sig og gerði labbið til baka mun léttara en ella.

Á miðri leið mættum við þessum gamla kunningja, Saab frá því um 1970. Ef einhver veit það ekki voru tveir fyrstu bílarnir okkar þessarar gerðar og gaman að sjá þá enn á götunum.


Kvöldgestir

Kasia og Mikkel (?)Þegar Gunna var í "Sprogskólanum" kynntist hún m.a. Kasiu, ungri konu frá Póllandi sem er í doktorsnámi í jarðfræði við Árósaháskóla. Þrátt fyrir töluverðan aldursmun(!) urðu þær bestu vinkonur og þegar í ljós kom að Kasia hugði á ferð til Íslands í sumar ásamt færeyskum kærasta sínum var nokkuð einboðið að bjóða þeim hingað heim til spjalls og ráðagerða.

Þau komu svo í gærkvöldi og sátu hér fram eftir kvöldi, skoðuðu myndir og kort og ræddu fram og til baka um væntanlega heimsókn til Íslands. Auðvitað höfðu þau áhyggjur af verðlaginu á Íslandi og það var að lokum úr að við munum flytja eitthvað af pólskum matvælum í gámnum okkar til Íslands. Ef tollararnir fara að gera athugasemdir verð ég bara að beita öllum mínum sannfæringarkrafti til að réttlæta innflutninginn!

Afskaplega skemmtilegt kvöld sem hafði upp á allt að bjóða, jarðfræði, ferðaskipulag og Færeying!


Enn ein kveðjustundin!

Guðjón, Brynhildur og synirEnn vorum við að kveðja gesti. Guðjón, Brynhildur, Frímann og Ýmir farin með lestinni áleiðis til Köben eftir skemmtilega daga. Veðurguðirnir voru raunar ekki í sínu besta skapi, en við við létum það ekki trufla okkur. Þau fóru í Lególand, og svo fórum við víða um Árósa, skoðuðum menntaskóla og háskóla, bókasafn og margt fleira. Mikið etið og drukkið, spjallað og svolítið verslað. Í gær fórum við karlarnir fjórir í bíltúr til Horsens til þess að komast í almennilega sundlaug. Það er sem sagt um hálftíma keyrsla, en sundlaugin þar er bara þess virði, einkum ef maður er með börn.

Ef einhver Fimma félaga efast um að Guðjón hafi haldið sér í formi á meðan hann dvaldi hér er hinum sama bent á að skoða meðfylgjandi myndband.


Skin og skúrir

Verkefnið sýnt enn einu sinniBest að byrja á slæmu fréttunum - Bjarni fór í læknisskoðun í morgun  og þá kom í ljós að meiðslin voru verri en áður var talið. Krossbönd sem sagt slitin og í stað þess að fara í meinlausa hnéspeglun þarf hann að fara í krossbandaaðgerð og má svo ekki vinna líkamlega vinnu í svo sem tvo mánuði á eftir. Honum var boðið að fara í aðgerð strax í næstu viku og ákváðum við að þiggja það frekar en bíða til haustsins. En nú er sumarvinnan hans í uppnámi og heitum við nú alla að hjálpa honum að finna létta vinnu, búðarkassa eða eitthvað þvílíkt í sumar!

Svo er auðvitað allt fullt af góðum fréttum. Ég skrapp til Kaupmannahafnar í gær og sótti Guðjón, Brynhildi, Frímann og Ými sem ætla að stoppa hér í þrjá daga. Við byrjuðum á góðri gönguför í gærkvöldi, grilli og spjalli. Í morgun fékk Guðjón að gera svolítið við tölvukerfið á heimilinu sér og okkur til ánægju. Þau eru svo farin á bílnum okkar til Billund í Legoland - verst að mér sýnist rigna svolítið hér suðurundan.

Ég ætlaði að setja allt aðra mynd á frétt dagsins, en til þess að halda stílnum var það krafa gestanna að það yrði hér mynd af þeim að skoða verkefnið mitt úr skólanum!


Gamli Ferguson

Gl EstrupÞað var ljóst um hádegið í gær að ég yrði að grípa til róttækra ráðstafana - það var að hellast yfir mig þunglyndi og neikvæðni á þessari jarðsambandslaus ráðstefnu sem ég hafði eytt tímanum í. Hvað er þá betra en fara út í sveit, hverfa þar aftur í tímann og gleyma um stund þessu ruglaða tölvuliði?

Við drifum okkur því til Gl. Estrup og skoðuðum tvö frábær söfn um menningu í dönskum sveitum. Annars vegar er þar herragarður eins og þeir voru ríkmannlegastir allt fram undir 1930. Mjög gaman að ganga þar um reyna að ímynda sér lífið á svona stað, annars vegar snobbaða yfirstéttina og hins vegar fjöldan af þjónustu- og verkafólki sem þurfti til að reka svona "fyrirtæki".

Hins vegar er á staðnum stórt safn um sögu landbúnaðar allt frá örófi alda. Tvímælalaust flottasta safn þeirrar gerðar sem ég hef skoðað. Húsið sem hýsir vélasafn 20. aldar er gríðarstórt og ekki leiðinlegt fyrir sveitastrákinn mig að ganga þar í gegn. Hefði gjarnan viljað hafa með mér annan sveitamann til að ræða málin og rifja upp, Gunnu fannst ég tala fullmikið við sjálfan mig.

Það kom ekki á óvart að það er mikið gert úr þeirri byltingu sem gamli, grái Ferguson kom með í sveitirnar. Þetta hef ég einnig séð í Skotlandi þar sem tímatal í sveitum er jafnvel miðað við þegar fyrsti Fergusoninn kom á svæðið.

Ég er allur annar eftir þessa ferð og settist beint að tölvunni þegar ég vaknaði í morgun.


Rekum þetta lið út á akrana!

ListaverkÉg hef nú í þrjá daga setið á ráðstefnu um "The Aesthetic Interface". Þar eru saman komnir um 15 hámenntaðir háskólamenn frá Norðurlöndum, Bretland, Þýskalandi, Frakklandi, USA og víðar, auk 5 - 10 óbreyttra áheyrenda. Þetta lið virðist eyða öllum tíma sínum í að velta sér upp skrifum hvers annars og annarra ámóta "fræðinga". Það er svo greinilega kúnstin að tína út stakar setningar með sem uppskrúfuðustu orðalagi, setja þær saman í nýtt samhengi og bæta við eigin orðum, helst nýyrðum með löngum endingum. Að hverjum fyrirlestri loknum hæla þeir svo hver öðrum og klappa fyrir vel unnum verkum.

Þótt innan um hafi leynst einn og einn brúklegur fyrirlestur er ég nú í hádeginu á þeirri skoðun að fjármunum væri betur varið í að kaupa stígvél á þetta lið og reka það út á akrana í nokkra daga í þeirri von að það nái jarðsambandi.

 Sjálfur ætla ég upp í minn bíl á eftir og aka út í sveit og anda að dönsku landbúnaðarlofti.

PS. þeir sem þekkja mig vita að ég verð sjálfsagt búinn að jafna mig á þessu í kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Árósar

Tónlistarspilari

Bamses Venner - Klip i mit kørekort

Höfundur

Jónas Helgason
Jónas Helgason
Myndir og pistlar frá Árósum
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 098
  • 094
  • 090
  • 087
  • 086

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband