Færsluflokkur: Bloggar
7.10.2006 | 16:57
Bjórinn og bjergene
Helst að frétta héðan að Bjarni hvíldi sig í dag eftir að hafa verið að vinna á balli í skólanum í gærkvöldi. Þar stóð hann við bjórdæluna og dældi í glös nemenda og kennara. Ljóst að við komum heim með fullt af hugmyndum næsta skólaár!
Sjálfur fór ég í ferðalag í dag. Fór fyrst til Skanderborgar og svo vestur með vötnunum miklu. Þrátt fyrir leiðindaveður kom náttúrufegurðin mér þægilega á óvart, sérstaklega er Himmelbjerget merkilegri staður en ég hafði haldið. Náði því takmarki að komast á þrjá hæstu tinda Danmerkur í ferðinni. Skora á Brynju að leika það eftir í "sínu" landi.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2006 | 15:47
Bílastæðin og Múhameð spámaður
Það er ljóst að ég þarf ekki að punga út verðlaunum fyrir myndagátuna. Ég ætla þó að koma með eina mynd í viðbót og eftirfarandi vísbendingu: Þetta er bílastæðið við menntaskólann hans Bjarna sem heitir Egå Gymnasium.
Annars gerðis það helst í dag að hér datt inn um lúguna fyrsta eintak af Nyhedsavisen, hinu íslenskættaða fréttablaði. Hér hefur fjölmiðlaheimurinn snúist um fríblöð allar götur síðan við komum hingað í ágúst, hvernig hægt sé að komast hjá því að fá þennan "ófögnuð" inn um lúguna. Heilu prentsmiðjurnar lifa á því að prenta límmiða á póstkassa - Engin fríblöð takk.
5 - 7 dönsk blöð eru ýmist byrjuð að berast eða í startholunum og öll hafa þau lýst því yfir að þau hætti útgáfu daginn sem helv... Íslendingarnir hypji sig heim.
Og hvað skyldi nú Nyhedsavisen hafa notað sem uppslátt í fyrsta eintaki? Jú - nýja skopmynd af Múhameð spámanni! Nú skal sko sýna umheiminum hver kominn er til valda í fjölmiðlaheimi Danmerkur!
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.10.2006 | 07:38
Verðlaunagetraun
Ég var löngu búinn að lofa að birta myndagetraun á þessum bloggi. Hér birtist hún loksins.
Spurningin er einföld: "Hvað táknar svona merking á bílastæði".
Verðlaun fyrir rétt svar er einn hlutur að eigin vali úr uppáhaldsbúðinni minni.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.10.2006 | 20:44
Danskar bókmenntir og verkföll í skólum
Bjarni fær hér allar skólabækur ókeypis. Kom heim í dag með nýtt námsefni í dönskum bókmenntum!
Annars er það helst af skólamálum að frétta að hér logar allt í verkföllum í skólakerfinu. Leikskólar víða lokaðir, grunnskólar drógust svo inn í þetta í dag, og í morgun stóðu kennarar og nemendur með spjöld og borða meðfram öllum aðalgötum inn í borgina. Menntaskólanemar hyggjast grípa gæsina og ná sér í frídag til þess að styðja verkfallsmenn. Sér Bjarni fram á skemmtilega daga!
Allt er þetta til komið vegna sparnaðaráætlana stjórnvalda. Sérstakt er að heyra kunnuglegan tón í viðtölum í útvarpinu, við kennara, foreldra og svo ekki síst þegar einn sveitarstjórnarmaður "missti sig" í dag og fór að hóta verkfallsmönnum hýrdrætti og öðru í þeim dúr. Viðbrögðin létu ekki á sér standa hjá verkfallsmönnum. Afskaplega heimilislegt.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2006 | 15:42
Að lokka sjálfan sig til líkamsræktar
Líkamsræktina má ekki vanrækja. Bjarni sér um sig, handbolti og ræktin flesta daga. Svo fékk hann golfsettið sitt og er byrjaður að spila á Mollerup vellinum. Við komumst nefnilega að því að það er ekkert mál að komast í golf og kostar ekki meira en heima.
Það er annað mál með líkamsræktina mína. Ég hef ekki fundið neitt Fimmleikafélag sem stendur undir nafni, þannig að ég varð að finna mér annað til. Mér hefur gefist nokkuð vel að fara einfaldlega út að hjóla, hér má endalaust finna nýjar leiðir. En mér gengur ekki alltaf jafnvel að hafa mig af stað. Hér var um miðjan daginn úrhellisrigning með þrumum og eldingum, en þegar stytti upp voru fáar afsakanir gildar að fara ekki út að hjóla. Samt þurfti ég að berjast svolítið við sjálfan mig, nóg af handbolta og fótbolta í sjónvarpinu.
En ég kann orðið ráð til að lokka sjálfan mig út að hjóla. Ég segi einfaldlega við sjálfan mig: "Jónas, ef þú verður góður og ferð ut að hjóla, þá máttu taka með þér bakpoka, hjóla út í Risskov hverfið og koma við í uppáhaldsbúðinni þinni".
Þetta dugði í dag.
Myndir úr búðinni og fleiri nýjar myndir í flokknum Haust í Árósum
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.9.2006 | 11:45
Umferðin - spurning til Brynjólfs og annarra talnaglöggra
Umferðin hér í borg hefur að sjálfsögðu vakið athygli ökukennarans. Hér búa hátt á þriðja hundrað þúsund manns, um helmingi fleiri en á Reykjavíkursvæðinu. En einhvern veginn hefur tekist að skipuleggja umferðarmannvirki þannig að manni finnst maður aldrei vera svo stórri borg. Ég hef hvergi lent í vandræðum með að finna bílatæði nema við IKEA (tel það nú ekki með þegar ég skrifa um menningarmál eins og umferð).
Það eru vissulega töluverðar tafir á umferð inn í borgina á morgnana og svo aftur á leiðinni út síðdegis. En þetta er aðeins smástund og nánast alltaf get ég keyrt fulla ferð að heiman og niður í háskóla. Suma morgna fer ég klukkan 8:00 af stað og kemst hiklaust leiðar minnar. Umferðin líður einhvernveginn áfram án átaka og þó eru hér í borg ekki ein einustu mislæg gatnamót! Ég hafði á orði eftir um tveggja vikna dvöl að ég hefði ekki séð einn einasta bílstjóra aka í svigi milli akreina. Vissulega hef ég séð það síðan og ég hef komið að slæmu umferðarslysi (mótorhjólaslysi), en samt er blærinn yfir umferðinni allt annar en heima á Íslandi.
Hvað veldur því að þetta gengur svona létt fyrir sig? Ég held að skýringarnar séu nokkrar. Ef ég tæki alla sem sitja á reiðhjólinu sínu við gatnamótin og bíða eftir grænu og setti þá hvern og einn í einkabíl myndi þyngjast verulega um á gatnamótunum. Það er fullt af fólki í strætóunum, jafnvel fólk með bílpróf!
En það sem ég held að skipti mestu er að umferðargötum er gefið mikið pláss og ekki sífellt verið að þrengja að þeim með misgáfulegum aðgerðum. Og svo spurningin til hinna reikningsfróðu - getur verið að grænu ljósin logi miklu lengur en hin rauðu? Þetta er ég orðinn alveg sannfærður um. Auk þess nota hérlendir gulu ljósin alveg eins og hin grænu og stoppa alls ekki fyrr en komið er skærrautt ljós. Þetta fyrirkomulag greiðir verulega fyrir umferðinni á annatímum.
Ég er svo að fara að taka myndir í myndgátuna (sem raunar tengist umfeðarmálum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2006 | 06:43
Tvær nýjar myndir
Danni var í heimsókn um helgina, gaman að hafa einhvern með okkur Bjarna við matborðið og sjónvarpið. Þeir frændur ræddu margt og Bjarni sýndi Danna helstu verslanir. Miklir heimsborgarar. Ein mynd af þeim að kveðjast á brautarstöðinni.
Svo bætti ég einni mynd í heimilismyndaflokkinn. Sú mynd er bara ætluð Gunnu og ættu aðrir ekki að skoða hana.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2006 | 09:11
Öl skóla og ölþurrð í sveitinni
Eins og allir vita er ölið matvara og flokkast hér í landi jafnvel sem heilsufæði. Í matvörubúðum er það í hillum með vatni og ávaxtasafa. Á sumum vinnustöðum þykir það næstum jafn sjálfsagt og okkur þykir kaffibolli. Mér fannst því óskaplega gaman og til eftirbreytni að sjá kollega mína í Egå Gymnasium sitja með ölflöskur í höndum úti á svölum kennarastofunnar eftir vinnu á föstudaginn.
Ég gerðist auðvitað ölþyrstur við þá sjón, en fannst að rétt væri að blanda þó öldrykkju við frekari líkamsrækt, ekki síst vegna þess að þetta var á hefðbundnum fimmleikatíma. Ég greip því hjól mitt og hjólaði langt út í sveit. Þar heimsótti ég lítið þorp og ætlaði að leita þar uppi þorpskrána. Hún reyndist engin vera, en öl væri selt í matvörubúðinni. Þyrstur sem ég var lét ég mér það nægja, og hjólaði svo með nestið út á nærliggjandi akur og naut þess þar í veðurblíðunni.
Nokkrar nýjar myndir í flokknum "Haust í Árósum"
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2006 | 20:46
Tölvumál í tölvudeild og hérlendir Guðjónar
Nú er ég farinn að skrifa pistil í miðri kennslustund - hvers vegna, jú hér í tölvudeild Árósaháskóla fer alltaf drjúgur tími hverrar kennslulotu í það reyna að fá tölvurnar til þess að virka. Þessa stundina er kennarinn að reyna að ná netsambandi og ef það tekst, þá er eftir að fá hljóðkerfið í stofunni til þess að taka við boðum frá tölvunni hans. Þar að auki hrundu gardínurnar niður þegar hann reyndi að myrkva stofuna og svo var hvergi töflukrít að finna í húsinu. En þetta er allt að reddast, en hvaða kennari kannast ekki við það hvað 10 mínútur eru fljótar að fara til einskis við þessar aðstæður.
Ég hélt að tölvukerfið í MA væri einsdæmi, en það virðist lítið skárra hér. Nemendur eru í vandræðum með að fá fartölvurnar til að hanga í netsambandi, mín tölva er enn ekki farin að svara netinu þrátt fyrir margar tilraunir eins af mörgum "Guðjónum". Aðgangur að húsum skólans er tölvustýrður og háður "stúdíukorti" hvers og eins. Eftir nærri mánuð standa nemendur enn í hópum utan húss og ekkert kort virkar til að hleypa mönnum inn. Og það má okkar Guðjón eiga að hann bregst hratt og örugglega við vandamálum samanborið hérlenda. Þeir eru hins vegar nákvæmlega sömu ljúfmennin og vilja allt fyrir alla gera hvenær sem til þeirra er leitað.
Ég er svo að undirbúa verðlaunagetraun á þessu bloggi mínu. Það verður í raun myndagáta sem birtist fljótlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2006 | 08:05
Grænilækur og JAVA forritun
Það er óneitanlega svolítið sérstök tilfinning að vera orðinn nemandi í skóla eftir að hafa staðið bak við kennaraborðið í 30 ár. Sérkennilegt að vera orðinn í þeirri stöðu að taka þátt í umræðu um það "hvernig dettur kennurunum í hug að gera þetta svona..." Verst finnst mér þó að mér finnst ég eiginlega ekki passa inn í nemendahópinn, þetta eru svoddan börn. Eiginlega eru sumir kennaranir einnig óttaleg börn - eða er ég kannski að verða svona gamall. Það bjargar þó málum að þeir hafa verið að fá "gamla og reynda" fræðimenn til þess að halda gestafyrirlestra, þá fyrst finnst mér ég vera kominn með kennara!
Það gladdi mig mjög að síðasti fyrirlesari ber nafn sem bendir til þess að hann eigi rætur að rekja í Mývatnssveit, meira að segja suðursveitina. Hann heitir sem sé Kaj Grønbæk, sem hlýtur að útleggjast Grænilækur (en eins og menn vita rennur Grænilækur úr Grænavatni í Mývatn). Það studdi enn frekar kenningu mína um uppruna mannsins að hann reyndist fróður, skemmtilegur og málglaður.
Meira úr Háskólanum síðar, nú þarf ég að snúa mér að því að vinna heimaverkefni í forritun (sem ég átti að skila í gærkvöldi!). Skemmtilegt námsefni (fyrir mig) en óhemju asnalega uppbyggður áfangi! Kenna á forritunarmálið JAVA á 6 vikum (!), þar af fara tvær síðustu vikurnar í lokaverkefni. Tvisvar í viku eru fyrilestrar fyrir 300 manna hóp. Maður lærir ekki forritun á að horfa á annan mann vaða yfir hlutina í PowerPoint. Bjargar málum að hann er skemmtilegur fyrirlesari. Við keyptum frábæra kennslubók, með frábærum verkefnum sem leiða mann skemmtilega áfram. Tvisvar í viku eru svo æfingatímar í litlum hópum. Skyldi maður ætla að þá yrði nú farið yfir verkefnin i bókinni góðu. Ónei - þá er barist við verkefni í forljótu, fjölrituðu hefti sem virðist vera án höfundar, en allir vita að er eftir kennarana sjálfa, enda hamra þeir stöðugt á að við verðum að kaupa þetta hefti líka, ekki bara bókina góðu. Verkefni þessi, sem við eigum að skila vikulega, eru í litlum sem engum tengslum við efnistökin í bókinni. Nú eru búnar 3 vikur af 4 sem fara eiga í eiginlega kennslu, og við erum búin með um 40 bls. í bókinni sem er 432 bls (fyrir utan indexa).
Best að hætta þessari neikvæðni, ég er að læra heilmikið á þessum áfanga. Boða umfjöllun um aðra áfanga síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar