Færsluflokkur: Bloggar
24.1.2007 | 18:49
Þetta er ekki auðvelt - trúið mér!
Hér snýst allt um HM í handbolta þess dagana. En það gengur hálfbrösótt að fylgjast með leikjunum. TV2 er með einkarétt á sjónvarpsútsendingum á keppnini hér í Danmörku. Þeir voru með stór orð og auglýstu mjög að þeir myndu sýna alla leiki Íslands og Grænlands á netinu, svo og fjölda annarra leikja. Við keyptum því aðgang að rásinni þeirra en það er skemmst frá því að segja að þeir hafa gjörsamlega brugðist, náðu að sýna einn leik með Íslandi og hálfan með Grænlandi og einhver brot úr öðrum leikjum. Nú eru þeir alveg hættir og búnir að gefast upp á beinum útsendingum á netinu.
Svo var það auglýst á mbl.is og ruv.is að Íslendingar erlendis gætu séð leikina á vef IHF. Við keyptum aðgang að því, en þá kom einfaldlega á skjáinn að ekki mæti senda út til Danmerkur vegna einkaleyfis TV2!
Þá var bara að sætta sig við að hlusta á Rás 2 um netið. Það gekk raunar mjög vel með leikinn við Frakka, en í dag náðist ekki nema annað hvert orð og heimilið alveg að farast á taugum þegar spenna hljóp í leikinn. Þrautalendingin - jú hringja til Íslands og fá íþróttaáhugamanninn Árna Hrólf til að kveikja á SKYPE og setja útvarpstæki við hljóðnemann. Þá loksins gátum við fylgst með.
Svo eigum við auðvitað miða á leikina í Halle um helgina. Sjáum fjóra leiki, þar af Ísland - Slóveníu. Þjóðverjar hrærðu í skipulagi milliriðlanna fram á síðustu stundu, en seldu alla miða á ákveðna daga í ákveðnar hallir. Því standa nú fylgismenn liða hist og her með miða á ranga leiki. Við eigum t.d. ekki miða á leik Íslands og Þýskalands í Dortmund á sunnudaginn frekar en aðrir. Uppselt er í höllina, nær eingöngu heimamönnum.
En ég hef ekki alveg gefið upp alla von um að ná að bítta á miðunum okkar í Halle fyrir miða í Dortmund. Ég er búinn að skrá mig á miðaskiptimarkaði á netinu en ekkert gengur. Ég fór því í dag og skrifaði póst á allar addressur sem ég fann hjá franska handknattleikssambandinu - gott að vera af málabraut. Og fyrst ég var byrjaður sendi ég líka póst á pólsku og slóvensku samböndin í von um einhver þar hefði slysast til að kaupa miða í Dortmund.
Ég hef alltaf sagt að það komi sér vel að vera af málabraut og kunna landafræði...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2007 | 15:50
Snjóþotur og vandræði
Það leynir sér ekki er farið er út að ganga í dag að það eru til snjóþotur á hverju heimili hér í bæ - og greinilega búið að bíða lengi eftir að geta notað þær. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að leiksvæði eru víða undir vatni eftir úrfellið um helgina.
Við komum að þessari litlu stelpu sem hafði rennt sér full hratt og langt og hafnað út í miðjum stórum polli þar sem ísinn brast undan henni. Þar sat hún snöktandi á nýju þotunni sinni. Ég gat ekki stillt mig um að taka nokkrar myndir, þótt Gunnu og foreldrum stelpunnar sem voru nokkurn spöl í burtu, finndist að ég hefði nú frekar átt að hefja björgunaraðgerðir.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2007 | 08:20
Skjótt skipast veður í lofti
Hér er handboltagleðin ríkjandi eins og víðar. Eftir allt saman munum við sjá a.m.k. einn leik með Íslandi í Gerry Weber höllinni stóru í Halle um næstu helgi - vonandi tvo leiki.
Annars er hér kominn vetur, allt hvítt og frostið fór niður í 8 gráður í nótt. Hér hefur ekki sést snjókorn síðan 1. nóvember þegar hér snjóaði einn dag.
Svolítið sérstakt, það snjóaði aðeins í nóvember - og þá koma Gunna. Svo snjóar aðeins í janúar og þá nær landsliðið þessum líka leiknum. Af mörgum góðum stundum í Árósum væntanlega þær eftirminnilegustu. Megi ofan gefa snjó á snjó!
Myndin er af okkur hjónum, þið sjáið hvað við erum orðin slank og pæn!
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2007 | 20:48
Táraflóð og önnur flóð
Hér gráta menn frammistöðu landsliða Íslands og Danmerkur á HM í handbolta. Bæði liðin eru komin upp að vegg og verða að vinna leikina á morgun. Og við sem vorum svo viss um að Ísland kæmist í milliriðla að við keyptum miða á leikina um næstu helgi og gistingu í Þýskalandi - við förum auðvitað og horfum á handbolta í heimsklassa, en því miður ekki með réttu liðunum!
Hér stytti upp í dag eftir rigningar síðustu daga. Allir fréttatímar eru undirlagðir af flóðamyndum, vegir lokaðir, jafnvel hér í úthverfum Árósa. Miðbærinn í Vejle lokaður, Silkeborg á floti og svo mætti áfram telja.
Þegar stytti upp ákváðum við að skreppa vestur í land. Komum fyrst við í Silkeborg og litum á flóðin þar. Þar náði vatnshæð sögulegu hámarki í gær, en var aðeins farið að sjatna í dag. Við skoðuðum síðan bæina Ikast og Herning okkur til ánægju. Gaman að koma þangað, þótt þeir þyki ekki með falelgustu bæjum landsins. Í Herning er stórskemmtilegt listasafn í gömlum verksmiðjuhúsum sem við skoðuðum um stund áður en við héldum aftur heim.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.1.2007 | 13:23
Hæsta einkunn á prófi...
Ég hafði aldrei hugsað mér að taka háskólanámið mjög alvarlega, fremur njóta þess að sækja áhugaverða fyrirlestra án þess að stefna að prófum. En svo kemur kappið upp í manni og maður vill sýna hvað maður getur. Ég skráði mig því í próf í "Multimedia Programming" (Flash og PHP fyrir þá sem vita hvað það er). Munnlegt próf, dregið eitt af sex efnum, hálftíma undirbúningur og svo hálftíma yfirheyrsla.
Ég átti að mæta í hádeginu, en náði ekki að festa hugann við neitt í morgun, svo ég var mættur fullsnemma á staðinn. Þá hafði auðvitað öllu seinkað um hálftíma og nemendur gengu um gólf, nagandi neglur og komu svo út úr prófinu kófsveittir. Nú upplifði ég prófstress á eigin skinni í fyrsta sinn á æfinni. Var farinn að nötra og skjálfa þegar ég kastaði teningi upp á hvaða efni ég ætti að tala um - og upp kom efni sem ég kann nákvæmlega ekkert í - "Scripting í Flash". Ég nota nefnilega önnur forrit og aðrar aðferðir við mína tölvuvinnu.
Ég beit þó á jaxlinn og fór inn og talaði mikið og lengi. Rökstuddi hvað Flash væri ömurlegt og Scripting í Flash löng úrelt fyrirbæri. Sýndi svo mínar aðferðir og beitti öllum mínum "sölumannshæfileikum". Svo fóru leikar að ég var lengur inni en til stóð við að svala forvitni kennaranna. Þeir voru svo óratíma að gera upp hug sinn á eftir en niðurstaðan var:
"Hæsta einkunn sem hægt er að gefa án þess að nemandi tali um efnið sem lagt var fyrir."
Ég náði sem sagt prófinu með sóma, með hærri einkunn en krakkaræflarnir í kringum mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.1.2007 | 13:02
Námsheimilið mikla
Nú erum við öll komin í skóla! Bjarni auðvitað í sínum menntaskóla þar sem honum gengur betur og betur, enda er flækist danskan ekki eins fyrir honum og framan af hausti. Engin próf eru í skólanum fyrr en í vor en þeim mun meira af alls konar heimaverkefnum og hópverkefnum. Svo eru frívikur framundan, vika í vetrarfrí í febrúar, viku námsferð til Brussel í mars og svo páskafríið í apríl.
Sjálfur er ég að læra undir próf í fyrsta sinn í 25 ár. Ætla sem sagt í munnlegt próf í Flash og PHP á fimmtudaginn og sit hér bölva Flashinu í sand og ösku og hlakka mest til að rakka það niður í prófinu.
Og svo var Gunna að koma heim úr málaskólanum eftir fyrsta skóladaginn, settist brosandi niður með orðabók og málfræði og tók blýantinn upp úr nýja pennaveskinu (og harðbannaði mér að taka myndir eða skrifa orð á bloggið).
Bjarni gekk hér um í gær og horfði stíft á föður sinn og sagði með þunga: "Hvernig er það faðir, átt þú ekki að vera að læra undir próf". Ég reikna með að í kvöld muni hann horfa á móður sína og segja: "Hvernig er það móðir, er aldrei neitt að læra heima í þessum skóla". Svona kemur uppeldið í bakið á manni þegar maður á sér einskis ills von!
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.1.2007 | 22:15
Handboltinn gengur upp og ofan
Lífið hérna snýst að hluta til um handboltann hjá Bjarna og Skovbakken. Það hefur fyrr komið fram hjá mér að hjá liðinu hans hefur flest gengið á afturfótunum. Var svo komið um áramót að áhuginn hjá strákunum var orðinn í lágmarki og lítil gleði í leikjunum, enda að litlu að stefna. Fyrir viku var tekin sú stóra ákvörðun að leggja flokkinn hans niður og færa strákana alla upp í meistaraflokk. Þar er haldið úti þremur liðum og var leikmannahópurinn þar orðinn heldur lítill.
Er skemmst af því að segja að þetta hefur gjörsamlega endurlífgað strákana, æfingar aftur skemmtilegar og krefjandi og þeir berjast fyrir stöðum í meistaraflokksliði númer 2, varla von að neinn þeirra muni spila með fyrsta liði. Verða þó líka að sætta sig við að spila stundum með þriðja liði meistaraflokks. Þeir styrkja hins vegar bæði liðin verulega og nú tapast varla leikur hjá félaginu.
Bjarni lenti í þó í því í dag að verða að spila með þriðja liði - og var ekki sáttur við það! Hann og annar strákur úr unglingaliðinu báru þó spilið uppi og skoruðu helming markanna. Liðið er samansett af nokkrum unglingum og svo "eldgömlum" handboltamönnum sem eru í þessu sér til gamans. Þótti Bjarna sumir úthaldslitlir og hægir yfirferðar. Lýsti því yfir í leikslok að gamlingjarnir í FIMMA (íþróttaliði kennara í MA) myndu valta yfir þetta lið, jafnvel þótt æfðu bara körfubolta!
Frammistaða Bjarna í leiknum verður vonandi til þess að hann fái að spila með liði 2 um næstu helgi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2007 | 14:01
Vatnsveituframkvæmdir
Mér dettur ekki hug að kvarta frekar yfir veðrinu. Danir segja einfaldlega að það muni stytta upp með vorinu - og þetta segja þeir nákvæmlega í sama tón og við segjum að það muni stytta upp með kvöldinu.
Vatnssullið hefur svo sem líka sínar skoplegu hliðar. Við hjónin vorum einu sinni sem oftar í smá gönguferð, að þessu sinni um stórt íbúðahverfi sem allt var skipulagt og byggt upp á 8. áratugnum. Stórt svæði í miðju hverfinu, þar var leikskólinn, skólinn, kirkjan og aðrar nauðsynlegar stofnanir. Göngustígar vandlega skipulagðir um allt hverfið og arkitektahannaðir hólar á leiksvæðum barnanna. Kirkjan "sjarmerandi ljótur" steinsteypukumbaldi og jafnvel steinsteyptar girðingar utan um sólpallana, sem sumir voru norðan við húsin af því það hentaði væntanlega betur á teikningunum.
En ekki hafa arkitektarnir séð við öllu. Niður göngustíginn ofan við skólann rennur nú rigningarvatnið í litlum læk. Í þessu sáu börnin að sjálfsögðu tækifæri og voru búin að grafa skurð og hleypa vatninu inn á leiksvæðið. Þar stóðu þau, drullug upp fyrir haus í frímínútunum og skemmtu sér konunglega. Eitthvað hafa skólayfirvöld og kennarar haft við útganginn á þeim að athuga, því búið var að kalla út sjálfboðaliða úr foreldrafélaginu sem hömuðust hinum megin á svæðinu við að ræsa fram og koma vatninu í burtu. Vatnsdýpi undir rólunum nam t.d. tugum sentímetra og var unnið hörðum höndum að því að laga þetta. Ekki var reynt að stífla skurð barnanna, enda væntanlega til lítis, hann yrði bara endurgrafinn í næstu frímínútum!
Það er ég viss um að þarna á lóðinni hafa einhver barnanna verið að leggja grunninn að verkfræðinámi sínu í framtíðinni.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2007 | 15:56
Að skrifa á "Gammeldansk"
Gunna er orðin heimavinnandi húsmóðir, sumarfríinu lokið og alvaran tekin við. Til þess að nýta nú tímann þar til vorar hyggst hún drífa sig í dönskunám fyrir útlendinga. Hún var í dag boðuð í "viðtal" til námsráðgjafa, sem reyndist þegar til kom vera þriggja tíma inntökumat. Hún þurfti sem sé að lesa, skrifa og tala dönsku í viðurvist kennara sem fóru jafnharðan yfir verkefnin. Þegar hún kom á staðinn var fyrsta hugsunin að til þess að falla í hóp skólasystra sinna yrði hún að drífa sig í búðina "Stof og stil" og kaupa efni í fallega slæðu! En svo kom nú í ljós að slæða er ekki inntökuskilyrði.
Hún leysti svo fjölda verkefna af mikilli prýði, lestur og skrift vafðist lengi vel lítt fyrir, en talað mál reyndist erfiðara. Lái ég henni það ekki af eigin reynslu. Svo fór að lokum að hún var metin "nær hálfdönskumælandi" og verður skipað í hóp með jafningjum sínum hvað það varðar.
Best þótti mér sú athugasemd eins kennarans að hún hefði heilmikinn orðaforða, en "hluti hans hefði betur átt við fyrir nokkur hundruð árum en í dag". (Gunna sér raunar hálfpartinn eftir að hafa sagt mér frá þessu!). Það má því kannski segja að hún tali "Gammeldansk".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.1.2007 | 10:02
Á þrettánda degi jóla
Þá eru jólin að baki og jólasveinarnir farnir heim, okkar síðasti fór raunar í gær. Helgi átti með öðrum orðum flug heim frá Köben í gærkvöldi, en til þess að gera nú meira úr deginum var ákveðið að koma við í Hróarskeldu, skilja Bjarna þar eftir svo hann gæti horft þar á tvo landsleiki í handbolta. Ætlaði hann að læra þar af íslenskum og dönskum hetjum hvernig spila skuli góðan handbolta. Þetta er fjögurra liða mót og þannig upp sett að reiknað er með að Danmörk og Ísland spili hreinan úrslitaleik í lokin. En ekki fór allt eftir bókinni í gær, bæði liðin skíttöpuðu, Ísland fyrir Noregi og Danmörk fyrir Póllandi.
En við lögðum sem sagt af stað um hádegi og bauðst Helgi til að keyra og Bjarni yrði til aðstoðar við að rata. Gamla settið var haft í aftursætinu og sagt að hafa hægt um sig. Það varð svo fljótlega ljóst þegar komið var á hraðbrautina að hugmyndir um ökuhraða og rötun voru ekki samstíga milli framsæta og aftursæta. Er nokkuð ljóst að ef öldungarnir hefðu ekki stjórnað úr aftursætinu værum við nú að koma til Ítalíu á 160 km hraða!
En allt gekk slysalaust, Bjarni varð eftir í Hróarskeldu, við skruppum til Kastrup og komum svo aftur til Hróarskeldu og stefndum á miðbæinn til að fá okkur að borða á meðan handboltinn kláraðist. Auðvitað var svartamyrkur og rigning svo ekki sá út úr augum. Við áttuðum okkur þó á því hvar við vorum þegar ég keyrði nánast á dómkirkjuvegginn. Brá Gunnu svolítið við það.
Heim komum við svo undir miðnættið eftir enn einn stórskemmtilegan dag hér í Danmörku.
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar