Kötturinn í sekknum

Á ferð með tengivagninnÞá erum við Bjarni búir að vera á annan mánuð hér í Árósum og búnir að að koma okkur notalega fyrir. Það var þó ekki heiglum hent að koma húsgagnalaus til útlanda og ætla að koma sér þar huggulega fyrir. Einkum þó og sér í lagi ef maður er húsmóðurlaus og með IKEA fóbíu. En þetta er nú allt komið og ég orðinn sérfræðingur í að skrúfa saman mublur úr Jysk Sengetojslager og IKEA. Raunar er ótrúleg hvað auðvelt er að komast billega frá hlutunum í þeim búðum.

En mér finnst alveg ótrúlega leiðinlegt að ganga um búðirnar og ákvað því að góðra manna ráði að leita líka að húsgögnum á vefnum "guloggratis.dk". Þar má finna allt milli himins og jarðar, en töluvert happadrætti hvað maður dettur ofan á. Ég byrjaði á því að kaupa hjónarúm af gömlum manni, þetta fína rúm með góðum dýnum, miklu betra en ég hafði ímyndað mér eftir auglýsingunni. Átti þar að auki skemmtilegasta spjall við karlinn sem bjó í þjónustuíbúð aldraðra langt úti í sveit. Ólíkt huggulegra en búðarlokurnar í IKEA. Er þó ekki alveg klár á því hvers vegna hann var að selja hjónarúmið!

Því næst skrifborð sem reyndist vera mubla úr barnaherbergi, en nýtist mér mjög vel. Og enn og aftur átti ég skemmtilegt spjall við hjónin sem seldu mér borðið. Taldi pabbinn sig hafa átt eina fjórhjóladrifna VW bílinn í Danmörku þar til ég renndi í hlað.

Í dag keypti ég svo köttinn í sekknum í orðsins fyllstu merkingu. Vantaði alltaf sófasett í konjaksstofuna og fann sett á vefnum sem leit vel út á mynd og kostaði lítið. Gamla konan sem átti settið var í sumarfríi á Grænlandi en dóttir hennar og tengdasonur voru með lykla og við mæltum okkur mót. Ég leigði mér tengivagn af stærstu gerð á bensínstöðinni og þræddi sveitavegi langt norður í land. Þar fann ég húsið sem var af eldri gerðinni og innbúið eftir því. Kerla var orðin ekkja, var að reyna að selja kofann og vildi losna við sem mest af dótinu. Sófasettið var í sjónvarpsholi sem karlinn hafði fyrir löngu hólfað af uppi á lofti, eftir að sófasettinu hafði verið komið þar fyrir. Það komst sem sagt engan veginn út úr herberginu nema út út um gluggann. Það hafðist þó að lokum. Verra er að settið hafði greinilega ekki verið hreinsað í allnokkur ár, og augljóst að köttur, nokkuð laus í hárum,  hafi verið á heimilinu þessi ár. Settinu fylgdi sem sagt um það bil hálfur köttur. En ég átti skemmtilegar samræður við hjónin sem afhentu  mér settið.

Ég dröslaði settinu þó heim, hristi úr því mesta köttinn og það fer nú bara bísna vel í stofunni. Þar má nú sitja og horfa yfir á Mols og Molsfjöllin miklu sem hérlendir eru svo stoltir af.

Sófasettið bíður svo bara eftir gestum og nægur bjór í ísskápnum...


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mikið er ég fegin að ég er ekki með ofnæmi fyrir köttum og enn síður öli. Velkomin til Danmerkur og mér finnst þú hafa staðið þig vel í húsgagnakaupum!

Brynja (IP-tala skráð) 17.9.2006 kl. 08:24

2 identicon

Þetta er gaman, en ég er í vandræðum með að birta til dæmis skráningu í gestabók af því ég er sennilega ekki skráður notandi, þó að mig reyndar minni það.

Sverrir Páll (IP-tala skráð) 17.9.2006 kl. 08:25

3 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Ég ætti ekki að vera í vandræðum framar hér nema ég gleymi enn á ný hvaða notandanafn ég hef og lykilorð. Það er gamla sagan.

Sverrir Páll Erlendsson, 17.9.2006 kl. 12:44

4 identicon

Einhvern veginn ásækja þeir þig alltaf kettirnir. Það er gaman að fylgjast með ykkur feðgum þarna úti og ég vona að ykkur gangi áfram allt í haginn. Gaman væri nú að drífa sig þarna niður eftir til ykkar og eiga örfáa daga með ykkur og sjá til þess að endurnýja innihald ísskápsins aðeins hraðar en ella gerist.

Ég verð að viðurkenna að ég sakna þín smávegis. Sérstaklega nú þegar ég er að reyna að upphugsa einhvern déskotann fyrir nemendur að gera í UTN :o)

Hafið það sem best.

Guðjón H. Hauksson (IP-tala skráð) 17.9.2006 kl. 21:59

5 identicon

Já, þetta er býsna skemmtilegt - þegar það er frá, nefnilega að kaupa gamalt og sjá hvernig tekst til.
Mér sýnist ykkur líða bærilega og það er gott.
Hér líður líka bærilega og haustferð þokast nær og nær.
Bið að heilsa

Valdimar Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.9.2006 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Árósar

Tónlistarspilari

Bamses Venner - Klip i mit kørekort

Höfundur

Jónas Helgason
Jónas Helgason
Myndir og pistlar frá Árósum
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 098
  • 094
  • 090
  • 087
  • 086

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband