29.1.2007 | 20:16
Öðruvísi dagur - en líka ógleymanlegur
Tókum það rólega á sunnudagsmorguninn eftir alla spennuna og spennufallið á laugardaginn. Kúrðum undir sæng fram yfir hádegi (meira að segja ég!) enda veðrið hundleiðinlegt og ekkert annað gera en bíða eftir að ballið byrjaði í Halle síðdegis. Vorum ákveðin í að ná góðum sætum í tjaldinu til að horfa á leik Þýskalands og Íslands. Héldum því tímanlega af stað og tókum það rólega til Halle, ég ók á aðeins um 100 km hraða eftir hraðbrautinni. Það þótti Bjarna illa farið með góða hraðbraut og held ég að hann hafi saknað þess að hafa ekki Helga undir stýri!
Þegar við mættum að höllinni var fólk tekið að flykkjast að hliðunum, en þá reyndist af einhverjum ástæðum enn klukkutími í að svæðið yrði opnað. Bjarni tók að sér að standa í röðinni í slagviðri og kulda. Við gömlu settumst aftur út í bíl og settum í gang til að halda á okkur hita. Til þess að hinn íslenski dagljósabúnaður lýsti ekki stöðugt á fólk sem var að mæta á svæði setti ég stöðuljósin á. Það varð seint um kvöldið til þess að ég lærði þýska orðið "Starthilfe", en það er önnur saga. Þegar loks var hleypt inn og við komumst til Bjarna var hann bara nokkuð hress, enda hafði einhver góðviljaður heimamaður mætt í röðina með fullan poka af litlum Jägermeister flöskum og útdeilt til þurfandi.
Ekki var jafnmargt í tjaldinu og daginn áður, og allt önnur stemming á svæðinu. Það var alveg ljóst hvaða þjóðir komust áfram og þjóðverjar mjög afslappaðir. Við reyndumst einu Íslendingarnir á svæðinu og reyndum okkar besta til að klappa fyrir okkar mönnum innan um þúsund þjóðverja sem bara brostu góðlátlega að okkur. Samt ótrúlega gaman að upplifa stemminguna við sjónvarpið! Leikirnir í höllinni voru svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir, a.m.k. ekki eftir hasarinn í gær. Túnisar sáu þó fyrir nokkurri skemmtun í undir lok leiksins við Frakka.
Það var svo með söknuði sem við héldum heim í dag. Ókum sem leið lá í fallegu veðri norður eftir þýskalandi og stoppuðum ekki sem heitið getur fyrr en í Flensborg. Þar gerðum við langt stopp, skoðuðum bæinn - og eins og ekta Danir fylltum við bílinn af bensíni, bjór og brennivíni áður en við héldum yfir landamærin.
Nú er hins vegar spennan tekin að magnast enn á ný. Framundan er leikurinn við Dani. Ef við vinnum er líklega betra að láta fara lítið fyrir sér um sinn, ef við töpum verðum við örugglega að þola margar háðsglósurnar. Þótt það hljómi undarlega hlakkar Bjarni til þess að mæta í skólann á miðvikudaginn!
Um bloggið
Árósar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gott og gaman að fá þessar fréttir, skil vel þetta með meðferð hraðbrauta mæta vel. Síður þetta með löngun til skólanáms. Vaknar nú spurningin hvort hafst hafi upp á Andrési.
Sverrir Páll Erlendsson, 29.1.2007 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.