Færsluflokkur: Bloggar

Af himnum ofan...

049Aðstæður breytast - nú hefur orðið fjölgun á heimilinu. Gunna er sem sagt komin og fari að taka til hendinni. Hafin er sem sagt önnur lota IKEA ferða og heimsókna í Rúmfatalagerinn. Hún varð þó að viðurkenna að við hefðum komið okkur vel fyrir, helst að það vantaði kertastjaka, blóm og blómavasa og annað slíkt pynt.

Daginn áður en Gunna kom mætti vetur konungur á svæðið, kom raunar eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það brast sem sé á með frosti og snjókomu, hvassviðri, sjávarflóðum og mannsköðum. Brýr lokuðust, ferjur stoppuðu og lestum seinkaði (meira en venjulega). Nú er hins vegar komið hið besta veður aftur, stillt, sólskin og hiti rétt við frostmarkið.

En manni bregður óneitanlega við að þurfa að skafa rúðurnar á morgnana. Þetta sýnir mér líka hvað tíminn líður hratt, mér finnst örstutt síðan við Bjarni vorum að farast úr hita hér í lok sumars.


Reykingar og reyklaus borð

048Það er svo sem ekki margt sem kemur okkur á óvart hér í Danmörku, enda flest líkt með skyldum. Þó hafa okkur feðgum komið á óvart hve reykingar eru gríðarlega algengar og útbreiddar. Það er reykt á öllum veitingastöðum og þykir sjálfsagður hlutur að afgreiðslumenn reyki framan í viðskiptavini. Biðji maður um reyklaust borð á veitingahúsi eru öskubakkar einfaldlega teknir af einu borði og þér boðið þar sæti - með öðrum orðum þú þarft þá ekki að reykja sjálfur. Það er hins vegar eins víst það sé keðjureykt borðunum í kringum þig.

Það sem kemur okkur þó mest á óvart eru reykingar í íþróttahúsunum. Við erum búnir að koma í þau allnokkur og allstaðar er sama sagan, sjoppur og kaffiteríur í húsunum fullar af reyk. Foreldrar sem horfa á leiki barna sinna reykja jafnvel inni í sal í hálfleik. Ég var á samkomu foreldra eitt kvöldið í vikunni og þar lá við leiðindum af því að nokkrir fundarmenn báðu um að ekki yrði reykt við borðið. Steininn fannst mér svo taka úr í gærkvöldi þegar Bjarni og félagar luku leik (sem vannst örugglega og tók hreint ekkert á taugarnar). Að loknum leik kveikti aðstoðarmaður þjálfaranna í sígarettu og gekk reykjandi út úr salnum innan um leikmenn og gesti.

Þetta smitar að sjálfsögðu út frá sér og unglingar (sérstaklega stelpur!) hika ekki við að reykja á göngum húsanna eftir æfingar. Þá eru reykingar nemenda, bæði menntaskólanum og háskólanum mjög áberandi, þótt þar sé búið að koma þeim út fyrir dyragættina, a.m.k. að nafninu til.

Ég hélt að ég væri ekki viðkvæmur fyrir svona nokkru, en...


Klip i mit kørekort - fyrir dönskukennara og ökukennara

Það er til marks um hve það fer vel um mig hér í Danmörku að ég er farinn að leggja mig eftir að hlusta á danska tónlist. Ég hef áður sent tengil á "Massey Ferguson" fyrir sveitamennina, en núna er komið að dönsku- og ökukennurum.

Þannig er að fyrir nokkru tóku Danir upp þann sið að klippa gat í ökuskírteini þeirra sem brjóta alvarlega af sér í umferðinni. Þetta mjög svo sýnilega "punktakerfi" hefur gefið mjög góða raun, menn virðast dauðskammast sín fyrir að ganga um með götótt ökuskírteini.

Það eru þó ekki allir sáttir, og svo eru auðvitað til þeir sem sjá skoplegu hliðarnar. Þið verðið að hlusta á textann í laginu "Klip í mit kørekort" með Bamses venner.


Handbolti og hársnyrting

047Lífið komið í fastar skorður aftur eftir haustfríið. Bjarni kominn og byrjaður á fullu í handboltanum með Skovbakken. Raunar var handboltinn ein sorgarsaga framan af hausti, danska handboltasambandið dró vikum saman að ganga frá leikheimild fyrir Bjarna sem mátti því horfa á alla forkeppnina af áhorfendabekkjunum. Svo lenti flokkurinn hans í því slysi að lenda niður í aðra deild á kostnað Randers sem slapp upp í fyrstu deild. Það fór lítið fyrir vinabæjarhugsunum hjá okkur feðgum þann daginn.

En nú gengur allt að óskum og strákarnir vinna alla leiki stórt og vonast efti að komast upp um deild fyrir jólin.

Svo styttist í að Gunna flytji til okkar og er ég þegar farinn að huga að því að hún fái nú einhver viðfangsefni fyrstu dagana. Ég er t.d. hættur að þrífa bakaraofninn...

Svo ætla ég auðvitað að líta þokkalega út þegar hún kemur. Hafði ekki farið í klippingu síðan í ágúst og orðinn útlítandi eins og einhver "hyppingur" eins og amma mín sagði um frænda minn á 8. áratugnum. Fann rakarastofu rétt hjá háskólanum sem auglýsti mjög ódýra herraklippingu. Aðeins runnu á mig tvær grímur þegar ég kom inn og sá konuna sem þar var við störf. Hennar hárafar minnti helst á teikningar af Grýlu gömlu og fannst mér það ekki mjög traustvekjandi. Ég hafði þó ekki tíma til að fá bakþanka því hún dreif mig strax í stólinn, spurði tveggja spurninga um einhverja millimetra. Ég hváði við, en það var um seinan, vélin var komin í gang og á örfáum mínútum kláraði hún verkið. Ég þakka fyrir að hafa haldið höfuðleðrinu og eyrunum að mestu ósködduðum.

En það verður bið á að ég birti myndir af mér blogginu og læt því handboltamynd af Bjarna duga að sinni.


Enginn veit hvað átt hefur...

c_documents_and_settings_jonas_my_documents_my_pictures_blogg_badeanstalt.jpg

Ég hef aldrei talist til fastagesta í sundlauginni á Akureyri. Vitneskjan um sundlaugaleysi í útlöndum hélt því ekki fyrir mér vöku þegar ég hafði ákveðið að halda af landi brott.

Ég hef nú setið ansi stíft við tölvuna í nokkrar vikur, enda í námi sem krefst slíkrar yfirlegu(!). Hef síðustu daga fundið nokkuð fyrir spennuverkjum í skrokknum og allt upp í haus. Hélt fyrst að það stafaði af því að ég er daglega að reyna að skilja og tala dönsku (sem ég flokka ekki lengur sem tungumál heldur viðfangsefni). Við nánari umhugsun datt mér þó í hug að þetta tengdist setunni við tölvuna. Og nú varð mér hugsað til sundlauganna og heita vatnsins.

Ég lagðist í rannsóknir og komst að því að hér í bæ eru allmargar sundlaugar. Flestar tengjast hins vegar skólum og íþróttafélögum og eru ekkert opnar fyrir almenning. Þó eru fimm laugar (ath. íbúar í bænum eru tæpl 300.000) sem hleypa óbreyttum borgurum ofan í vatnið. Þrjár þeirra eru aðeins opnar suma daga og fáa klukkutíma í senn. Tvær gefa sig út fyrir að vera almenningslaugar og eru opnar alla daga fram á kvöld.

Ég ákvað nú síðegis að fara í gömlu sundhöllina, glæsilegt mannvirki byggt 1930 - 1933 í miðbænum, rétt hjá járnbrautarstöðinni. Þótti á sínum tíma ótrúlega merkilegt hús, arkitektúrinn einstakur og þar fram eftir götum. En - 1933 þurfti ekki að reikna með bílastæðum. Því er manni vísað á bílastæði miðbæjarins (sem raunar er nóg af). Ég borgaði því 20 krónur fyrir stæði í nágrenninu og svo 35 krónur fyrir aðgang að lauginni. Samtals 55 krónur danskar og þótti frekar mikið.

Það er rétt, þetta er glæsilegt mannvirki með mikla sögu. Karlakefar á þriðju hæð en kvennaklefar á annarri hæð, þeirri sömu og laugin sjálf (létum við ekki konurnar klifra upp á efri hæðina á Akureyri?). Klefar fínir og þrifalegir, fín gufu- og sánaböð. Laugin 25 metra með þremur brautum, önnur minni og svo sæmilegur heitur (volgur) pottur. Og svo er nuddpottur sem ég ætlaði svo sannarlega að nota. En þar var aðgangur takmarkaður við 5 manns í senn, sem fengu 10 mínútur. Síðan var 10 mínútna hlé meðan skipt var um vatn í pottinum. Sérstakur biðbekkur var við hliðina á pottinum og biðu þar tveir 5 manna hópar (=40 mínútna bið)! Ég gafst upp á biðinni.

En vatnið, gufuböðin og sánan gerðu það að verkum að ég losnaði að mestu við spennuna úr skrokknum og skil nú dönskuna miklu betur. A.m.k. þegar Aron Kristjánsson er skamma leikmenn sína í handboltanum í beinni þessa stundina.

Njótið íslensku sundlauganna!!!


Til Guðjóns

045Ég skemmti mér alveg konunglega hér Danmörku, læri það sem mig langar til í háskólanum og flækist um þess á milli. En af því Guðjón virðist lifa í þeirri trú að ég sé að læra eitthvað hagnýtt sem komi sér vel í kennslunni á næstu árum finnst mér rétt að lofa honum að sjá fyrstu afurðina mína úr áfanga í þrívíddarhönnun/teikningu! Þetta er raunar önnur tilraun við riddarann, í þeirri fyrstu líktist hann helst blómalistaverkum vinkonu okkar í Svíþjóð - en þrívíddin var glæsileg!

Menn rétt ráða því hvort þeir gera athugasemdir við faxið á hrosshausnum. Ég skal að vísu viðurkenna að það var ekki svona á fyrirmyndinni!

En ef það má vera GHH til einhverrar huggunar, þá er ég líka á fullu að læra PHP og MySql.

 


Sveitahúmor og útvarpsstöðvar

044Brá mér í enn eina landkönnnarferðina á sunnudaginn, að þessu sinni til Silkiborgar. Kom við á leiðinni í stærsta "Kolaporti" í Danmörku, markaðnum í Låsby. Ótrúlegt hvað mönnum dettur í hug að reyna að selja!

Á þessum flækingi mínum hlusta ég á útvarp - hér er fullt af notalegum stöðvum (svona Abba - Take me Home, Country Road stöðvar). Ég fór að að velta því fyrir mér hvers vegna mér þætti svona miklu þægilegra að hlusta á þessar stöðvar en stöðvarnar heima á Íslandi. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós - ég hef ekki enn heyrt neinn útvarpsmann tala um sjálfan sig og vini sína í stétt fjölmiðlafólks. Og aðeins einu sinni hef ég heyrt opnað fyrir símann til þess að menn geti talað um hluti sem þeir hafa ekki vit á (og það var auðvitað um Íslendinga og innrás þeirra á blaðamarkaðinn).

Svo hafa Danir húmor. Þeir sem aldir eru upp á Ferguson verða að hlusta á þetta lag. Því miður er þetta bara sýnishorn, en það má sjá allan textann á vefnum.

http://www.rasmuslind.com/detlysner/ferguson1.mp3

http://www.detlysner.dk/?l=tekster&r=ferguson


Gönguför i haustbíðunni

039Orðinn einn í kotinu brá ég mér í gönguför hérna rétt í næsta nágrenni sídegis í dag.

Mynd frá smábátahöfninni í Kaløvig.


Kóngsins Kaupmannahöfn

032Þá er skollið á haustfrí í dönsku þjóðfélagi. Skólar lokaðir og þeir sem það geta taka sér frí og gera eitthvað með börnunum sínum (svona hljómar það a.m.k. í auglýsingum ferðaþjónustunnar).

Það hafði alltaf staðið til að Bjarni skryppi heim til Íslands í þesu fríi. Hann tók forskot á sæluna og bætti tveimur dögum framan við fríið. Við keyrðum til Kaupmannahafnar eftir vinnu á miðvikudaginn. Tinna og Janus buðu okkur í kvöldmat og svo fóru Bjarni, Tinna og frændi Janusar á tónleika. Ég kann raunar hvorki að nefna tónlistarstefnu né hljómsveitarnafn, en tónleikar þessir voru að sögn "hreint frábærir".

Við gistum svo á litlu gistihúsi hjá tveimur dálítið sérstökum náungum úti á Amager, rétt hjá flugvellinum. Fórum í bæinn á fimmtudag og vorum þar fram eftir degi, Bjarni keypti "nauðsynjar" á Strikinu, en ég gekk enn eina ferð í spor nafna míns Hallgrímsonar. Alltaf jafn gaman að ímynda sér líf íslenskra bændasona í borginni fyrr á öldum og alltaf skil ég betur og betur að þeir skyldu ekki allir hafa haldið sönsum.

Ég keyrði Bjarna svo á völlinn síðdegis en fór svo aftur á gistiheimilið. Um kvöldið fór ég á ég á kínverskan veitingastað á Amager. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, en af um 30 gestum staðarins greindi ég af tali manna 8 íslendinga. Þetta er hátt hlutfall, en þó er það svo að maður heyrir íslensku talaða ótrúlega oft og víða, bæði í Kaupmannahöfn og Árósum.

Á heimleiðinn í gær tók ég svo á mig langan krók og skoðaði tvö helstu jarðfræðiundur Danmerkur, Stevn Klint og Möns Klint. Flottir staðir og raunar er eyjan Mön öll mjög sjarmerandi.

Ég er svo á því að mér sé ætlað það hlutverk að greiða laun a.m.k eins stöðumælavarðar í Danmörku. Þeir eru ótrúlega fundvísir á bílinn minn og duglegir að sekta. Lægri upphæð en 500 danskar krónur er ekki að finna í þeirra gjaldskrá og eru sektagreiðslur mínar í mánuðinum þegar orðnar tvær. Og það í bæði skiptin fyrir næstum engar sakir og auðvitað alls ekki mér að kenna.

Ég á að mestu eftir að vinna úr myndunum en læt þó nokkrar fylgja núna.


(Kerfislæg) sambúðarslit

Eins og flestir sem þetta lesa vita, þá fluttum við Bjarni bara tveir til Árósa í ágúst, Gunna kemur svo til okkar í byrjun nóvember. Þetta héldum við að væri nú einfaldur gjörningur, en það er ekki að spyrja að velferðarkerfum landanna tveggja.

Við erum sem sagt komin með tvö lögheimili og þá er fjandinn laus. Íslenska kerfið fór auðvitað strax á stúfana og kannaði hvort ég hefði rænt barni, eða hvort móðirin hefði samþykkt þetta skipulag. Íslenska bankakerfið telur mig hafa stungið af frá öllum mínum skuldum og skilið (fyrrum) eiginkonu mína eftir í súpunni. Hún er því betur innanbúðar í bankakerfinu og hefur getað komið leiðréttingum á framfæri, annars væri sennilega búið að hirða af henni húsið og henda leigjendunum út.

Danska kerfið brást líka hratt og örugglega við. Við vorum boðnir velkomnir í bæjarfélagið og mér var boðin öll sú félagslega og uppeldislega aðstoð sem einstæðum föður bæri. Fékk meira að segja eyðublöð til þess að sækja um styrki þar að lútandi. Það er að vísu tekið fram að hart væri tekið á því ef menn svindluðu á þessu kerfi.

Steininn tók svo úr þegar ég fékk bréf þar sem mér var boðin aðstoð við að ættleiða drenginn ef hann væri ekki sonur minn (sennilega þarf að kynna dönum betur íslenska nafnakerfið).

Til að taka af allan vafa þá hyggjumst við Gunna taka upp sambúð að nýju í nóvember. En fari sem horfir munum við þurfa að gifta okkur að nýju. Lofa ég hér með herlegri brúðkaupsveislu þegar þar að kemur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Árósar

Tónlistarspilari

Bamses Venner - Klip i mit kørekort

Höfundur

Jónas Helgason
Jónas Helgason
Myndir og pistlar frá Árósum
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 098
  • 094
  • 090
  • 087
  • 086

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband