9.10.2006 | 11:24
(Kerfislæg) sambúðarslit
Eins og flestir sem þetta lesa vita, þá fluttum við Bjarni bara tveir til Árósa í ágúst, Gunna kemur svo til okkar í byrjun nóvember. Þetta héldum við að væri nú einfaldur gjörningur, en það er ekki að spyrja að velferðarkerfum landanna tveggja.
Við erum sem sagt komin með tvö lögheimili og þá er fjandinn laus. Íslenska kerfið fór auðvitað strax á stúfana og kannaði hvort ég hefði rænt barni, eða hvort móðirin hefði samþykkt þetta skipulag. Íslenska bankakerfið telur mig hafa stungið af frá öllum mínum skuldum og skilið (fyrrum) eiginkonu mína eftir í súpunni. Hún er því betur innanbúðar í bankakerfinu og hefur getað komið leiðréttingum á framfæri, annars væri sennilega búið að hirða af henni húsið og henda leigjendunum út.
Danska kerfið brást líka hratt og örugglega við. Við vorum boðnir velkomnir í bæjarfélagið og mér var boðin öll sú félagslega og uppeldislega aðstoð sem einstæðum föður bæri. Fékk meira að segja eyðublöð til þess að sækja um styrki þar að lútandi. Það er að vísu tekið fram að hart væri tekið á því ef menn svindluðu á þessu kerfi.
Steininn tók svo úr þegar ég fékk bréf þar sem mér var boðin aðstoð við að ættleiða drenginn ef hann væri ekki sonur minn (sennilega þarf að kynna dönum betur íslenska nafnakerfið).
Til að taka af allan vafa þá hyggjumst við Gunna taka upp sambúð að nýju í nóvember. En fari sem horfir munum við þurfa að gifta okkur að nýju. Lofa ég hér með herlegri brúðkaupsveislu þegar þar að kemur!
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er yndisleg frásögn!
Valdimar (IP-tala skráð) 14.10.2006 kl. 08:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.