Tívolí og hjartaaðgerð

Í TívolíSumarblíðan lætur á sér standa, alskýjað og smásúld öðru hverju í dag. Drifum okkur þó í Tívolí og vorum þar lengi dags ásamt örfáum öðrum gestum. Anton prófaði hvert tækið á fætur öðru og skemmti sér konunglega.

Svo var grillað við frumstæðar aðstæður í rigningu undir kvöldið. Að máltíð lokinni lagði Anton afa sinn á gólfið og tók fram öll sín smíðatól. Boraði gat á brjóstkassann, sagaði burtu óþarfa bein og kom fyrir nýju hjarta sem hann bjó til úr leirnum sínum. Notaði svo tækifærið og festi allar lausar skrúfur í gamla manninum.

Það þarf ekki að taka það fam að það verður söknuður á bænum þegar þau halda í burtu á morgun, en það er þó gott til þess að vita að ekki líður jafnlangt og síðast þar til við hittumst aftur.


Íslendingar í sumarfríi...

Anton búinn að moka yfir pabba sinn...halda sínu striki hvað sem tautar og raular. Við vorum alltaf með það á planinu að fara á ströndina í dag, og það gerðum við auðvitað. Það var farið að létta verulega til um hádegið þótt enn væri hvasst og hitinn ekki nema um 15 gráður. Til þess að reyna að finna skjól varð að finna strönd sem snéri "rétt". Héldum því til Grenaa og drifum okkur þar í sólbað. Sólin skein raunar bara endrum og sinnum milli skýjanna og stormurinn feykti sandinum um ströndina. Við gáfumst þó ekki upp og fórum meira að segja í sjóinn um stund. Hann var ískaldur og enn kaldara var að koma upp úr.

Það þarf varla að taka fram að við vorum nánast ein með alla ströndina. Bæjarstarfsmenn voru að gera við girðingar, kappklæddir í næðingnum og nokkrir sumarbústaðagestir komu fram á bakkann til þess að sjá fólkið sem var í sólbaði við þessar aðstæður.

En við skemmtum okkur vel um stund og náðum að gera allt sem tilheyrir svona strandferð eins og sést á myndinni.


Hið versta hrakviðri

Hrakviðri í júnílokÞað er fátt hægt að segja um daginn í dag annað en að hér gekk yfir versta veður á þessum árstíma í manna minnum. Þó telja langminnugir að hugsanlega hafi komið svipaður dagur í júnílok 1932. Það rigndi um 60 mm seinni hluta nætur og í morgun, vindur hefur verið upp undir 20 metrum á sekúndu og hitinn fallinn niður í 10 gráður nú undir kvöldið. Tré hafa fokið, ferjur liggja í höfnum og þýskir túristar foknir til síns heima með tjöldum sínum og öðrum farangri.

Til þess að gera nú eitthvað úr deginum tókum við það til bragðs að fara í sund. Eina nothæfa sundlaugin fyrir fjölskyldufólk er í Horsens, en þótt veðrið væri mikið tekið að lagast tók um klukkustund að komast þangað. En við skemmtum okkur þar vel og lengi.

En veðurspáin er betri fyrir næstu daga og vonandi að við getum verið meira úti við, jafnvel komist með nestiskörfu niður að ströndinni.


Aðeins að glaðna til

Sullað við SilkeborgEftir úrhellisrigningu í gærkvöldi og framundir morgun glaðnaði til undir hádegið. Við pökkuðum þá enn einu sinni í nestiskörfuna og héldum í bíltúr. Litum við á nokkrum af hæstu hólum Danmerkur og ókum svo í átt til Silkiborgar. Þegar við nálguðumst bæinn var sólin farin að sýna sig og við stoppuðum því á baðströndinni góðu við stöðuvatnið rétt sunnan við bæinn. Drifum nestiskörfuna fram á vatnsbakkann og fórum úr sokkum og skóm og sulluðum um stund. Höfðum alla ströndina fyrir okkur, heimamenn virtust ekki hafa áttað sig á að veðrið væri orðið þolanlegt.

Nú er aftur spá hellirigning á morgun en síðan virðist bjartara framundan. Ekki veit ég hvort það stendur í einhverju samhengi við að Hrólfur bróðir og hans familía fljúga heim á morgun. Hitinn féll jú um 10 stig þegar þau komu til landsins...


Hvert fóru sumarið og sólin?

Úti í sandkassaSérlega gaman að hafa Anton og fjölskyldu í heimsókn. Hér er mikið smíðað, leirað og lesið þessa dagana.

Verst að danska sumarið er ekkert í neinu hátíðarskapi. Eftir veðurblíðuna fyrst í mánuðinum er hann nú lagstur í votviðri og vindbelging upp á hvern dag. Það er svo sem hlýtt, það vantar ekki, en baðstrandablíðan sem var um daginn er fyrir bí að sinni.

Við reynum samt að láta þetta ekki á okkur fá, förum bara í pollagallann og leikum okkur úti. Heimsækjum svo verslunarmiðstöðvar og förum í bíltúra. Það hlýtur svo að stytta upp bráðum...


Anton afastrákur

Afi og AntonAnton mætti á flugvöllinn í Billund með foreldrum sínum í gærkvöldi og við tókum auðvitað á móti þeim þar. Þreifuðum okkur í gegnum reykjarmökkinn frá óteljandi jónsmessubrennum heim til Árósa.

Í dag höfum við svo verið á ferðinni, byrjuðum á því að heimsækja "bambagarðinn", stóra girðingu í suðurbænum þar sem "bambar" ganga um í stórum hjörðum, spjalla við börnin og þiggja gulrætur og epli af ferðamönnum. Fannst Antoni þeir jafnvel fullágengir á stundum og notaði lítið prik til að halda þeim í öruggri fjarlægð.

Síðdegis fórum við svo á ströndina í piknikk þótt veðrið væri ekki alveg nógu gott til sólbaða. Gaman samt að sulla aðeins og leika sér í sandinum. Nú er amma gamla að leira við stofuborðið.


Smástund milli stríða

SjúkraskírteiniðÁrni, Kristín og krakkarnir fóru frá okkur í morgun eftir skemmtilega daga - og allt í einu erum við tvö í kotinu og verðum það alveg þar til á morgun! Við brugðum okkur í sund og sitjum nú og skrifum á minnislistann það sem eftir er að gera fyrir heimferð. Það er nefnilega svo ótrúlegt að við eigum ekki eftir að vera hér í nema tvær vikur. Að það séu liðnir 11 mánuðir síðan ég tróð dótinu okkar í bílinn og kom honum í skip er einhvernveginn svo óraunverulegt.

Bjarni hefur það gott heima á Akureyri, hnéð tekur mjög hröðum framförum undir öruggri stjórn Gunnars Svanbergssonar. En kerfið er samt við sig, eins og ég nefndi áður á blogginu var ekki alveg sjálfsagt að hann mætti flytja frá foreldrum sínum, ekki orðinn 18 ára. Það varð því úr að við sögðum af okkur sem foreldrar hans og gáfum skriflega yfirlýsingu um að Helgi bróðir hans tæki við umsjón með barninu. Svo tók auðvitað tryggingastofnun við sér og gaf út nýtt sjúkraskírteini fyrir Helga þar sem Bjarni telst vera barn hans! Þetta skírteini verður geymt með öðrum minjagripum um þessa Danmerkurdvöl.

Svo er bara spurningin hvort Helgi afhendir okkur barnið aftur þegar við komum heim, eða hvort hann heldur honum með öllum sínum kostum og göllum, borgar fyrir hann bílprófið o.s.frv.


Sundkappar og safnaferðir

Buslað í sjónum á Fölle ströndinniAðeins skroppið í búðir í gærmorgun, en þegar brast á með blíðviðri um hádegið var ekki lengur til setunnar boðið. Pökkuðum nesti og nýjum, dönskum skóm í körfu og héldum á uppáhaldsströndina okkar, Følle strand, lögðumst þar í sólbað og busluðum í sjónum fram eftir degi. Ég tók auðvitað töluvert af myndum (og bróðir minn tók einar líka tvær). Mér voru hins vegar settar nokkrar skorður hvað varðar birtingu myndanna á vefnum.

Síðdegis sýndum við gestunum meira af Mols og skoðuðum okkum m.a. um í Femmøller og Ebeltoft.


í dag var fyrst haldið í Bazar Vest og City Vest, en upp úr hádegi ókum við norður til Gl. Estrup og skoðuðum söfnin þar. Byrjuðum á herragarðssafninu, en síðan héldum við yfir á landbúnaðarsafnið. Var ósköp notalegt að ganga um með litlabróður og skoða vélarnar, sjá marga gamla kunningja úr sveitinni eins og Massey Ferguson Starra í Garði og Fordson Major þeirra Vogunga (eða áttu þeir kannski bara Ford?). Þegar loka átti safninu munaði minnstu að við yrðum innlyksa hjá gömlum þreskivélum og þúfubönum.


Vídeó og verslunarferðir

Mac og netvandræðiÓskar, Helga og fjölskylda héldu af stað suður til Þýskalands snemma í morgun. Áður en farið var í háttinn í gær barðist Sindri við að koma ferðasögunni á vídeóformi inn á bloggið sitt. Naut hann þar öruggra leiðbeininga okkar bræðra eins og sést á myndinni. Gekk frekar brösuglega, enda maðurinn með Macintosh tölvu (!). Kannski má þó kenna netsambandi heimilisins um frekar en tölvunni. Ég mæli eindregið með að menn líti á bloggið hans, og spili vídeóið þar sem hann hælir Gunnu fyrir matseldina og mér fyrir netsambandið!

http://sindri-sax.blogspot.com/

Þær konur sem eftir voru héldu í verslunarferð fyrir hádegið, svona til þess að taka úr sér mesta hrollinn. Eftir hádegið fóru svo Árni og Kristín með litlu krílin sín tvö til Randers til þess að skoða regnskóginn og dýrin þar.

Pizza í kvöldmatinn...


Fjölmenni á þjóðhátíð

Kvöldganga í EgåÞótt fyrirsögnin hljómi eins og í Mogganum eftir verslunarmannahelgi, þá á þetta við um Bredkær Vænge þann 17. júní.

Hér komu sem sagt í gær Óskar, Helga og synirnir þrír akandi utan úr rigningunni í gær og fengu að tjalda sínu fellihýsi á bílastæðinu. Vakti það brambolt nokkra athygli nágrannanna, og gengu pólverjarnir af neðri hæðinni nokkra hringi í kringum landroverinn. Þykir hann líklega nokkuð tröllslegur fyrir danskar íbúðagötur.

Svo komu Árni, Kristín og Sveinn Áki úr ferð sinni til Skagen og komu sér fyrir í gestaherberginu.

Eftir kvöldmatar-kjúklingabringurnar förum við í langa gönguferð um Egå og komum m.a. við á hverfiskránni góðu við höfnina.

Nú bíðum við eftir því að Elísabeth birtist með lestinni frá Kaupmannahöfn. Þegar hún verður komin verður hér þjóðhátíðarkvöldverður með þessum stóra gestahópi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Árósar

Tónlistarspilari

Bamses Venner - Klip i mit kørekort

Höfundur

Jónas Helgason
Jónas Helgason
Myndir og pistlar frá Árósum
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 098
  • 094
  • 090
  • 087
  • 086

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband