Færsluflokkur: Bloggar

Gamlárskvöld og góður bjór

086Einhver sagði mér að góður bjór byggðist á góðu vatni. Það má vel vera rétt og ég er einnig viss um að mikill bjór byggist á miklu vatni. Í Danmörku er bjórinn bæði mikill og góður. Raunar þykir mér vatnið ekkert sérlega gott, en það er svo sannarlega nóg af því. Eftir nær samfellda rigningatíð í nóvember og fram undir jól gerði ágætis veður um jólin. En í gærkvöld (gamlárskvöld) hrökk allt í sama farið og gerði úrhellisrigningu um miðnættið. Í nótt og dag er sannkallað slagviðri og allt á floti í vatni.

Við áttum annars mjög ánægjulegt gamlárskvöld. Bjarni og Helgi héldu í partí og fögnuðu áramótunum með heimamönnum, en við gömlu sátum og spiluðum og biðum miðnættis. Flugeldar höfðu verið á lofti allt síðan skyggja tók síðdegis, en um kvöldmatarleytið dró af skothríðinni. Undir miðnættið var orðið mjög rólegt og klukkan 12 á miðnætti ríkti algjör kyrrð. Við urðum að vonum undrandi og þegar klukkan var farin að ganga í eitt vorum við farin að halda að svona væri þetta bara! En þá skyndilega flykktist fólk út á götur sprengjuregnið hófst - ekkert síðra en heima á Íslandi. Í mígandi rigningu var kveikt í hverri bombunni á fætur annarri.

Þarna í myrkrinu og rigningunni rákumst við á nágranna okkar og þegar sprenguregninu linnti opnuðum við hús okkar og buðum þeim upp síðustu laufabrauðskökurnar sem við höfðum fengið að heiman.

Einstaklega skemmtilegat og eftirminnilegt kvöld.

Smá heimþrá? Eða eitthvað svoleiðis í örstutta stund.

085Anton og fjölskylda fóru heim í dag. Afi og amma skutluðu þeim til Kastrup og kvöddu þau þar eftir frábæra viku hér í Danmörku. Þegar þau hurfu læddist augnablik að mér sú tilfinning að það hefði nú bara verið best að fara með þeim heim, svolítið erfitt að hitta ekki afastrákinn aftur fyrr en í júni.

En þessi tilfinning hvarf hratt og örugglega aftur, tíminn líður hratt og fyrr en varir verður kominn júní.

Við ókum svo niður í miðbæ Kaupmannahafnar þar sem við höfðum mælt okkur mót við Sverri Pál. Fórum með honum út að borða og spurðum frétta úr MA. Sagði hann okkur að þar gengi allt vel og létti mér við það (!). Gengum aðeins um Strikið og enduðum á skylduheimsókn á Hvít áður en við héldum heim til Árósa.


Öðruvísi jól

084Fleskisteikin tókst hreint frábærlega, þótt unglingarnir hafi nú tekið íslenskt hangikjöt fram yfir hana. Þeir tóku því heldur ekkert sérlega fagnandi þegar ég lýsti því yfir að framvegis yrði slík steik á borðum í stað hamborgarahryggsins á jólum.

Fórum svo í fjölskylduferð í "Randers Regnskóg" á annan í jólum og borðuðum síðbúinn hádegisverð á eftir á MacDonalds í Randers - svolítið öðruvísi en við erum vön heima á Íslandi, en ferðin regnskóginn verður þó að duga í staðinn fyrir jólaboð í Suðurbyggðina.

Ekki reyndust allir jafnmiklar hetjur þegar að því kom að ganga um skóginn með stórar slöngur í trjánum umhverfis stíginn. Lítið myndband af einum fjölskyldumeðlim fylgir þessu bloggi!

Annars er bara rosalega gaman að leika sér með afastráknum - gönguferðir, fjöruferðir, róló og bíltúrar. Þeir sem ekki hafa komið sér upp afa/ömmu börnum ættu að drífa í því hið fyrsta!


Gleðileg jól - með duglegum aðstoðarmanni

083Við sendum auðvitað okkar bestu jólakveðjur til allra sem lesa þetta fréttablogg okkar í Árósum. Héðan er svo sem ekkert sérstakt að frétta, við höldum jólin hátíðleg með blöndu af dönskum og íslenskum siðum og matarhefðum. Slátrarinn í hverfinu hefur verið einstaklega liðlegur við að leiðbeina okkur um eldamennskuna til þess að gefa henni danskt yfirbragð. Í kvöld á að láta virkilega reyna á þær leiðbeiningar með danskri fleskisteik. Til öryggis verður líka á borðum íslenskt hangikjöt sem Helgi dröslaði með sér hingað út.

Aðfangadagskvöldið gekk létt og örugglega fyrir sig. Pakkar fleiri en venjulega, enda öll stórfjölkyldan samankomin. Og svo er langt síðan við höfum haft tveggja ára aðstoðarmann sem dreif pakkana í hendur manna og hjálpaði svo hverjum og einum við að rífa þá upp - í orðsins fyllstu merkingu. Anton dró raunar hvergi af sé í gær og sá um að skreyta jólatréð með afa og ömmu, nokkuð sem unglingarnir eru löngu hættir að nenna!

Úttekt á jólaskreytingum

082Um svipað leyti og illviðri tóku að herja heima á Íslandi breyttist tíðarfar til hins betra hér á Jótlandi. Það hætti að rigna og nú er búið að vera nokkuð bjart í lofti í nokkra daga. Hitinn á daginn oftast milli 5 og 8 gráður. Danir gráta hástöfum yfir því að fá ekki hvít jól, en möguleiki á slíku hefur nú alfarið verið afskráður.

Við fórum út að ganga í veðurbíðunni síðdegis og gengum um hverfið sem við búum í. Undarlegt að ganga á grænu grasinu, hlusta á fulgana og sjá köngulær spinna vefi daginn fyrir Þorlák.

Svo gerðum við auðvitað úttekt á jólaskrauti Dana. Eftir um klukkustundargöngu eru niðurstöður þessar helstar:

- Það eru himinn og haf milli skreytinga hér og heima á Íslandi

- Við um þriðjung húsa er hreint engar skreytingar að sjá, hvorki utan húss né í gluggum

- Við um helming húsa eru ljósaskreytingar utan á húsinu eða á trjám og runnum

- Allvíða eru skreytingar í gluggum og víða eru fullskreytt jólatré í stofum

- Þar sem stofur og jólatré hafa verið skreytt eru helst engar gardínur í gluggum

- Í öllu hverfinu fundum við tvær ljósaseríur með mislitum perum, annars öll ljós hvít

- Önnur mislita serían blikkaði, annars voru öll ljós til friðs

- Víða hafa karlarnir verið sendir út með seríurnar og ekki vandað sig við að festa þær á trén

Myndin er af húsinu okkar


Verkefnaskil - á síðustu stundu

081Skilaði af mér tölvuverkefni seint í gærkvöldi. Skil betur og betur nemendur sem ekki ná að skila á réttum tíma. Myndin gæti sem best hafa verið tekin af mér undir miðnættið.


Loks er frost á Fróni, Jótlandi og Fjóni

080Loksins er hætt að rigna, a.m.k. í bili. Heiðskírt og fallegt í morgun og hörkuvinna að skafa af bílrúðunum. Saltbílar vegagerðarinnar kunna sér ekki læti og fremur en kýr að vorlagi, greinilega búnir að bíða stundarinnar vikum saman.

Annars var þetta mikil menningarhelgi, einkum laugardagurinn. Við ókum út í sveit og rákumst þar á jólamarkað í gamalli myllu. Er nokkuð betra en sitja með jólaglögg og "Æbleskiver" og spjalla við bændur? Enn sem fyrr hjálpaði það mér nú nokkuð að vera alinn upp í sveit.

Við ákváðum svo að rýma húsið síðdegis og um kvöldið til þess að lofa unglingunum að hafa þar sína hentisemi. Fórum því í bæinn og byrjuðum á að skoða listasafnið. Borðuðum svo á grískum veitingastað áður en við fórum i hið stórfallega tónlistarhús Árósa til þess að sjá enska listamenn sýna "My Fair Lady". Óhemjuflott sýning og gaman að heyra verkið flutt á frummálinu, því það snýst nú einu sinni um blæbrigði enskrar tungu. Söknuðum þess ekkert að sjá ekki ónefnda leikara Leikfélags Akureyrar í aðalhlutverkum.

Strákarnir höfðu það gott heima á meðan og lentu svo í röngu partíi, en það er annað mál...


Eðlisfræði Fréttablaðsins (Nyhedsavisen)

079Við fáum daglega dönsku útgáfuna af Fréttablaðinu. Að mínu mati hið besta blað, hæfilega stórt til fletta við morgunverðarborðið og fá yfirsýn yfir það helst í heimsmálunum og danskri pólitík og íþróttum.

Það plagar mig þó stundum hve mikið er af villum í blaðinu af öllu tagi, stundum finnst mér ég vera að lesa ritgerð eftir slakan nemanda og langar að gera harðorðar athugasemdir.

Svo leynast skemmtilega villur innan um - þennan myndatexta má ég til með að senda ykkur, sér í lagi hópnum sem er að fara til Finnlands í vor! Svo væri gaman ef einhver myndi nú biðja Brynjólf að útskýra eðlisfræðina í finnskum stöðuvötnum.


Bakkabræður og bjórkaup

078Loksins eru þeir komnir - Árni Brjánn og Maggi. Bjarni er búinn að hlakka mikið til og lagði á sig að fara til Kaupmannahafnar með lestinni í gær að taka á móti þeim og fylgja þeim heim til Árósa.

Þeir félagar hafa beðið með mikill óþreyju eftir að koma hingað og mesta tilhlökkunin virðist mér hafa verið sú að geta bara labbað út í búð og keypt sér bjór! Fyrst var planið að kaupa kassa, en nú hafa þér séð að það er miklu skemmtilegar að fara fleiri ferðir og kaupa minna í einu!

Ég fór fram á að fá að vera úti í búð með myndavél og taka myndir af þeim við kassann. Þetta var ekki tekið í mál af einhverjum ástæðum, svo að mynd af þeim að koma hér í hús verður að nægja.


Ekki er sopið kálið...

077Danir kvarta mjög yfir veðrinu þessa dagana, hitinn það sem af er desember um 5 gráðum yfir meðallagi. Veðurfræðingar fá engan frið fyrir fjölmiðlafólki sem vill fá þá til að spá hvítum jólum. En von um slíkt fer nú mjög dvínandi. Ekki kvarta ég yfir hitanum, en rigningin er farin að fara dálítið í taugarnar á mér.

Í gær stytti loks upp og þá drifu nágrannar mínir sig út á akurinn þar sem þeir eiga enn marga hektara af hvítkáli og rauðkáli óupptekna. Það hefur löngum verið hefð á mínu heimili að hafa áhyggjur af að allt rauðkál seldist upp á Akureyri áður við næðum að kaupa til jólanna. Að þessu sinni erum við laus við allar áhyggjur, það eru nokkur tonn af káli handan við veginn og næturmyrkrið er svart...

Myndin er tekin út um eldhúsgluggann hjá okkur um hádegi í gær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Árósar

Tónlistarspilari

Bamses Venner - Klip i mit kørekort

Höfundur

Jónas Helgason
Jónas Helgason
Myndir og pistlar frá Árósum
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 098
  • 094
  • 090
  • 087
  • 086

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband