16.3.2007 | 19:13
Það er leikur að læra
Eins og margoft hefur komið fram var það aldrei ætlun okkar hjóna að taka námið mjög alvarlega. En svo kemur upp í þetta margfræga keppnisskap - eða þrjóska - og við gleymum öllum fögrum áformum. Þegar við komum heim í gær beið Gunnu bréf frá Sprogskólanum um að hún hefði náð prófinu um daginn með sóma og flyttist því með bekknum sínum upp á næsta stig í náminu. Vel af sér vikið sé til þess litið að hún hafði ekki tekið próf í marga áratugi. Hún er hins vegar ákveðin í að standa við upphaflegar áætlanir um að vera bara í skólanum fram að páskum, og njóta svo vorsins og taka á móti gestum eftir það.
Ég var sjálfur orðinn verulega efins um að ég hefði skilið kennarann minn rétt (ég á það enn til að skilja ekki allt sem sagt er á þessu undarlega tungumáli sem hér er muldrað). Gæti það verið að ég ætti að mæta með plakat í skólann? En úr því að ég var nú búinn að aka 1.000 km til þess að geta mætt í tímann varð ekki aftur snúið. Þegar ég mætti voru nemendur að tínast inn, hver með sitt plakat og létti mér mjög að sjá það. Það kom svo í ljós að mitt plakat var með þeim flottustu og með ræðunni sem ég flutti með sýningunni tryggði ég mér bestu umsögn og mikla hvatningu til að halda áfram á hönnunarbrautinni. Þar væri ég greinilega á réttri hillu!
Ég mun aldrei viðurkenna að ég hafi farið rangt með neitt, en ég lagaði ræðu mína nokkuð að lesefni sem kennarinn hafði sjálfur skrifað og lét sem flest á plakatinu falla að hans kenningum um gott hönnunarferli. Svo tókst mér að kenna stórhríðinni um daginn um það sem ekki passaði fullkomlega.
Bjarni var að koma úr stífri námsferð til Brussel þar sem hann fór m.a. í höfuðstöðvar NATO og ESB. Einnig könnuðu nemendur lítillega gæði belgíska bjórsins...
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég ætla ekki að segja neitt um þetta plakat, ferðalög þín og GPS skort eða annað. En ef þú heyrir mig glotta þá getur það vel verið rétt. Í augnablikinu hef ég hins vegar meiri áhyggjur af veðrinu í Mývatnssveit og sálarró kollega minna í Randers-verkefninu. Jæja, þá er það bara plan B og reyna að vera mátulega ligeglad.
Stefán Þór Sæmundsson, 16.3.2007 kl. 20:43
Þessi kennaralegu viðbrögð - viðurkenna aldrei nein mistök, hafa rétt fyrir sér í hvívetna - er þetta ekki kennt í dönskum háskólum? Mér finnst ég kannast við þetta frá a.m.k. kennara sem lærði - eða var í skóla - í Danmörku.
Valdimar Gunnarsson, 17.3.2007 kl. 16:23
Ég sé fyrir mér að við eyðum um fjórum til fimm vikum af pensúmi UTN101 á næsta ári í papir siluetter af den fineste slags.
Glæsilegur árangur þetta, Jónas. Til hamingju!
Guðjón H. Hauksson, 17.3.2007 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.