Færsluflokkur: Bloggar
11.7.2007 | 14:52
Kveðjublogg
Er hægt að hugsa sér betri daga? Vakna að morgni að Aski á Askey og aka til Björgvinjar. Sigla út milli norsku eyjanna og koma að kvöldi á Péttlandsfjörð. Horfa í rökkrinu til Rögnvaldseyjar á Orkneyjum og koma svo landi á Skarabólstað á Katanesi. Leggja sig um stund og sofa væntanlega af sér Gamla manninn við Háey. Vakna svo með Færeyjar framundan. Mér finnst ég nánast hafa dottið inn í Orkneyingasögu einu sinni enn. Þeir sem hafa ferðast um þessar slóðir skilja örugglega hvernig mér líður.
Það verður stutt stopp í Þórshöfn eftir hádegið. Við ætlum þó að skjótast til Þóru og næla okkur í kaffibolla áður en haldið verður í lokaáfangann heim til Íslands. Þar með lýkur þessari ferð - og þessari dagbók minni.
Þegar ég var að undirbúa þetta orlofsár mitt hélt ég að það yrði skrítið að flytja til annars lands og setjast þar að. Það reyndist alls ekki svo, en þeim mun undarlegri er tilfinningin núna á heimleiðinni. Að þetta sé nú allt að baki og e.t.v aldrei tækifæri til að endurtaka leikinn, þó ekki væri nema að hluta til, er nánast óbærileg tilfinning. Þar sem ég sit hér og hugsa til baka er ég að verða eins grenjuskjóðan Friðrik, verðandi konungur Dana, mér vöknar hreinlega um augu. En það koma tímar og koma ráð - og það verður gaman að koma heim á morgun.
Ég verð að lokum að þakka kærlega öllum sem hafa lesið þetta blogg. Ég efast um að ég hefði nennt að halda þessu úti ef ég hefði fundið að töluverður hópur fólks hafði gaman af. Það var líka alltaf jafngaman að fá viðbrögð við skrifunum og finna að mönnum var ekki alveg sama um mig og mína.
Að lokum skora ég á alla þá sem vettlingi geta valdið að vinna að því að sem flestir, kennarar og aðrir, eigi kost á svona orlofsári oftar en einu sinni á starfsferlinum. Ekki bara "kannski" seint og um síðir. Ég ætla ekki að segja að þetta skili mér heim sem alveg nýjum manni, en ótrúlega hefur þetta hresst upp á sálartetrið og væntanlega endurnýjað starfsgleðina. Þurfa ekki margir vinnustaðir á slíku að halda?
Takk fyrir okkur
Jónas, Gunna og Bjarni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.7.2007 | 20:11
Blautur dagur í Bergen
Bergen stóð svo sannarlega undir nafni sem blautasta borg í Evrópu í dag. Við reyndum að skoða okkur um í borginni, en hrökkluðumst alltaf jafnharðan inn á veitingahús eða í verslanir undan vatnsveðrinu.
Innanhúss fengum við svo létt sjokk - verðlagið í þessum mikla ferðamannabæ er út úr öllu korti. Kannski bara gott að taka það út hér en ekki þegar heim er komið. Að kaupa sér hvítvínstár og lítinn bjór á um 1.300 íslenskar krónur er nú ekki í lagi!
En við reyndum að gera gott úr þessu öllu saman, maður á nú ekki brúðkaupsafmæli nema einu sinni á ári.
Núna undir kvöldið er að mestu stytt upp og við búin að troða í bílinn, sumt blautt, annað þurrt, allt í einum graut. Guð forði tollvörðum á Seyðisfirði frá því að fara að gramsa í dótinu okkar!
Leggjum svo í hann snemma í fyrramálið með Norrænu til Færeyja og Íslands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.7.2007 | 20:30
Á heimleið
Ókum í morgun sem leið liggur norður til Stavanger. Mjög falleg leið ef marka má fjölda útskota, greinilega ætluð til að stoppa og taka myndir. Við sáum hins vegar lítið annað en þoku og rigningu einn daginn enn. Raunar hékk næstum því þurrt meðan við gengum um miðbæinn í Stavanger um hádegið, en annars hefur ekki verið hundi út sigandi í dag.
Frá Stavager héldum við áfram norður um ótrúleg vegamannvirki Norðmanna, ótal jarðgöng, brýr og ferjur.
Stoppuðum á eynni Stord og fundum þar skyndibitastað. Þar pantaði ég einu pizzuna sem til var, en sumarstarfsmaðurinn gleymdi henni í ofninum og hún eyðilagðist. Ég fékk lítinn hamborgara í sárabætur.
Komum til Bergen undir kvöldið og áttum pantaða gistingu í "Bed and Breakfast" úti á Askøy. Það runnu á okkur tvær grímur þegar við vorum farin að keyra malborinn kerrustíg eftir einstigi utan í klettunum á eynni. En þetta reyndist rétta leiðin og við fundum húsið að lokum. Húsfreyjan leigir þar út tvö herbergi og er aðstaðan hin huggulegasta.
Annars finnur Gunna Noregi flest til foráttu þessa stundina. Veðrið er verra en í Danmörku, vegirnir ömurlega illa merktir (ég tek raunar undir það) og verðlagið er næstum eins og á Íslandi. Það gekk þó fyrst alveg fram af henni að ganga um miðbæ Stavanger, m.a. framhjá lokuðum skóbúðum og ekki einn einasti skór verðmerktur í gluggunum. Þetta plagaði mig þó ekkert. Það var hins vegar gaman að finna þessar fallegu sauðkindur í miðbænum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 20:36
Komin til Noregs
Suður-Noregur tók á móti okkur með rigningu og þoku, svona rétt eins og Danmörk kvaddi. Samræmt, norrænt veðurfar. Við sáum þann kost vænstan að aka hiklaust í áttina að Stavanger og finna okkur gistingu einhvers staðar á leiðinni undir kvöldið.
Veðrið skánaði þegar kom vestar í landið, en svo var það eins og stundum fyrr að það gufuðu upp allir gististaðir þegar við ákváðum að fara nú að stoppa. Enduðum þó á stóru "vegahóteli" í bænum Moi og höfum það gott þar innan um hina þrjá gestina.
Ótrúleg viðbrigði að aka umlandslagið í Noregi eftir árið í Danmörku - en það er nú allt annað mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 20:30
Farvel Danmark
Byrjuðum daginn á að klára að þrífa og ganga frá. Húseigandinn mættur til að mála íbúðina fyrir næstu leigjendur. Það sýndi sig að við höfðum verið fullbjartsýn á það hvað koma mætti miklu dóti í bílinn. Þegar búið var að troða í hverja smugu urðum við að gera okkur að góðu að skilja þvottabalann eftir. Það sem verra er, við getum sennilega ekki keypt svo mikið sem snafsaglas í minjagripabúðum í Noregi.
Ókum svo norður til Hirtshals í vaxandi rigningu. Þar beið okkar að hafa uppi á tollvörðum, en við höfum leikið þann leik undanfarið að taka "TaxFree" kvittanir með öllu sem við höfum keypt, m.a. forláta þurrkara í þvottahúsið og tölvu á skrifstofuna. Mest af þessu dóti höfðum sett í gáminn fyrr í vikunni án þess að fá nokkurn stimpil þrátt fyrir eftirgangsmuni. Höfðum því ekki mikla trú á þetta gæti gengið í Hirtshals. Við fundum strax aðsetur tollgæslunnar í bráðabirgðaskúr úti í skógi, langt frá höfninni. Lítið var að gera og eini maðurinn á vakt var í góðu skapi. Var honum svo laus stimpilhöndin að hann stimplaði allt sem að honum var rétt, og var slétt sama hvort varningurinn væri með í för eður ei. Hefði glaður stimplað bensínnótur og matseðla hefðum við haft rænu á að rétta það yfir borðið.
Afgreiðslumenn við höfnina tóku á móti okkur í sjógöllum og vaðstígvélum og vísuðu okkur um borð í ferjuna þar sem við stitjum nú og etum og drekkum á kostnað danskra skattborgara, því ekki vafðist fyrir bankanum um borð að greiða út í reiðufé margstimplaðar nóturnar frá tollverðinum góða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.7.2007 | 20:26
Kveðjustund - en ekki kveðjublogg
Við kvöddum Árósa í dag, fullkomlega sátt við Guð og menn hér á Jótlandi. Fórum sem sagt niður í miðbæ síðdegis og gengum síðustu ferðina um göngugötuna, litum inn í HM og nokkrar skó- tölvu- og bókabúðir. Kvöddum fólk sem við höfum kynnst, keyptum stígvél á Gunnu (það er sú vara sem er í mestu úrvali í skóbúðunum þessa dagana).
Það er gríðarleg útihátíð í gangi á hafnarsvæðinu, samankomin yfir 100 seglskip af öllum stærðum og gerðum. Sölutjöld, tívolí og tónleikar. Fórum á útitónleika með dönskum Stuðmönnum "Danser med drenge". Kvöddum svo Jensens buffhús.
Snemma í fyrramálið höldum við svo af stað til Hirtshals og tökum ferju til Noregs. Ég vonast til að komast þar í netsamband, og svo jafnvel í Færeyjum. Þetta verður því ekki neitt lokablogg, en ég lofa að hætta þegar ég kem á Seyðisfjörð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2007 | 19:25
Síðustu gestirnir
Nú er stutt eftir, en lengi er þó von á einum eins og þar segir. Haraldur og Rósa mættu hér í bröns í morgun. Gaman að fá svona Danmerkuráhugafólk heimsókn. Spjölluðum lengi og fórum svo í bíltúr um hverfið.
Annars fór dagurinn í síðustu verslunarferðina í bæinn og svolítið af þrifum. Gáfum vinum okkar, Pólverjunum dálítið af húsgögnum og svo ónýtt sjónvarpstæki sem þeir eru vissir um að þeir geti gert við og notað.
Fórum svo í kvöld á hverfiskrána okkar við smábátahöfnina og borðuðum þar kvöldverð og kvöddum starfsliðið. Gengum heim, og þótt þetta sé aðeins 10 mínútna gangur urðum við holdvot, því nú rignir sem aldrei fyrr. Og svo les maður á bloggsíðum Akureyringa að þeir fagni rigningu dagsins!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 17:17
Borið í gám
Við lukum við að pakka í morgun og þegar það stytti upp í hádeginu bárum við allt dótið út á bílastæði í þeirri trú að ekki myndi rigna frekar í dag. Fengum Pólverjana af neðri hæðinni til að hjálpa okkur. Gámurinn kom klukkan 15:00 eins og um var samið. Þá voru líka komnir á staðinn íslendingar, Stefán og Oddný með dót fyrir vin sinn sem átti að fara með í gáminn.
Nú tók að þykkna í lofti, en með góðri hjálp Pólverjanna og Stefáns tókst þó að koma öllu þurru í gáminn, en skömmu síðan byrjaði enn að rigna eins og hellt væri úr fötu.
Nú er sitjum við tómri íbúðinni og eigum í raun bara eftir að þrífa og ganga frá. Eigum þó von á gestum á morgun.
Annars snúast fréttatímar hér núna um Hróarskelduhátíðina sem er að sökkva í vatn og drullu. M.a. er fjöldi bíla sokkinn í drullu á bílastæðunum og verður ekki haggað þaðan um sinn. Er Danni ekki annars að vinna sem bílastæðavörður á svæðinu? Það hlýtur að vera ánægjulegt starf þessa dagana!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2007 | 20:19
Gestir í kvöldmat
Tommi, Sigga, Anton, Anton og Guðný komu hér í kvöldmat. Þau eru þessa vikuna á gistiheimili skammt frá Billund og skoða sig um á sunnanverðu Jótlandi milli rigningarskúranna.
Ég ætla nú að hætta að væla yfir veðrinu, en fréttatímar eru fullir af rigningarfréttum frá Hróarskeldu og víðar. Veðurstofan var að gefa það út að úrkoman í júní hefði verið meira en tvöföld meðalúrkoma og hefði aðeins einu sinni mælst svipað, það var árið 1946. Sólskinsstundir einnig í algjöru lágmarki.
Við erum svo bara að pakka og hlökkum til að komast í sólskinið í Bergen - af öllum stöðum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 18:18
Hvað er gott veður?
Þá er komið að þeim fyrirkvíðanlegu dögum, við erum byrjuð að pakka saman hér í Árósum. Eigum von á gámi undir megnið af dótinu eftir tvo daga, troðum svo restinni í bílinn og siglum til Noregs um næstu helgi.
Gestakomum er að mestu lokið, einhver matarboð eru þó eftir. Vonandi verður kappið við niðurpökkun þó ekki svo mikið að það þurfi að sitja á gólfinu og borða af pappadiskum.
Við erum raunar farin að hlakka verulega til að koma heim og vonumst til að sjá þá bláan himin! Á meðan við fáum fréttir að heiman af sólbrenndu fólki og sólarexemi (að vísu líka hálku á fjallvegum!) horfum við dag eftir daga á gráan himininn. Eftir vikuna góðu sem Björk var hér með fjölskylduna hafa bara komið dagpartar með þokkalegu veðri. Danir eru almennt orðnir heldur daprir, útivistarsvæði eru tóm, einstaka harðjaxlar sitja kappklæddir á útiveitingahúsum og þegar við ókum með ströndinni nú síðdegis á sunnudegi voru þar örfáir á gangi með hundana sína. Og það er ekkert að sjá í veðurspánni annað en áframhaldandi "gráviðri". Nú í kvöld er enn byrjað að rigna og spáð mikilli úrkomu í nótt.
Það er svo sem þokkalega hlýtt á íslenskan mælikvarða, 15 - 18 gráður alla daga. En eftir þetta ár í Danmörku ég er að komast á þá skoðun að hitastigið skipti minnstu máli þegar talað er um gott veður.
Af því að mynd af pappakössum er varla mjög spennandi ákvað ég að nota tækifærið og birta með þessu bloggi mynd af einu gestum vetrarins sem sem gleymdist að heiðra með myndbirtingu á sínum tíma. Þórður og Helga voru raunar fyrstu gestirnir okkar og verðum við bara að biðjast forláts...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar