Færsluflokkur: Bloggar
15.6.2007 | 18:22
Bröns med lillebror
Árni Hrólfur, Kristín List og Sveinn Áki mætt á svæðið. Árni raunar búinn að vera í landinu i viku með kennarahópi úr Brekkuskóla, en Kristín og Sveinn Áki rétt komin. Þau komu aðeins hér við á leiðinni norður á Skagen, ótrúlega gaman að hitta þau eftir alla þessa mánuði.
Þau koma svo til baka að norðan á morgun og þá ætlum við að sýna þeim nágrennið almennilega!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2007 | 19:36
Dýragarður og Legoland
Við stoppum ekki mikið þessa dagana. Í gær var byrjað á dýragarðinum í Ebeltoft og m.a. farið þar í "Landroversafari" um heimsálfurnar. Tekst bara nokkuð vel að líkja eftir sléttum Afríku með sebrahestum, antílópum, strútum og mörgum fleiri dýrum. Rifjaðist óneitanlega upp alvörusafariferðin okkar í Malaví um árið.
Skoðuðum okkur síðan um í Ebeltoft og víðar á Mols áður en haldið var heim.
Í keyrðum við svo gestina til Billund og fórum í Legoland áður en við skiluðum þeim af okkur á flugvöllinn.
Þegar við sóttum þau á völlinn fyrir viku rigndi á okkur á leiðinni til Billund, en stytti svo upp meðan við biðum eftir þeim. Það var svo eins og við manninn mælt, eftir sjö daga blíðuveður fór að rigna á okkur á heimleiðinni í dag! Er hægt að vera heppnari með veður en fjölskyldan úr Neshömrum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2007 | 21:16
Ekkert lát á blíðunni
Það er ekkert lát á veðurblíðunni, logn, sólskin og hitinn fer í 30 gráður síðdegis. Engar líkur á það breytist fyrr en Kristín List stígur á danska grund, þá er spá að hitinn fali um 10 gráður, vindurinn gangi í norðanátt og það fari að rigna!
Við höfum notið blíðunnar með gestunum, í gær fórum við fyrst í hákarla- og sædýrasafnið í Grenå og flatmöguðum svo í sólinni og syntum í sjónum á frábærri baðströnd sunnan við bæinn langt fram á kvöld.
Ekki var dagurinn í dag síðri. Gunna fór í bæjarrölt með gestina fram yfir hádegi, en svo var ekið sem leið lá til Ry og upp á Himmelbjerget. Síðan drifum við okkur til Silkiborgar og lögðumst þar enn í sólbað á skemmtilegum baðstað við eitt af vötnunum í útjaðri borgarinnar. Slík var veðurblíðan að m.a.s. Gunna óð langt út í vatn! Gátum ekki slitið okkur af staðnum fyrr komið var langt fram á kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.6.2007 | 21:40
Regnskógur og örferja
Randers regnskógurinn í dag. Að þessu sinni voru þar ekki bara apar, fuglar, slöngur, fiskar og sækýr, heldur einnig kennarar úr Brekkuskóla á Akureyri. Afskaplega heimilislegt að vera aftur ruglað saman við Árna Hrólf, eftir 10 mánaða fjarveru frá Akureyri. "Ætlaðir þú ekki að vera í Álaborg í dag?" - "Rosalega varstu fljótur í gegnum húsið!" og fleiri skemmtilegar athugasemdir. Og svo þessu óborganlegi sauðasvipur þegar menn átta sig á að þeir hafa farið mannavillt.
Eftir að þeir bræður Breki og Fjölnir höfðu skoðað nægju sína í Randers var farið og keyptur ís í Mariager og síðan lagst í sólbað við fjörðinn í nágrenni Hadsund.
Á heimleiðinni gerði ég það sem mig hefur dreymt um síðan ég fór ferðina góðu með MA kennurum í vor, að taka litlu ferjuna yfir Randersfjörðinn. Við vorum eini bíllinn og í bíðunni tók innan við 5 mínútur að sigla yfir. Það er óborganlegt að enn skuli vera til svona fyrirbæri í nútímasamgöngukerfi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2007 | 22:07
Veiðimenn
Björk, Díi, Breki og Fjölnir komin í heimsókn. Sóttum þau til Billund í fyrrakvöld og höfum verið á fullu síðan að sýna þeim nágrennið. Veðrið eins og það getur best orðið, glampandi sólskin og hitinn nærri 30 stig. Enda eru menn teknir að sólbrenna og hafa þær systur grafið upp það húsráð að bera jógúrt á verstu brunasvæðin. Hér angar því húsið eins og Mjólkurbú Flóamanna, ég held raunar að þær hefðu átt að nota karamellujógurt, svona upp á litinn!
Við fórum í Tívólið síðdegis í dag. Ég ætlaði auðvitað að sýna minn annálaða hetjuskap í tækjunum, en það er skemmst af því að segja að ég var bullandi sjóveikur í einhverju sjóræningjaskipi og varð að láta mér nægja barnatækin eftir það.
Þeir bræður sækja grimmt á ströndina og slást þar við krabba og marglyttur. Höfðu raunar útbúið sig að heima með það í huga að meira væri um hvali og sæskrímsli við strendur Jótlands en raun varð á.
Í hitanum í dag óðu þeir á haf út eins og myndin sýnir. En "allir komu þeir aftur" eins og segir í ljóðinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 21:38
Hæ hó og jibbi... - það er kominn grundlovsdagur
Þjóðhátíðardagur Dana í dag, Grundlovsdagurinn. Veðrið sýnir allar sínar bestu hliðar og svo eru auðvitað útisamkomur um allt land. Núorðið eru allar samkomur í stærri bæjunum á vegum stjórnmálaflokkanna eða einhverra annarra leiðindasamtaka.
Við keyrðum því út í sveit og vorum viðstödd samkomu bænda við turninn á Todbjerg. Þetta reyndist hin frábærasta skemmtun, enda í mjög föstum skorðum ár frá ári að sögn heimamanna. Kvenfélagið grillaði og seldi pylsur, karlar blésu í lúðra, ræður voru haldnar, kirkjukórinn söng og svo var endað á að allir sungu saman mikinn lofsöng um Danmörku.
Þótt við værum nokkuð langt úti í sveit tilheyrir svæðið Árósakommúnu og því kom borgarstjórinn, ungur kjaftaskur, og hélt aðalræðuna. Miklu skemmtilegri var þó ræða gamals manns sem minntist 80 ára afmælis turnsins á hæðinni.
Við spjölluðum við nokkra á svæðinu, m.a. bónda af næsta bæ sem benti okkur yfir akra sína og lýsti umfangi þeirra þannig að við lá að okkur finndist við vera í Texas en ekki á Jótlandi.
Svo kom Karen, bekkjarsystir Bjarna og spjallaði lengi við okkur. Hún reyndist eiga heima á bóndabæ í nágrenninu.
Ég reyndi að fanga stemminguna á vídeó með litlu ljósmyndavélinni minni. Ég er búinn að klippa saman það helsta, en þetta er samt svo stórt að ég reyni ekki að koma því fyrir á blogginu. Menn geta hins vegar sótt það á slóðina:
http://www.daimi.au.dk/~u060593/Grundlovsdag.zip
Ég skora á hvern þann sem hefur gaman af rótgróinni sveitamenningu að sækja þetta og skoða, þótt gæðin séu ekki mikil á svona upptöku. Sérstaklega vil ég benda mönnum á að hlusta á kórsönginn og brotið úr ræðunni um turninn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 21:53
Aftur í jarðfræðiferð
Ekki vorum við fyrr búin að kveðja Bjarna á flugvellinum í Kaupmannahöfn en við lögðum af stað í ferðalag. Héldum suður Sjálandsströnd, svipaða leið og ég fór einn og Gunnulaus í október. Stoppuðum fyrst í bænum Köge (sem heitir raunar bara Kö á dönsku!) og þræddum svo sveitavegi suður á Stevns Klint. Síðan um hvern sveitabæinn af öðrum alla leið suður á Mön. Stoppuðum lengi í bænum Præstö og borðuðum þar fínasta hádegisverð. Alltaf happadrætti að heimsækja veitingahús í dönskum smábæjum en þarna duttum við í lukkupottinn.
Ég kom á Möns Klint í haust, en þá var þar allt á öðrum endanum vegna byggingaframkvæmda, ég komst ekki niður fjöruna vegna veðurs og gat ekki skoðað eins og ég vildi vegna þess að það var tekið að skyggja.
Nú var annað uppi á teningnum. Nýbúið að opna ótrúlega glæsileg sýningu um jarðsögu Danmerkur þar sem beitt er öllum flottustu margmiðlunargræjum sem völ er, án þess þó að gera um of. Blanda af fræðslu og leikjum fyrir fólk á öllum aldri. Börnin geta t.d. leikið skriðjökul sem ýtir krítarlögunum upp í fellingar og skapar falleg misgengi. Saga veðurfarsins í milljónir ára er sett upp sem veðurfréttir í sjónvarpi, landrekið leikið á risahnattlikani og þannig mætti áfram telja.
Við gengum svo niður í fjöru og skoðuðum m.a. risaskriðu sem féll í sjó fram í vetur. Magnað að sjá hana, ekki síst eftir að hafa skoðað sýninguna þar sem margt var skýrt sem þar máttti sjá.
Ég átt erfitt með að slíta mig á brott frá Möns Klint að þessu sinni til þess eins að aka heim. Ég segi hiklaust að hver sem leið á til Danmerkur og hefur snefil af áhuga á náttúrunni verður af fara á Möns Klint og gefa sér þar góðan tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 21:20
Ættarmót í Kaupmannahöfn
Við héldum til Kaupmannahafnar í gær til þess að koma Bjarna áleiðis heim. Eftir að hafa komið okkur fyrir í notalegri gistingu í "Amagerhus" hjá þeim Olav og Ebbe héldum við niður í miðbæ Amager þar sem við vorum búin að boða ættarmót Grænvetninga í Danmörku.
Við höfðum með öðrum orðum boðað þau Önnu Björk og Danna á okkar fund og með þau í bílnum héldum vð af stað í leit að góðu veitingahúsi. Bjarni krafðist þess að fá almennilega að borða síðasta kvöldið sitt í Danmörku og úr varð að halda á Jensens Böfhus þar sem hægt er að fá stórar steikur og miklar.
Úr varð skemmtilegasta kvöldmáltíð og alveg ljóst að engum leiðist dvölin í Danmörku. Og Bjarni var svo sem ekkert leiður yfir að vera að halda heim á leið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2007 | 22:24
Bjarni kveður Árósa
Síðasta kvöld Bjarna í Árósum, á morgum höldum við til Kaupmannahafnar og hann flýgur heim á mánudagsmorgun. Þetta síðasta kvöld notuðum við til þess að kveðja það fólk sem við höfum umgengist hvað mest í vetur, strákana í handboltaliði Skovbakken. Buðum liðinu og þjálfurunum að koma og fá hér bjór og pizzur og njóta þess að horfa á Ísland og Danmörku vinna glæsta sigra á fótboltavöllunum í beinni útsendingu sjónvarps.
Þetta varð afskaplega eftirminnilegt kvöld, 10 íþróttaáhugamenn að horfa saman á sjónvarpið. Við máttum fyrst sitja undir háðsglósum þegar ljóst var að Ísland var að klúðra leiknum gegn Lichtenstein. Síðan gátum við náð fram hefndum í upphafi leiks Dana og Svía þegar allt gekk á afturfótunum hjá Dönum. Svo ætlaði allt um koll að keyra í stofunni þegar Danir náðu að jafna og allt stefndi í að þeir myndu jafnvel vinna leikinn.
Að upplifa að lokum svekkelsið þegar leikurinn var flautaður af og dæmdur tapaður - menn trúðu ekki sínum eigin augum.
Ógleymanlegt kvöld svo ekki sé meira sagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2007 | 11:01
Gleðilegt sumar - fest og festival
Sumardagurinn fyrsti var í gær að dönsku tímatali. Ekki frusu hér saman sumar og vetur að þessu sinni, en vonandi kemur það ekki að sök.
Hjá okkur er nú allt að færast í rétta horfið aftur, Bjarni orðinn sjálfbjarga þó hann sé enn á hækjunum. Hann fer heim til Akureyrar á mánudaginn og því var ekki lengur undan því skotist að halda mikla kveðjuveislu fyrir bekkjarfélagana. Við gömlu tókum að okkur að elda mat ofan í rúmlega 20 krakka og tókst bara vel til. Frábær hópur og undarlegt til þess að hugsa að marga úr þessum vinahópi mun Bjarni aldrei hitta framar, þrátt fyrir fögur fyrirheit. En það hefur þessi vetur sannað okkur betur en nokkuð fyrr eða síðar hvílíkt afburðafyrirkomulag hið hefðbundna bekkjakerfi er í raun. Enda eru Danir búnir að setja í sína löggjöf að bekkjakerfi skuli notað þar sem þess sé nokkur kostur.
Að lokinni máltíðinni stóðum við gömlu við það fyrirheit okkar að láta okkur hverfa í nokkra klukkutíma. Nú kom sér vel að það var komið sumar og enginn bær í Danmörku er svo aumur að hann haldi ekki festival eina helgi á hverju sumri. Við höfðum fengið veður af því að verið væri að setja slíkt festival einmitt þessa stundina í bænum Hornslet, hér skammt fyrir norðan okkur. Svo vel vill líka til að áætlunarbíllinn til Hornslet stoppar rétt fyrir utan húsið okkar. Við röltum út á stoppistöð og tókum okkur far með næstu ferð. Rútan reyndist full af góðglöðum unglingum á leið á sama festival og við. Rúta þræddi svo þrönga sveitavegina um akra og engi milli sveitaþorpa uns komið var til Hornslet.
Í Hornslet gengum við svo bara á hljóðið og fundum fljótt hátíðarsvæðið með tjöldum, tónlist og bjór. Einstaklega skemmtilega "sveitó" útihátíðarstemming. Þarna dvöldum við svo fram eftir kvöldi og fórum m.a. á tónleika með frábærum, skoskum tónlistarmann, svona einhverskonar "One man bluesband". Komum loks við á krá í miðbænum meðan við biðum eftir rútunni heim í náttmyrkrinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar