Færsluflokkur: Bloggar
12.12.2006 | 13:26
Í skólanum, skólanum...
Ég er nemandi í skóla, hvað sem hver segir! Ég sit einmitt núna í einum af þessum teóríu tímum sem mér þykja ekki mjög spennandi. Skil betur og betur nemendur sem freistast til að hverfa inn í fartölvuna þegar kennarinn talar óskipulega um eitthvað sem vekur lítinn áhuga.
Því betur eru fæstir tímarnir svona, ég er líka í rosalega skemmtilegum tímum þar sem maður fær að leika sér með tölvurnar. Ég gafst raunar upp í þrívíddarteikningunum þegar kom að því að teikna sjálfan sig í þrívídd, reyni það kannski síðar. En það skemmtilegasta núna er að vinna við að búa til leiki og námsefni í margmiðlunarumhverfi, eitthvað sem mun örugglega nýtast mér síðar.
Myndin er tekin í upphafi tímans á meðan allir voru glaðvakandi.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2006 | 17:12
Sending að heiman
Stundum fær maður spurningum um það hvers maður sakni að heiman, svona rétt eins og það sé sjálfsagt að maður sé að velta sér upp úr því hvað sé nú öðru vísi hér en þar. Ég gæti örugglega nefnt eitthvað sem ég hlakka til að sjá aftur, en það er langt í frá að það sé nokkuð að plaga mig.
Bjarni lét hins vegar mjög ákveðið í ljós við vini sína hvers hann saknaði mest. Herdís vinkona hans brá skjótt við og áðan barst hingað pakki sem Bjarni opnaði og ljómaði svo af gleði að ég er viss um engin jólagjöf mun komast í hálfkvisti við þessan pakka.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2006 | 21:54
Heimferð og höfuðhögg
Eftirminnilegur dagur í gær - svo ekki sé sterkara að orði komist. Til að byrja með ákváðum við hjónakornin að keyra þær "Shopping Sisters" til Kaupinhafnar með sitt hafurtask. Við hefðum svo sem getað sent þær með lestinni, en með þessu fyrirkomulagi mátti ná þremur tímum af spjalli og spaugi til viðbótar. Svo höfðum við líka alltaf ætlað að skoða okkur að heimsækja Óðinsvé, sem við og gerðum á heimleiðinni. Þar er gaman að koma og skoða borgina og allar stytturnar sem prýða götur þess góða staðar.
Það sem okkur þykir best við þessa dvöl okkar í Danaveldi er að brjótast upp úr djúpum hjólförum daglegs lífs liðinna ára. Annað heimili, aðrar verslanir, aðrir skólar, aðrir siðir. Og í gær var það svo önnur slysavarðstofa. Allt síðan Tommi fór að stunda hjólreiðar og aðrar íþróttir fyrir rúmum 20 árum höfum við verið fastagestir á Slysó á Akureyri. Tölfræði Bjarna sagði okkur svo sem að útilokað væri annað en hann færi svo svo sem einu sinni til þrisvar á slysó í Árósum í vetur.
Í gærkvöldi var hann svo að spila handboltaleik - einu sinni sem oftar við lið frá Randers. Hann er nú raunar á því að Akureyri eigi að segja upp vinabæjartengslunum við þann bæ. Honum gekk illa í fyrri hálfleik og lét margt fjúka sem var eins gott að foreldrar og dómarar skyldu ekki. Ég var eitt sinn beðinn að túlka fúkyrðin en færðist undan. Svo kom að því í síðari hálfleik að hann var fremstur í hraðaupphlaupi og fékk háa og erfiða sendingu sem hann greip með ótrúlegum loftfimleikum og náði að skora glæsilegast mark liðsins í vetur. En sá böggull fylgdi skammrifi að hann lenti á hausnum inni í vítateig, hálfrotaður og með heilahristing. Var snarlega kallað á sjúkrabíl og við eyddum svo kvöldinu á "skadestuen" á meðan fylgst var með honum um stund. Það versta er þó að hann man ekkert eftir leiknum, og hreint ekkert eftir markinu góða sem áhorfendur eiga örugglega eftir að minnast það sem eftir er vetrar.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 19:51
Þrjá systur
Ég viðurkenni að ég hef verið latur að skrifa fréttir upp á síðkastið. Skýringarnar eru einfaldar, það hefur lítið fréttnæmt gerst, utan að hér hafa verið gestir. Það er mjög skemmtileg tilbreyting eftir merira en þriggja mánaða dvöl. Fyrst voru Þórður og Helga Þyri hér í nokkra daga - og náðu að fara heim með fleiri töskur en þau komu með að heiman.
Nú eru hér á heimilinu "þrjár systur" og lítur enn betur út með töskufjöldann en hjá mínu fólki. Þær fóru í bæinn í dag og gáfust ekki upp fyrr en öllum sjoppum hafði verið lokað í kvöld. Var rétt að skottið á mínum stóra stationbíl dugði þegar ég sótti þær í bæinn.
Þessa stundina eru þær svo allar þrjár að elda ofan í mig kvöldmatinn og spjalla svolítið um helstu "afrek" dagsins, yfirfara innkaupapokana og telja upp úr þeim blússur og skó - og máta það helsta einu sinni enn. Afskaplega ánægðar með sig.
Ég læt fara lítið fyrir mér og horfi á handboltann í sjónvarpinu. En ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi...
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 20:27
Jólasveinninn er kominn
Jólasveinninn er kominn til Árósa. Hann kom siglandi á litlum báti frá Grænlandi og kom að landi klukkan 18:00 í kvöld. Síðan fór hann í mikilli skrúðgöngu um miðbæinn, meðal "göngufólks" voru álfar og tröll, lúðrasveitir, James Bond, slökkvibílar, lögregla og geit í bandi. Allt var það frekar skrautlegt, en ekki fannst mér það allt jólalegt. Kveikt var á hálfri milljón jólaljósa í göngugötunni og til að kóróna herlegheitin var flugeldasýning við dómkirkjuna af stærðargráðu sem íslenskar hjálparsveitir hefðu verið fullsæmdar af. Allar búðir eru svo opnar til klukkan 24:00 í kvöld.
Það er afskaplega gaman að upplifa svona aðra siði en heima. Þetta er svona eins og slegið hafi saman fyrsta sunnudegi í aðventu, þorláksmessu og gamlárskvöldi.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2006 | 16:19
Berlín
Ég er alls ekki hættur að skrifa fréttir á þessa bloggsíðu. Okkur hjónum var hins vegar boðið að slást í för með nemendum og kennurum menntaskólans í Randers í fjögurra daga námsferð til Berlínar og ég hef því ekki komist í fréttaskrifin.
Þetta var hreint ótrúleg ferð, stíf dagskrá í rúma þrjá daga. Allt of langt að telja allt upp, en eftir situr í sálinni hörmungasaga þjóðarinnar, og mest af öllu sló okkur að fara með frábærum leiðsögumanni um Stasi fangelsið í Austurhlutanum. Þetta er svo ótrúlega nærri manni í tíma, og svo veit maður að þetta er enn að gerast í kringum mann.
Þá var einnig óborganlegt að ganga um Kreuzberg með tyrkneskættuðum, islamstrúar leiðsögumanni og fá m.a. að koma inn eina af moskunum þeirra. Þar sátum við lengi á gólfi og fengum allt aðra mynd af trúnni en þá sem vestrænir fjölmiðlar draga upp.
Ég gæti auðvitað haldið áfram, Wannsee, Cecilienhof, Sachenhausen...Súkkulaðibúðin, þinghúsið, sjónvarpsturninn, KaDeWe...
Í söknuði okkar eftir leikhúsferðum á Akureyri brugðum við okkur svo í Berlínaróperuna (því miður í nýja húsið í vesturhlutanum, ekki gamla óperuhúsið við Unter den Linden) og sáum þar uppfærslu á Töfraflautunni.
Borgin er engri annarri borg lík sem ég hef séð. Ég er ekki viss um að ég myndi segja að hún sé falleg borg, svona í heildina. En þvílíkar byggingar og þvílík saga.
Maður er svo töluvert slæptur í dag eftir erfiða ferð. Lagt var af stað frá Berlín klukkan 22:00 í gærkvöldi og komið heim um klukkan 06:00. Ég hélt svo að ég væri hættur að kippa mér upp við reykingar Dana, en þegar bílstjórinn okkar reykti jafnt og þétt undir stýri og svælan barst aftur eftir bílnum þar sem þreyttir nemendur og kennarar reyndu að sofa svolítið verð ég að viðurkenna að mér var nóg boðið. Og svo var nemendum harðbannað að reykja í rútunni þótt þau sætu í reyknum frá bílstjóranum!
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2006 | 13:38
Um danska tungu og hálsbólgu
Þar kom að því - ég er greinilega búinn að tala of mikla dönsku í bili og kominn með heiftarlega hálsbólgu.
Ég verð raunar að viðurkenna að ég er hálfsvekktur út í sjálfan mig hvað varðar tungumálið. Þetta háir mér svo sem ekkert, ég skil og les eins og mér sýnist, en mér finnst ég ekki ná nógu góðum tökum á framburðinum. Þar er ég raunar í góðum félagsskap Maríu krónprisessu, sem Danir skilja ekkert í að tali ekki orðið fullkomna dönsku og gerðu stöðugt grín að henni í blöðunum í haust. Það bjargaði henni að verða ólétt, en varla get ég vænst slíkrar reddingar.
En hér ekki við einfaldan hlut að eiga, eins og ég hef sagt áður getur danskan varla flokkast undir tungumál, miklu fremur skemmtilega gestaþraut. Þessi ótrúlegi ósiður að bera aldrei fram nema hluta af hverju orði er algjörlega óþolandi. Við búum t.d. í bæ sem heitir Egå (Eikará). Það er fyrst núna sem ég held að ég geti borið orðið þannig fram að það skiljist (langt iiiiiiiiii, sleppa g og hrækja svo örstuttu o í restina). Guð sé lof að ég bý ekki í næstu götu sem heiti Egenge (Eikarengi)!
Svo þegar ég reyni að sleppa hluta af orðum horfa Danir bara á mig og skilja ekki neitt, ég sleppi ekki úr með réttum hætti.
Svo eru tölurnar auðvitað kafli út af fyrir sig - og það viðurkenna margir Danir raunar. Þið megið þó segja Birni Vigfússyni að ég sé farinn að segja símanúmerið mitt alveg hikstalaust (en og tyve to og tres...). Mér var hinsvegar alveg lokið þegar ég hlustaði á fótboltalýsingu um daginn og einn leikmaðurinn átt eftir að skora tvö mörk til þess að ná því að hafa skorað 100 mörk fyrir félagið. Það tókst honum ekki í leiknum en þulurinn sagði undir lokin: "á sjötugustu og áttundu mínútu tókst honum þó að skora nítugasta og níunda mark sitt". Ég skora á menn að reyna að koma þessu út úr sér á dönsku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2006 | 21:24
"Hundur í óskilum"
Ég held áfram í tónlistinni - segið svo að ég hafi ekki tekið upp nýja lífshætti. Þið blátt áfram verðið að hlusta á lagið "Den Herreløse Hund".
Ég hef ekki getað "downloadað" laginu, en það má hlusta á það beint af netinu:
http://www.larslilholtband.dk/
og velja "Nyeste single" hægra megin á síðunni. Svo er alveg þess virði að velja tengilinn "Texter og noder" á síðunni og líta á textana, t.d. um Fedtmule og Mikka mús.
Það væri svo gaman ef einhver gæti svo bent okkar "Hundi í óskilum" á þennan tengil!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2006 | 14:21
Lögreglumál og Gúmmí Tarzan
Ég ætla að reyna að halda áfram að skrifa fréttir þótt Gunna sé komin! Því er þó ekki að neita að ég sit heldur minna við tölvuna þessa dagana. Hef verið að sýna henni helstu verslunarmiðstöðvar og menningarsetur. Þegar ég var búinn í skólanum í dag fórum við í stutta haustlitaferð til Skandeborgar. Fórum þar aðeins í bókabúð og komumst að því stolt þess bæjar er hinn merki rithöfundur Ole Lund Kirkegaard.
Annars má ég þakka fyrir að ganga laus hér í bænum. Var á leið út í sjoppu í svartamyrkri og rigningu eitt kvöldið þegar lögreglubíl var skyndilega ekið í veg fyrir mig og lögreglumótorhjóli lagt fyrir aftan. Að mér snaraðist vörpulegur lögregluþjónn og mælti hratt á danska tungu. Mér brá svo að ég missti um stund fullkomlega málið (altso dönskuna). Loks skyldi ég þó að það hafði verið brotist inn i sparisjóðinn í næstu götu og sjónarvottar sáu mann hlaupa á brott í svartri hettupeysu með áberandi hvítum röndum á ermunum. Passaði lýsingin nákvæmlega við Nikepeysuna sem ég keypti nýverið á útsölu og hafði snarað mér í þegar ég fóru út úr dyrunum.
Ég fékk þó málið aftur og gat gert grein fyrir mér. Lögregluþjónninn viðurkenndi raunar að það væri afskaplega ólíklegt þjófurinn byggi í næstu götu við bankann og kæmi akandi rólega í áttina að honum skömmu eftir innbrotið. Enn hafa engir þjófar fundist og ég því einn grunaður!
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2006 | 09:53
Jólin eru að koma - eða hvað?
Enn koma hlutirnir eins og þrumur úr heiðskíru lofti. Í gærkvöldi, nánar tiltekið klukkan 20:59 kynntu brugghúsin jólabjórinn. Við hjónin fórum í bæinn og fannst svolítið sérstakt að upplifa dúndrandi jólatónlist inni á öllum veitingahúsum. Alls staðar fullt af glöðu fólki með jólabjórinn í hönd, virtist sem hinn sanni jólaandi væri kominn í bæinn. Gervisnjór, grýlukerti og jólasnjór.
Á biskupstorginu við dómkirkjuveggin var búið að setja upp gríðarlega kynningu á skíðasvæðinu í Sölden, m.a. stóra skíðabrekku með raunverulegum snjó. Skondið að sjá allar auglýsingarnar frá Sölden í brekkunni!
Svo er einhver fýlutónn í blöðunum í morgun yfir ótímabærum jólalögum og jólasveinum...
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar